Einar Már segir sveiflur í framboði fraktrýmis í farþegaflugi vegna kórónuveirufaraldursins hafa haft mikil áhrif á markaðinn.
Einar Már segir sveiflur í framboði fraktrýmis í farþegaflugi vegna kórónuveirufaraldursins hafa haft mikil áhrif á markaðinn. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þróunin er hröð og samkeppnin hörð í heimi fraktflutninga. Nýr maður er kominn í framkvæmdastjórastólinn hjá Icelandair Cargo og mörg spennandi verkefni sem bíða Einars Más Guðmundssonar. Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?…

Þróunin er hröð og samkeppnin hörð í heimi fraktflutninga. Nýr maður er kominn í framkvæmdastjórastólinn hjá Icelandair Cargo og mörg spennandi verkefni sem bíða Einars Más Guðmundssonar.

Hverjar eru helstu áskoranirnar
í rekstrinum þessi misserin?

Árið hjá Icelandair Cargo hefur verið viðburðaríkt og í þessum mánuði tók ég við sem framkvæmdastjóri félagsins. Í lok síðasta árs og í byrjun þessa tók félagið í notkun tvær B767-breiðþotur og jók með því framboð sitt á frakt talsvert frá því sem áður var þegar við vorum með tvær B757-fraktvélar í rekstri. Þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst dróst farþegaflug verulega saman og þar með framboð á frakt með farþegavélum. Á sama tíma jókst framboð á fraktvélum og svo þegar faraldurinn fjaraði út og farþegavélar tóku aftur á loft jókst aftur framboð á fraktrými í farþegaflugi sem hefur haft mikil áhrif á markaðinn. Helsta verkefnið hjá Icelandair Cargo þessa dagana er fyrst og fremst að ná jafnvægi á framboðs- og eftirspurnarhliðinni.

Hver var síðasta ráðstefnan
sem þú sóttir?

Ég sótti ráðstefnuna „Future of Transport“, sem haldin var 7. nóvember sl. á Hilton Reykjavík. Þar var farið yfir hraða þróun á sviði flutninga og samgangna með áherslu á umhverfismál. Þar voru nokkur áhugaverð erindi, s.s. um hvernig mismunandi greinar eru að vinna í því að draga úr kolefnisspori og um þróun hugbúnaðar og gervigreindar fyrir ökutæki.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Fyrir mörgum árum kynntist ég bókinni Leading Change eftir John Kotter. Í fáum orðum lýsir bókin ákveðinni aðferðafræði til að innleiða breytingar hjá fyrirtækjum og festa þær í sessi. Það var svo fyrir nokkrum árum að ég tók að mér að halda utan um umbótaverkefni fyrir tæknisvið Icelandair í kjölfarið á miklum breytingum sem gera átti á sviðinu. Þá rifjaði ég aftur upp kynni mín af bókinni góðu og studdi hún okkur vel í því ferðalagi sem fram undan var.

Eitt af því sem ég tileinkaði mér úr bókinni var að til þess að gera miklar breytingar hjá fyrirtækjum er mikilvægt að kynna vel af hverju við þurfum að breyta og um leið að tryggja þátttöku allra starfsmanna í ferlinu. Við lögðum því áherslu á að búa til vettvang þar sem allir starfsmenn gætu komið sínum skoðunum og hugmyndum á framfæri og í góðri samvinnu við nokkra upplýsingatæknisnillinga Icelandair hönnuðum við snjallforrit sem er aðgengilegt öllum starfsmönnum, en þar er hægt að fylgjast með framgangi þeirra úrbótaverkefna sem eru í gangi hverju sinni og senda inn tillögur að nýjum verkefnum.

Hvernig heldurðu
þekkingu þinni við?

Ég reyni að þefa uppi áhugaverð námskeið sem ég tel að nýtist mér í starfi en Icelandair leggur mikið upp úr góðu framboði af námskeiðum og hef ég sérstakan áhuga á námskeiðum sem snúa að mannauðsmálum.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég reyni að hreyfa mig reglulega en ég vel mér hreyfingu sem mér finnst skemmtileg eins og að spila fótbolta tvisvar í viku, hjóla, ganga á fjöll og taka stutta göngutúra með eiginkonunni og hundinum okkar henni Emmu.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Ég held að ég myndi bæta við mig gráðu tengdri mannauðsmálum. Ástæðan fyrir því er sú að ég hef í gegnum minn starfsferil séð hvað það skiptir miklu máli að fólki líði vel í starfi og því brýnt að hlúa vel að starfsfólkinu. Hjá Icelandair er mikil áhersla lögð á góð samskipti og góða samvinnu á milli starfsmanna en þetta er vinna sem aldrei klárast.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Ég fæ mína orku með því að takast á við áhugaverð verkefni í góðri samvinnu við samstarfsfólk og þá er mikilvægt að fagna „litlu“ sigrunum. Hæfileg hreyfing og góður svefn og góðar stundir með fjölskyldunni eru svo lykillinn að því að maður sé í góðu jafnvægi til að sinna sínu og gefa af sér.

Ævi og störf:

Nám: VMA viðskiptafræði 1993; lauk námi í sjávarútvegsfræðum frá Háskólanum á Akureyri 1997; MBA frá Copenhagen Business School 2008.

Störf: Deildarstjóri hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna 1997 til 2007; rekstrarstjóri hjá Skeljungi 2008 til 2010; deildarstjóri innkaupa hjá ISAL 2010 til 2014; forstöðumaður innkaupadeildar Icelandair 2014 til 2018; forstöðumaður viðhaldssviðs Icelandair 2018 til 2021; forstöðumaður umbóta hjá tæknisviði Icelandair 2021 til 2023; framkvæmdastjóri Icelandair Cargo frá 2023.

Áhugamál: Við eiginkonan höfum gaman af því að hjóla og ganga á fjöll. Dætur okkar, tengdasynir og barnabarn eru sérstakt áhugamál okkar og verjum við miklum tíma með þeim í okkar frítíma.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Katrínu Melstað Jónsdóttur og eigum við dæturnar Kamillu og Telmu og barnabarnið Eriku.