Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Afmælistónleikar Kórs Neskirkju verða í kirkjunni laugardaginn 2. desember og hefjast þeir klukkan 16. „Við fögnum 20 ára afmæli kórsins í núverandi mynd, rétt áður en aðventan byrjar,“ segir Steingrímur Þórhallsson kórstjóri, en óratórían Messías eftir Händel verður flutt af þessu tilefni.
Þetta er í fjórða sinn sem kórinn flytur verkið, en einsöngvarar verða Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir messósópran, Gissur Páll Gissurarson tenór og Hrólfur Sæmundsson barítón. Una Sveinbjarnardóttir er konsertmeistari.
Neskirkja var vígð 1957 og kór hefur fylgt henni síðan. Þegar Steingrímur tók við var fyrirkomulaginu breytt. Kórinn hét áður Kirkjukór Neskirkju en varð Kór Neskirkju. „Rekstrarforminu var líka breytt,“ segir Steingrímur. Áður fengu kórfélagar borgað en úr varð meiri áhugamannakór, sem kirkjan styrkti. „Við fórum að takast á við stærri verk, vera með fleiri tónleika á hverju ári og fara í ferðir til útlanda á tveggja eða þriggja ára fresti.“
Létt og skemmtilegt
Steingrímur útskrifaðist sem píanókennari frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1998 og lauk námi í Kirkjutónlistarskóla Páfagarðs í Róm 2001. Frá hausti 2002 hefur hann starfað sem organisti og kórstjóri í Neskirkju og auk þess unnið með ýmsum tónlistarhópum. Hann er með BA- og mastersgráðu í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands.
Þegar Steingrímur var í píanónáminu bjó hann í grennd við Neskirkju og æfði sig á píanóið í kirkjunni. „Ég komst að því að ef ég færi í orgelnám gæti ég fengið lykil að kirkjunni. Ég bjó í blokk og ekki vinsælt að ég æfði mig mikið þar. Ég skráði mig því í orgelnám til að fá lykil að Neskirkju.“
Steingrímur komst að því eftir að hafa spilað á nemendatónleikum í Dómkirkjunni að hljóðfærið þar var mun betra en í Neskirkju. Því hafi hann beðið Martin Hunger, stjórnanda Dómkórsins, að taka sig í tíma. „Eftir það hef ég verið í þessu.“ Hann segist hafa lært mikið af Martin Hunger og byggt á þeirri reynslu við uppbyggingu Kórs Neskirkju. „Við höfum verið með metnaðarfulla dagskrá.“ Steingrímur leggur áherslu á að kórinn sé opinn öllu efnilegu og áhugasömu söngfólki og ekki sé gerð krafa um að það geti lesið nótur á borð við langskólagengna söngvara.
Á fimmta tug eru í Kór Neskirkju. Steingrímur segir að ekki þurfi atvinnumannakóra til að syngja Messías. „Þetta reynir á en er alveg yfirstíganlegt fyrir góða kóra.“ Flutningurinn taki tæplega tvo tíma og margir kaflar séu krefjandi fyrir venjulegt fólk. „En þetta er mjög létt, skemmtilegt og aðgengilegt verk. Hrífandi og grípandi stykki.“