Baldur Arnarson
Magdalena Anna Torfadóttir
Kristinn Þór Geirsson framkvæmdastjóri Snorrahúsa spáir því að nafnverð íbúðaverðs muni hækka um fjórðung árin 2025 eða 2026 eftir að Seðlabankinn hefur lækkað vexti.
Árin 2017 og 2021 hafi orðið slíkar hækkanir á íbúðaverði á Íslandi að ræða megi um „stökkbreytingu“. „Ég spái því að þriðja slíka stökkbreytingin verði þegar Seðlabankanum verður ekki lengur stætt á að halda aftur af markaðnum. Þá fer þetta á fullt,“ segir Kristinn Þór um horfurnar.
Þrýst upp eignaverði
Kristinn Þór segir aukið peningamagn í umferð umfram hagvöxt hafa þrýst upp eignaverði á Íslandi. Vegna erfiðra aðstæðna á íbúðamarkaði íhugi fyrirtæki hans að taka óseldar íbúðir við Snorrabraut úr sölu og setja á leigu þar til verðið hefur hækkað.
„Ég held að við höfum aldrei í Íslandssögunni séð jafn mikið brask með lóðir eins og út af þessari þéttingarstefnu,“ segir Kristinn Þór. Borgarstjóri hafi reiðst þeirri gagnrýni.
Aðlögun fram undan
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að verði raunvextir háir í einhvern tíma muni fasteignaverð gefa eftir að lokum. Hann segir að stjórnvöld þurfi að huga að framboðshlið fasteignamarkaðarins. Margt bendi til frekari aðlögunar á þeim markaði á komandi misserum.
Launahækkanir síðustu ára hafa haft veruleg áhrif á íbúðaverð.
Yngvi Harðarson framkvæmdastjóri Analytica segir raunlaun á Íslandi hafa hækkað jafnt og þétt frá ársbyrjun 2015 og umfram framleiðni á tímabilinu. Með því að raunlaun séu að hækka umfram framleiðni séu laun að hækka umfram innstæðu á Íslandi.
Því megi almennt álykta að hækkun raunlauna umfram framleiðni skerði samkeppnisstöðu landsins, auki líkur á viðskiptahalla og myndi verðbólguþrýsting þegar fram í sæki.
ssss