Upplagt er að njóta nýju Kókómjólkurinnar með þeyttum rjóma.
Upplagt er að njóta nýju Kókómjólkurinnar með þeyttum rjóma.
Komin er á markað sérstök hátíðarútgáfa af hinum góðkunna drykk Kókómjólk en tilefnið er fimmtíu ára afmæli drykkjarins. Kókómjólkin er með hvítu súkkulaði og er hvít á lit. „Klói er klæddur í hvít kjólföt á umbúðunum enda er heldur betur tilefni…

Komin er á markað sérstök hátíðarútgáfa af hinum góðkunna drykk Kókómjólk en tilefnið er fimmtíu ára afmæli drykkjarins. Kókómjólkin er með hvítu súkkulaði og er hvít á lit. „Klói er klæddur í hvít kjólföt á umbúðunum enda er heldur betur tilefni til að skella sér í sparigallann við svona merk tímamót,“ segir Halldóra Arnardóttir, markaðs- og vöruflokkastjóri ferskvara hjá Mjólkursamsölunni, framleiðanda Kókómjólkurinnar, í skriflegu svari til ViðskiptaMoggans.

Hún segir að drykkurinn verði seldur í öllum helstu verslunum landsins ásamt bakaríum og bensínstöðvum.

Fæddist í vöruþróun MS

Spurð hvernig hugmyndin hafi fæðst segir Halldóra að hún hafi orðið til í vöruþróun fyrirtækisins en um er að ræða fyrstu drykkjarvöru MS með hvítu súkkulaði.

Halldóra segir að Íslendingar drekki um níu milljónir ferna af Kókómjólk á ári en drykkurinn hefur verið ein vinsælasta vara MS í hálfa öld.

Spurð um væntingar til sölu á nýju vörunni segir Halldóra að þar sem um sérstaka hátíðarútgáfu sé að ræða verði hún aðeins framleidd í takmörkuðu magni.

Halldóra segir í svari sínu að Kókómjólkin nýja sé frábær ein sér en sé einnig ljúffeng hituð upp með þeyttum rjóma. Þá sé hún pottþétt með pylsunni og svo megi auðvitað njóta hennar með hverju því sem hugurinn girnist. „Það er óhætt að segja að hvíta Kókómjólkin sé fyrir allan aldur – í það minnsta alla bragðlauka sem elska hvítt súkkulaði,“ segir Halldóra Arnardóttir að lokum. tobj@mbl.is