Ólafur Þ. Jónsson, skipasmiður og fyrrverandi vitavörður, lést 23. nóvember síðastliðinn á Akureyri, 89 ára að aldri. Ólafur fæddist í Reykjavík 14. júní 1934 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Jón Bogason bryti og Þórdís Finnsdóttir húsfreyja en…

Ólafur Þ. Jónsson, skipasmiður og fyrrverandi vitavörður, lést 23. nóvember síðastliðinn á Akureyri, 89 ára að aldri.

Ólafur fæddist í Reykjavík 14. júní 1934 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Jón Bogason bryti og Þórdís Finnsdóttir húsfreyja en hún lést árið 1939 og faðir hans fórst með Dettifossi árið 1945.

Ólafur stundaði nám á Laugarvatni og síðar í Bændaskólanum á Hvanneyri, þar sem hann lauk búfræðingsprófi. Vann sem sjómaður og verkamaður í nokkur ár, uns hann flutti í Neskaupstað og lærði skipasmíðar í skipasmíðastöðinni í bænum. Var síðar blaðamaður og auglýsingastjóri á Þjóðviljanum og kenndi í grunnskólunum á Borgarfirði eystra og Þingeyri.

Þekktastur var Ólafur fyrir störf sín sem vitavörður og veðurathugunarmaður á Vestfjörðum. Fyrst var hann vitavörður í Svalvogum, milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, síðan í Galtarvita og loks var hann við vitavörslu og veðurathuganir á Hornbjargi í Látravík. Þar lauk hann störfum 1995 er sjálfvirkar mælingar tóku við. Var Ólafur fluttur með varðskipi frá Hornbjargi til Akureyrar. Hann rak gistiheimili á Akureyri í nokkur ár, vann við prófarkalestur á Degi og starfaði hjá Landgræðslunni á sumrin.

Hann var ekki síður kunnur fyrir að láta stjórnmálin sig miklu varða og tók virkan þátt í þjóðmálaumræðunni á vinstri vængnum. Var gjarnan nefndur Óli kommi. Ólafur var liðsmaður í Fylkingunni á árum áður og síðar í Alþýðubandalaginu. Hann var meðal stofnenda Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG) og gerður síðar að heiðursfélaga flokksins. Tók sæti neðarlega á framboðslistum, síðast fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022, og vildi frekar koma öðrum áfram á vettvangi stjórnmálanna. Hann ritaði margar greinar í blöð og tímarit og lét sig hafa það á seinni árum að skrifa í Morgunblaðið.

Eftirlifandi eiginkona Ólafs er Svandís Geirsdóttir en hann eignaðist sjö börn með tveimur fyrri eiginkonum. Afkomendur hans eru 25 talsins.

Útför Ólafs fer fram frá Glerárkirkju á Akureyri mánudaginn 4. desember kl. 13.