Svekktur Framherjinn Alexander Isak átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum eftir að Pólverjinn Szymon Marciniak flautaði til leiksloka í París.
Svekktur Framherjinn Alexander Isak átti erfitt með að leyna vonbrigðum sínum eftir að Pólverjinn Szymon Marciniak flautaði til leiksloka í París. — AFP/Alain Jocard
Newcastle þurfti að sætta sig við grátlegt jafntefli, 1:1, þegar liðið heimsótti París SG í F-riðli Meistaradeildarinnar í knattspyrnu í París í gær. Alexander Isak kom Newcastle yfir á 24. mínútu með skoti af stuttu færi eftir lúmskt skot Miguels Almiróns, rétt utan teigs

Newcastle þurfti að sætta sig við grátlegt jafntefli, 1:1, þegar liðið heimsótti París SG í F-riðli Meistaradeildarinnar í knattspyrnu í París í gær.

Alexander Isak kom Newcastle yfir á 24. mínútu með skoti af stuttu færi eftir lúmskt skot Miguels Almiróns, rétt utan teigs.

Gianluigi Donnarumma varði boltann beint út í teiginn fyrir fætur Isaks sem skoraði af stuttu færi úr markteignum.

Kylian Mbappé jafnaði svo metin fyrir París SG þegar átta mínútur voru liðnar af uppgefnum uppbótartíma síðari hálfleiks með marki úr vítaspyrnu.

Boltinn fór í hönd Valentinos Lovramentos innan teigs og Pólverjinn Szymon Marciniak benti á punktinn eftir að hafa skoðað atvikið sjálfur í VAR-myndbandsskjánum.

Borussia Dortmund, sem vann 3:1-sigur gegn AC Milan í Mílanó, er komið áfram í 16-liða úrslitin eftir sigur gærdagsins en París SG er í öðru sæti riðilsins með sjö stig, Newcastle er með fimm stig í þriðja sætinu og AC Milan fimm stig í fjórða sætinu.

Newcastle tekur á móti AC Milan í Newcastle í lokaumferðinni en Borussia Dortmund fær París SG í heimsókn í Dortmund.

Í gær tryggðu Atlético Madrid, Lazio og Barcelona sér svo öll sæti í 16-liða úrslitum keppninnar en Bayern München, Real Madrid, Real Sociedad, Inter Mílanó, Manchester City og RB Leipzig höfðu öll tryggt sér sæti í útsláttarkeppninni fyrir umferðina.

Arsenal og Napólí geta svo bæði tryggt sér sæti í 16-liða úrslitunum í kvöld en dregið verður í 16-liða úrslitin í höfuðstöðvum UEFA í Nyon í Sviss 18. desember.

Fyrri leikirnir fara fram 13. og 14. febrúar og þeir síðari 20. og 21. febrúar en lið frá sama landi geta ekki dregist saman í 16-liða úrslitunum, né lið sem léku í sama riðli í riðlakeppninni.