— Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Við höldum að jarðskjálftarnir eigi upptök sín í Borgarleikhúsinu,“ segir Bergljót Arnalds sem stýrir leikhópnum Perlunni, en í gær var kynning á komandi leikári í leikhúsinu. „Við byrjuðum að æfa í haust atriði úr goðsögunum þegar Loki liggur á bakinu bundinn fram að Ragnarökum

„Við höldum að jarðskjálftarnir eigi upptök sín í Borgarleikhúsinu,“ segir Bergljót Arnalds sem stýrir leikhópnum Perlunni, en í gær var kynning á komandi leikári í leikhúsinu.

„Við byrjuðum að æfa í haust atriði úr goðsögunum þegar Loki liggur á bakinu bundinn fram að Ragnarökum. Þegar eitrið úr snáknum dettur á hann hristist hann af sársauka þannig að jörð skelfur. Við vorum vart byrjuð á æfingunum þegar jarðskjálftahrinan byrjaði á Reykjanesi,“ segir Bergljót, sem segir að þetta sé ekki í fyrsta skiptið sem leikhópurinn er með puttann á púlsinum.

„Í vor vorum við með sýninguna Slysaskot í Palestínu á stóra sviði Borgarleikhússins, en við völdum verkið út af stríðsátökunum í heiminum.“ Leikhópurinn Perlan hefur starfað í 40 ár. „Þau eru mörg búin að vera áratugi í hópnum og eru orðin vön að koma fram. Það er mikil leikgleði í hópnum og í haust léku þau í kvikmynd, sem var mjög gaman.“