Vélsmiðja Grindavíkur hefur fengið leyfi til að hafa verslun sína í Grindavík opna milli klukkan 9 og 16 enda talsvert af verktökum í bænum að vinna að því að lagfæra lagnakerfið og fylla í þær sprungur sem myndast hafa. Þegar útsendarar blaðsins komu við síðdegis í gær sátu þar Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs Grindavíkur, Hörður Sigurðsson, bóndi á Hrauni, og Páll Valur Björnsson, kennari í Fisktækniskólanum, og drukku kaffi.
Lífið í bænum var meðal þess sem var til umræðu hjá þeim félögum yfir kaffibollanum í kaffikrók verslunarinnar. Þeir voru sammála um að það væri skrítið að sjá bæinn tóman og nefndu sem dæmi að á þessum tíma dags væru jafnan margir á ferli, enda flestir að klára vinnu og að sækja börnin sín, ýmist í leikskóla eða tómstundir. Þrátt fyrir það þótti þeim gott að koma til Grindavíkur, hitta fólk og ræða daginn og veginn.
klaraosk@mbl.is