Innviðaráðherra, sem jafnframt er ráðherra samgöngumála, hefur skipað starfshóp til að meta kosti nútímalegra og fjölbreyttra vöruflutninga um landið og leiðir til þess þess að styðja við flutningaleiðir á láði og legi. Starfshópinn skipa Ásgrímur Pétursson, skrifstofustjóri í innviðaráðuneytinu sem jafnframt er formaður, Laufey Briem, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, Andri Rúnarsson, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, Rakel Árnadóttir, sérfræðingur hjá Samgöngustofu, og Erla Hafsteinsdóttir, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu. Einnig munu starfa með hópnum þau Óskar Birgisson, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þórey Gunnarsdóttir, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, og Jón Atli Steinarsson, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Íslandspósti. Starfshópnum er ætlað að skila skýrslu til ráðherra 30. apríl nk.
Þessi tilkynning hér að ofan er að vísu tilbúningur. Það sama á við um nöfnin, en þó ekki starfsheitin. Tilkynningin er þó ekkert ósvipuð mörgum þeim sem við sjáum reglulega frá stjórnarráðinu. Ráðherra skipar nefnd eða starfshóp til að skoða eitthvert mál, vinna skýrslu, skoða kosti hins og þessa, móta stefnu og svo framvegis. Þetta gæti átt við um hvaða ráðuneyti sem er og í raun hvaða málaflokk sem er. Starfshópurinn skilar skýrslu eða áliti einhvern tímann seint og síðar meir og það er allur gangur á því hvort þær tillögur sem lagðar eru fram verða að veruleika (sem stundum er reyndar ágætt).
Glöggir lesendur sjá að allir í hinum ímyndaða starfshóps hér í upphafi starfa fyrir hið opinbera. Hér var bara tekið dæmi af einum málaflokki, vöruflutningum, en ef farið er yfir skipan starfshópa á vef stjórnarráðsins síðustu ár má sjá að það er ekki óalgengt að þeir séu skipaðir opinberum starfsmönnum, ef ekki í heild þá að meirihluta. Þetta höfum við til að mynda séð varðandi húsnæðismál, umhverfismál, samgöngumál, velferðarmál og þannig mætti lengi áfram telja. Of lengi.
Ef við höldum áfram með ímyndaða starfshópinn um vöruflutninga, þá geta lesendur rétt ímyndað sér hvaða tillögur koma fram frá starfshópi sem skipaður er fimm starfsmönnum ráðuneyta og þremur öðrum sem ýmist starfa fyrir opinberar stofnanir eða fyrirtæki. Aukið regluverk, hærri gjöld, aukin opinber útgjöld, líklega um einhvern snúning til að verja hagsmuni ríkisfyrirtækja, flutningaleiðir sem taka ekki mið af auknu hagræði heldur einhverjum öðrum sjónarmiðum og svo framvegis. Á sama tíma erum við með einkafyrirtæki, stór og smá og út um allt land, sem á hverjum degi leita leiða til að hagræða í rekstri samhliða því sem þau veita þjónustu við vöruflutninga.
Allt er þetta í grunninn spurning um viðhorf. Bæði stjórnmálamenn og þeir sem gegna æðstu störfum stjórnsýslunnar þurfa að sjá og viðurkenna þann kraft sem býr í einkaframtakinu, í fyrirtækjunum út um allt land og í fólki sem þeim stjórna. Kannski að verktakar viti meira um húsnæðismál og fasteignamarkað en sérfræðingar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og ráðuneytisstarfsmenn, kannski hafa læknar á einkastofu aðra sýn á lausnir í heilbrigðiskerfinu, kannski hafa stjórnendur einkarekinna fjölmiðla aðra yfirsýn heldur en starfsmenn Fjölmiðlanefndar, svo tekin séu dæmi.
Þetta er kannski eitthvað sem við getum verið vakandi fyrir næst þegar ráðherra skipar starfshóp.