KVIKMYNDIR
Helgi Snær
Sigurðsson
Ný kvikmynd um Napóleon hefur farið misjafnlega í bíógesti og hefur verið áhugavert að sjá erlenda gagnrýni því hún spannar nánast allan skalann, frá því að allt sé ómögulegt við myndina yfir í að allt sé frábært. Það sem gerir rýnina líka áhugaverða er að áhugamenn um sagnfræði jafnt sem fræðimenn hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar og – síðast en ekki síst – Frakkar, en Napóleon var frá eyjunni Korsíku í Miðjarðarhafi. Þó eitt og annað sé ekki sannleikanum samkvæmt í kvikmynd hins enska Ridleys Scott er hún rétt hvað helstu atriði varðar, að því er rýnir fær best séð og lesið. Auðvitað er sumt skáldað, t.d. að Napóleon hafi skotið með fallbyssu á píramída í Egyptalandi. Þar virðist Scott hafa tekið sér fullmikið skáldaleyfi en atriðið er skrítið og skondið, samt sem áður.
Sá sem hér skrifar hafði svo sem enga skoðun á Napóleoni, þ.e. manninum, áður en hann sá þessa mynd um lágvaxna keisarann. En eitt og annað vissi hann fyrir og kannski það sem flestir vita. Jú, Napóleon var frá eyjunni Korsíku, tók sér keisaratign árið 1804 og krýndi sig meira að segja sjálfur, eins og fram kemur í kvikmyndinni og sjá má á þekktu málverki Jacques-Louis David. Keisaratigninni hélt hann til ársins 1815. Hann var líka lágvaxinn eins og menn voru flestir á þeim tíma og með skrítinn hatt.
Metnaðarfullur
Napóleon hafði sannarlega mikla hæfileika á sviði hernaðar og þess skipulags sem hann krefst enda lagði hann svo til alla Evrópu að fótum sér í valdatíð sinni. Þegar hann tók sér keisaratign virtist fátt ef nokkuð geta stöðvað hann nema þá helst hans eigin takmarkalausi metnaður. Valdagræðgi væri kannski nær að kalla það.
Til að gera langa sögu stutta voru það að stórum hluta náttúruöflin sem urðu Napóleon að falli á endanum. Hann réðst með mörg hundruð þúsund manna her inn í Rússland árið 1812. Var það um mitt sumar en halla tók undan fæti þegar veturinn kom með vægðarlausum frosthörkum. Napóleon reið inn í Moskvu um haustið og hafði borgin þá verið yfirgefin, eins og kemur fram í myndinni. Í einu eftirminnilegasta atriðinu vaknar hann um miðja nótt við að borgin stendur í ljósum logum. Höfðu Rússar kveikt í henni og með þeim gjörningi neytt Napóleon og menn hans til að snúa við. Tók sú ferð skelfilegan toll. Á vef alfræðiorðabókarinnar Britannica stendur að af 600 þúsund hermönnum hafi aðeins um 10 þúsund lifað af.
En svo hlaupið sé aftur hratt yfir sögu þá lauk valdatíð Napóleons endanlega með ósigri hans við Waterloo 18. júní árið 1815. Poppsveitin ABBA gerði því ódauðleg skil í sínu rómaða Eurovision-lagi „Waterloo“, líkt og alkunna er.
En hvað með Jósefínu? Ekki má gleyma henni og það gera ekki leikstjórinn Scott og handritshöfundurinn David Scarpa.
Sögufræg hjón
Keisarahjónin Napóleon og Jósefína eitt eitthvert þekktasta par sögunnar og fræg eru ástarbréf Napóleons til eiginkonu sinnar. Þó hlutur hennar hefði gjarnan mátt vera meiri í kvikmyndinni (sem hann verður eflaust í mun lengri útgáfu hennar sem er væntanleg á næsta ári) er hann þó nokkuð veglegur. Jósefína, leikin af öryggi og innlifun af Vanessu Kirby, kemur fyrir sem sjálfstæð kona með sterkar skoðanir og taumhald – upp að vissu marki – á heldur sérkennilegum eiginmanni sínum. Lítið fer fyrir börnunum tveimur sem Jósefína eignaðist með fyrri eiginmanni sínum, Alexandre, en þeim Napóleoni varð ekki barna auðið. Fór svo á endanum að Napóleon skildi við Jósefínu og kvæntist Marie-Louise, dóttur keisarans af Austurríki. Hafði hann áður látið ógilda hjónaband þeirra Jósefínu og kemur sár skilnaðurinn við sögu í myndinni í heldur átakanlegu atriði.
Ekki gallalaus
Nú átti þessi yfirferð rýnis að vera stutt og laggóð en varð, þvert á móti, nokkuð löng enda ekki hlaupið að því að fjalla um ævi og störf þessa sögufræga manns í stuttu máli. Meðal þeirra sem hafa ætlað að gera kvikmynd um Napóleon en hætt við af ýmsum ástæðum eru ekki ómerkari menn en Stanley Kubrick og Steven Spielberg. Ridley Scott ræðst því ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, ekki frekar en Napóleon gerði sjálfur, og auðvitað er kvikmynd Scotts hvorki óumdeild né gallalaus. Eitt og annað hefði mátt fá meiri athygli og þá sérstaklega innri maður Napóleons. Það verður forvitnilegt að sjá hverju lengri útgáfa Scotts mun bæta við persónusköpunina og söguna í heild. Í túlkun Joaquins Phoenix er Napóleon þóttafullur, grimmur og sjálfselskur en líka haldinn minnimáttarkennd og undarlegum hvötum. Það er vissulega spaugilegt og gott bíó að sjá Phoenix ýmist skríða fyrir Kirby eða hamast á henni eins og hundur en um leið eru þetta getgátur um eðli Napóleons og frekar ýktar.
Þegar myndinni lýkur er enn eins og eitthvað vanti ennþá en ekki eru það bardagaatriði því þau eru mörg svakaleg og áhrifamikil. Og ekki eru það búningar, leikmyndir, lýsing eða myndataka, allt er þetta er hið glæsilegasta. Nei, gallinn er Napóleon sjálfur því maður er litlu nær um hvað það var sem dreif hann áfram. Einnig er skrítið að hann lítur eins út alla myndina þó hann eigi að eldast um 30 ár. Eins og málverkið af Dorian Gray.
Og hver er þá niðurstaðan? Napóleon er vel gerð og vönduð kvikmynd í flesta staði og alltaf áhugaverð. Hún er vissulega löng en maður finnur lítið fyrir lengd Bardagasenur eru margar magnaðar og þá sérstaklega sú sem á sér stað við ísilagt stöðuvatn.
Phoenix nýtur sín vel í titilhlutverkinu og Kirby er ekki síðri í hlutverki Jósefínu. Óvæntur senuþjófur er hins vegar Rupert Everett í hlutverki hertogans af Wellington. Fyrirlitningin sem hann hefur á Napóleoni nánast lekur af honum og þá sérstaklega þegar mennirnir mætast undir lokin. Þá hefur Napóleon endanlega beðið ósigur og hefur orð á við hertogann að ensk matargerð sé bara hreint ekki svo svo slæm. Eykur það enn á fyrirlitningu Wellingtons því hann veit að þeir ensku hafa ekki roð við Frökkum í eldhúsinu.