Kristín Heiða Kristinsdóttir
Hann er í miklu uppáhaldi hjá mér kvikmyndaleikstjórinn Wes Anderson, maðurinn á bak við mögnuðu bíómyndirnar Moonrise Kingdom, The Grand Budapest Hotel, Isle of Dogs, The French Dispatch og Asteroid City, og er það þó ekki tæmandi upptalning. Hann hefur rúllað inn bæði tilnefningum og verðlaunum fyrir meistaraverk sín, og skal engan undra. Ekki eru kvikmyndir hans aðgengilegar á streymisveitinni Netflix, en ég uppgötvaði nýlega að nokkrar stuttmyndir úr smiðju hans eru þar. Þetta eru m.a. The Wonderful Story of Henry Sugar, The Swan, The Rat Catcher og The Poison. Hvílík veisla! Wes Anderson er einhvers konar töframaður, honum tekst að framkvæma einhverja alveg sérstaka galdra á hvíta tjaldinu, enda er hann þekktur fyrir sérstæða fagurfræði og frásagnarstíl. Gud på himmelen, hvað það er hressandi þegar bíómyndir krefjast einhvers af áhorfendum, og eru um leið svo sterk upplifun að mér líður stundum eins og ég hafi stækkað hið innra eftir að hafa notið mynda hans. Það er virkilega gefandi að meðtaka svo margt í einu sem raun ber vitni, eins og að graðga í sig undurgóðan mat. Wes Anderson er oft með sömu aðalleikara í verkum sínum, t.d. uppáhaldið mitt hann Benedict Cumberbatch. Mæli með.