Tómas Hilmar Ragnarz, forstjóri Regus á Íslandi, segist aldrei í sjö ára sögu fyrirtækisins hafa séð önnur eins viðbrögð og nýtt skrifstofusetur Regus á Kirkjusandi hafi fengið.
„Við erum 39% uppseld nú þegar og samt opnum við ekki fyrr en í febrúar á næsta ári,“ segir Tómas.
Hönnun húsnæðisins er sér á báti að sögn Tómasar. „Þarna erum við líklega að búa til eitt glæsilegasta skrifstofuhúsnæði á landinu. Gæðin eru fyrsta flokks og umhverfislega er húsnæðið einnig á stigi sem ekki hefur sést áður,“ bætir forstjórinn við.
Í nýja húsinu verða sextíu rými sem henta allt frá 1-4 manna fyrirtækjum upp í 20-60 manna félög.
Tómas segir að fyrirtæki kunni vel að meta sveigjanleikann sem Regus bjóði upp á. Allt gangi út á að hlusta á óskir viðskiptavina og mæta þeim.
„Umhverfismálin skipta okkur líka gríðarlegu máli. Við kolefnisjöfnum allt sem við gerum og stefnum að því að ná mínustölu í kolefnisbókhaldinu. Allar ákvarðanir varðandi húsnæðið eru teknar með tilliti til þessa,“ segir Tómas að lokum.