Ingólfur Ómar sendi mér póst á sunnudag, sagði að nú skyggði ansi fljótt og dagsbirtan varði stutt:
Húmið ugg að dregur drótt
dagur hnugginn grætur.
Brátt á glugga birtist skjótt
blakkur skuggi nætur.
Helgi R. Einarsson sendi mér lausn á laugardagsgátunni og lét tvær limrur fylgja með þeirri skýringu að þátturinn Tungutak í Morgunblaðinu var m.a. um á og þá varð þessi til:
Á
Bjarni bóndi á
bænum Syðri-Á
konu á,
kú og á,
samt eitthvað vantar á.
Nískupúkinn
„Hungrið hrjáir þig,“
hreytti' ann oft í mig.
En hrotti margur
heimskur, argur,
heldur mig sig.
Á Boðnarmiði yrkir Magnús Halldórsson limru:
Hann Ágúst var alsæll í trúnni,
þótt ónotum sætti hjá frúnni.
Af því að hann,
yfirleitt fann
eindreginn stuðning frá kúnni.
Jón Jens Kristjánsson yrkir Á úthallanda gylliboðahelgi:
Um helgina fór ég víst margs á mis
margt var þó boðið heimsins glys
leit samt á heilræði laus við þys
á látt' ekki snuða þig .is
Guðrún Bjarnadóttir yrkir Á leið suður:
Hérna Kotstrandarkirkja
kúrir á bak við tré.
Held ég áfram að yrkja
eða dreg mig í hlé?
Limra eftir Stein Kristjánsson:
Hún Kaðlín sem kennd var við Gjögur,
svo kotroskin, húsleg og mögur
byrjaði að búa
með Bergsveini Dúa
á Fornhaga 24.
Friðrik Steingrímsson um Grasreykingar í ráðhúskjallara, mbl.is:
Eftir funda þvarg og þras
og þreytu dagsins anna,
í bílageymslu bíður gras
borgarstjórnar manna.
Hjörtur Benediktsson sbr. Þingmaður of lengi á salerni. Sjá mbl. og dv.:
Um veröldu fer nú sú vissa
samt virðast hér fáir mjög hissa
þeir eru mjög spes
um það ég les
að píratar leng'er' að pissa.¶ Hann Skeggi fékk skammir hjá frúnni,¶ því skipstjóri var hún í brúnni,¶ hún sagði hann gauð¶ og gagnslausan sauð,¶ sem best væri kominn hjá kúnni.¶ Menn eru að komast í jólaskap. Jón Jens Kristjánsson yrkir:¶ Á jólunum oft berast bjarmar gylltir¶ um blásnar heiðar, dalverpi og hvilftir¶ um jörðu fara þᶠjafnan til og frᶠjólasveinar einn og áttavilltir.¶ Öfugmælavísan:¶ Stóran má hafa stein í dufl,¶ standa á járni heitu,¶ úr þokunni gera þykkan kufl.¶ þurrka traf í bleytu.¶ Halldór Blöndal