Gjafakort frá verslunarmiðstöðinni Smáralind er vinsæl jólagjöf hjá fyrirtækjum. Einnig hafa gjafakort með peningainneign verið vinsæl.
Gjafakort frá verslunarmiðstöðinni Smáralind er vinsæl jólagjöf hjá fyrirtækjum. Einnig hafa gjafakort með peningainneign verið vinsæl. — Morgunblaðið/Eggert
Upphæðir sem fyrirtæki mega eyða í jólagjafir til starfsfólks án skattlagningar eru óþægilega matskenndar eins og á við um margt á sviði skattamála, að mati Páls Jóhannessonar skattasérfræðings hjá lögfræðistofunni BBA Fjeldco, en ViðskiptaMogginn leitaði til hans vegna málefnisins

Upphæðir sem fyrirtæki mega eyða í jólagjafir til starfsfólks án skattlagningar eru óþægilega matskenndar eins og á við um margt á sviði skattamála, að mati Páls Jóhannessonar skattasérfræðings hjá lögfræðistofunni BBA Fjeldco, en ViðskiptaMogginn leitaði til hans vegna málefnisins. Skattyfirvöldum er þannig látið eftir mat hverju sinni á því hvað getur talist „meira en almennt gerist um slíkar gjafir“, eins og það er orðað í tekjuskattslögum. Slíkt mat getur m.a. ráðist af tíðaranda, eins og Páll útskýrir.

Lengi hefur tíðkast að fyrirtæki gefi starfsfólki og viðskiptavinum gjafir um jólin. Oft birtast af því fréttir í fjölmiðlum. Þannig voru gjafakort vinsæl gjöf í fyrra og má þar nefna kort frá YAY, Kringlunni og Smáralind eða frá fyrirtækjum eins og 66°Norður og flugfélögunum Play og Icelandair svo fátt eitt sé talið.

Einnig hafa gjafakort með peningainneign verið vinsæl en samkvæmt orðsendingu ríkisskattstjóra til launagreiðenda teljast peningagjafir launagreiðanda til starfsmanna alltaf til skattskyldra tekna viðtakanda, hvort sem gjöfin er í beinhörðum peningum, innlegg á bankareikning eða afhending á bankakorti.

Svokölluð skattmatsupphæð ársins í ár er 163 þúsund krónur. Samkvæmt orðsendingu Skattsins er það samanlögð upphæð á starfsmann allt árið en þessi fjárhæð hefur ekki hækkað mikið sl. ár þrátt fyrir verðbólgu. Inni í þeirri tölu eiga að rúmast árshátíðir, jólahlaðborð, starfsmannaferðir eða annað, en jólagjafir eru ekki sérstaklega tilteknar. Framangreint skal ekki telja til tekna enda sé að jafnaði um að ræða upplyftingu og góðgerðir sem standi öllum starfsmönnum launagreiðandans til boða, eins og það er orðað.

Hlunnindi og fríðindi af umræddum toga umfram 163.000 kr. skulu teljast starfsmanni til tekna samkvæmt Skattinum, hvernig sem fyrirkomulagi á greiðslum er háttað.

Páll segir að orðalagið í skattalögum sé dálítið loðið en vísað sé til gjafa sem séu innan eðlilegra marka í verðmati og fjárhæðum. Gagnrýna megi hversu matskennt þetta er eins og á við um skattalög almennt hér á landi að mörgu leyti. Ekki sé augljóst að jólagjafir eigi að falla undir hámarksfjárhæð skattmatsins (163 þúsund krónur), um hlunnindi og fríðindi sem tengjast starfi, enda séu þær innan þessara óljósu marka um tækifærisgjafir. Vera megi þó að Skatturinn líti til þess. „Erfitt er að gefa betri leiðbeiningar en að beita þurfi skynsemismati í því hvað geti talist eðlileg tækifærisgjöf,“ segir Páll Jóhannesson að lokum.