Bakhmút Úkraínskir hermenn skoða hér sænskan skriðdreka í nágrenni Bakhmút-borgar.
Bakhmút Úkraínskir hermenn skoða hér sænskan skriðdreka í nágrenni Bakhmút-borgar. — AFP/Genya Savilov
Stjórnvöld í Úkraínu lýstu því yfir í gær að þau myndu sniðganga árlegan ráðherrafund Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, sem verður haldinn í Skopje, höfuðborg Norður-Makedóníu, í vikunni eftir að ákveðið var að bjóða Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands

Stjórnvöld í Úkraínu lýstu því yfir í gær að þau myndu sniðganga árlegan ráðherrafund Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, sem verður haldinn í Skopje, höfuðborg Norður-Makedóníu, í vikunni eftir að ákveðið var að bjóða Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Lavrov hefur þekkst boðið og Búlgarar hafa sagt að þeir muni hleypa vél Lavrovs í gegnum lofthelgi sína til fundarins.

Oleg Níkolenkó, talsmaður utanríkisráðuneytis Úkraínu, sagði í gær á samfélagsmiðlum sínum að Dmítró Kúleba utanríkisráðherra myndi ekki sækja fundinn vegna þátttöku Lavrovs. Sagði Níkolenkó jafnframt að rétt væri að sparka Rússum úr RÖSE, þar sem þeir hefðu hafið stærstu vopnuðu innrás í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Eystrasaltsríkin hafa einnig tilkynnt að þau muni ekki taka þátt í fundinum vegna boðsins og sagði utanríkisráðherra Eistlands, Margus Tsahkna, á fundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel að þátttaka Lavrovs gerði lítið úr þeim voðaverkum sem Rússar fremji nú enn í Úkraínu.

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði að hann myndi mæta til Skopje, en ekki funda með Lavrov beint. „Rússar munu setja fram sitt sjónarmið, við Evrópubúar setjum fram okkar,“ sagði Borrell. Pólverjar, sem héldu fundinn fyrir ári, tilkynntu þá að þeir myndu ekki hleypa Lavrov inn í landið til að sækja hann.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði í gær brýnt að bandalagið héldi áfram að styðja við bakið á Úkraínumönnum. „Við þurfum að halda áfram á sömu braut. Þetta snýst líka um öryggishagsmuni okkar,“ sagði Stoltenberg.