Orkuveita Reykjavíkur, sveitarfélagið Ölfus og Orkufélagið Títan, sem er í eigu Ölfuss, áforma að sækja sameiginlega um rannsóknarleyfi með samstarf um nýtingu jarðhita í Ölfusdal ofan Hveragerðis í huga. Skrifað var undir viljayfirlýsingu þessa efnis í gær. Lögð er áhersla á að afurðir frá virkjuninni verði nýttar til verðmætasköpunar fyrir nærsamfélagið, Ölfus og Hveragerði.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss og framkvæmdastjóri Títans, segir mikilvægt fyrir sveitarfélagið að sitja við borðið þegar verið er að véla um hagsmunamál þess. Orkumálin séu sannarlega meðal helstu hagsmunamála sveitarfélagsins og samstarfið við Orkuveitu Reykjavíkur geti skilið á milli feigs og ófeigs. Vonast hann til að hægt verði að synda hratt í gegnum sírópsfen leyfisveitinga sem ríkið hefur búið til í kringum orkunýtingu.
Hann segir að hugur manna standi til að hefja samstarfið í Ölfusdalnum, sem sé þekkt orkusvæði og þegar í nýtingu.
„Orkan sem nýtt er í Hveragerði kemur öll af þessu svæði þannig að Hvergerðingum er að góðu kunnugt hversu mikilvægt þetta orkusvæði er. Við höfum líka rætt að þetta sé fyrsta skrefið af mörgum mögulegum samstarfsverkefnum. Þarna aðeins norðar er staður sem heitir Ölkelduháls og þar er gríðarlega mikil orka sem við höfum hug á að skoða að nýta í framhaldinu. Títan er líka í viðræðum við fleiri orkufyrirtæki um nýtingu á svæðum nær Þorlákshöfn þannig að þetta er fyrsta skrefið á langri vegferð.“
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að sé horft til Reykjanesskagans og þeirra atburða sem þar eru í gangi þurfi að huga að orkuöryggi í miklu stærra samhengi.
„Þá er ég ekki eingöngu að tala um raforku heldur er mikilvægi hitaveitunnar að verða mun sýnilegra öllum og þegar við horfum til þess að það sé verið að spá því að hér séu möguleg eldsumbrot að ganga yfir á svæðinu frá Reykjanesskaga og inn á Hengil þar sem þetta svæði er þá þurfum við að hugsa um orkuöryggi í allt öðru samhengi en nokkurn tímann áður.“
Segir Sævar að Íslendingar sem þjóð verði að snúa bökum saman af því að á þessum hluta landsins sé mjög stór hluti landsmanna. oap@mbl.is