Óli Björn Kárason
Verkefnið er í sjálfu sér einfalt: Á komandi 15 árum hefur verið ákveðið að ríkið skuli verja yfir 85 milljörðum króna til að styðja við listir og menningu, styrkja íslenska tungu, stuðla að lýðræðislegri umræðu og ýta undir menningarlega fjölbreytni. Þetta þýðir að árlega renna úr sameiginlegum sjóði – ríkissjóði – nær 5,7 milljarðar króna á föstu verðlagi til verkefnisins. Fjárveitingavaldið – Alþingi – verður að leysa þetta verkefni og ákveða hvernig skynsamlegast sé að standa að verki – leita leiða til að tryggja skilvirka nýtingu fjármuna. Með öðrum orðum: Að markmiðum verði náð.
Það er í eðli sumra stjórnmálamanna að leita alltaf kerfislægra lausna þegar tekist er á við verkefni. Þess vegna hugleiða þeir vel þann kost að koma á fót sérstakri stofnun undir merkjum opinbers hlutafélags sem falið verður að nýta fjármunina. Hugmyndin er að ráða yfir 250 manns í fulla vinnu og einhverja tugi verktaka, koma sér fyrir í of stóru húsnæði, kaupa tæki og tól, myndver og upptökustúdíó, útsendingarbíla og allt sem þarf til að reka útvarps- og sjónvarpsmiðla, að ógleymdum vef og hlaðvarpsþáttagerð. Búast má við að launakostnaður opinbera hlutafélagsins verði svipaður og það kostar að reka allt dómskerfið á Íslandi. Slíkt er talið eðlilegt.
Kerfishugsuðirnir láta ekki þar við sitja. Þeir telja að 5,7 milljarðar á ári hrökkvi skammt ef ná á markmiðum um að stuðla að lýðræðislegri umræðu og menningarlegum fjölbreytileika! Þess vegna verði að nýta nokkurn hluta þeirra fjármuna sem skattgreiðendur láta af hendi til „málstaðarins“ til að fjármagna strandhögg hjá sjálfstæðum fjölmiðlum. Strandhöggið er talið skila yfir tveimur milljörðum króna á ári. Þannig eru hinu nýja ríkisfyrirtæki tryggðir um átta milljarðar króna – 8.000 milljónir – á hverju ári. Auðvitað blæðir sjálfstæðum fjölmiðlum, en samkvæmt kerfishugsuninni er það sanngjarn fórnarkostnaður.
Sem sagt: Kerfiskarlarnir og -kerlingarnar leggja til að á næstu 15 árum hafi ríkisfyrirtæki um 120 milljarða til ráðstöfunar – bein ríkisframlög og tekjur af samkeppnisrekstri við einkaaðila – í nafni lista, menningar og lýðræðis!
Afturreka
Ofangreint verkefni kæmi til kasta löggjafans ef Ríkisútvarpið væri ekki til. Listamenn, sjálfstæðir kvikmynda- og dagskrárgerðarmenn hefðu tækifæri til að móta stefnuna. Þeir líkt og stjórnmálamenn geta auðvitað látið kerfishugsuðina ráða för. Ég neita að trúa öðru en að þeir sem legðu fram tillögu um að stofna ríkisrekið fjölmiðlafyrirtæki á 21. öldinni yrðu gerðir afturreka. Að hlegið yrði að hugmyndinni enda gamaldags og ekki í takt við samtímann, hvað þá framtíðina. Hún myndi snúast upp í andhverfu sína; fjölbreytileiki í listum og menningu minnka, lýðræðisleg umræða yrði takmarkaðri og flóra íslenskra fjölmiðla fátækari. Tækifæri lista-, kvikmynda- og dagskrárgerðarmanna yrðu fábreyttari en ella. Þeir yrðu háðir valdinu.
Einhverjir vinir mínir og samherjar klappa mér sjálfsagt góðlátlega á bakið: Mikil er trú þín og sannfæring – hvort tveggja reist á sandi. Og kannski hafa þeir eitthvað til síns máls. Það er að a.m.k. merkilegt hve illa er brugðist við þegar spurt er hvort önnur og betri leið sé ekki fær til að styðja við íslenska dagskrárgerð, menningu, listir og sögu en að reka opinbert hlutafélag.
Ríkismiðill, sem fjármagnaður er með lögþvingun einstaklinga og fyrirtækja, er fjölmiðill sem lýtur ekki agavaldi áskrifenda, lesenda, áhorfenda og hlustenda, ólíkt sjálfstæðum miðlum.
Ríkisreksturinn hefur hægt og bítandi orðið til þess að við höfum misst sjónar á markmiðum þess að veita fjármunum, úr sameiginlegum sjóðum, til að styðja við listir og menningu, stuðla að fjölbreytileika og opinni umræðu. Ég hef ítrekað bent á þá staðreynd að á sama tíma og sjálfstæðir fjölmiðlar berjast í bökkum vænkast hagur Ríkisútvarpsins, umsvifin aukast og dagskrárvaldið styrkist. Fáir treysta sér, allra síst stjórnmálamenn, til að fara gegn ægivaldi ríkisins í fjölmiðlun. Það er auðvelt fyrir umræðustjóra ríkisins að setja gagnrýnendur út af sakramentinu og takmarka aðgang þeirra að ríkisreknum ljósvakamiðlum.
Flestum stjórnmálamönnum líður líklega betur inni í hlýjunni í Efstaleiti en að standa úti í kuldanum. Þess vegna er skjaldborgin um ríkisreksturinn jafn sterk og raun ber vitni. Og þess vegna vilja stjórnmálamenn fremur kaupa sér aflátsbréf í formi beinna ríkisstyrkja til sjálfstæðra fjölmiðla en stokka upp spilin, leiðrétta leikreglurnar og tryggja fjölbreytileikann. Fáir hafa áhyggjur af þeirri þversögn sem felst í því að gera sjálfstæða fjölmiðla fjárhagslega háða ríkisvaldinu.
Gegn kerfishugsun
Hvað ef Ríkisútvarpið væri ekki til? Hvaða og hvers konar stjórnmálamenn eru tilbúnir til að standa að baki tillögu um að stofna ríkismiðil? Hafi ég rétt fyrir mér um að þeir séu fáir er von til þess að hægt verði að ná samstöðu um að stokka upp spilin og nálgast verkefnið án þess að ríkisvæða listir og menningu.
Þrátt fyrir að vinir mínir séu sannfærðir um annað, þá neita ég að trúa því að kerfishugsunin sé orðin svo rótgróin meðal stjórnmálamanna og lista-, dagskrárgerðar- og kvikmyndagerðarmanna (sem öðrum fremur ættu að vera gagnrýnendur valdsins), að þeir telji einu réttu leiðina til að leysa 85 milljarða verkefnið að stofna ríkisfyrirtæki sem hefur auk þess frelsi til að sjúga súrefni og þar með mátt úr sjálfstæðum fjölmiðlum.
Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.