Á uppleið Laun hafa hækkað meira á Íslandi síðustu ár en víðast hvar.
Á uppleið Laun hafa hækkað meira á Íslandi síðustu ár en víðast hvar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Raunlaun á Íslandi hafa hækkað jafnt og þétt frá ársbyrjun 2015 og umfram framleiðni á tímabilinu. Þetta kemur fram í útreikningum sem Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, gerði fyrir Morgunblaðið

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Baksvið

Baldur Árnason

baldur@mbl.is

Raunlaun á Íslandi hafa hækkað jafnt og þétt frá ársbyrjun 2015 og umfram framleiðni á tímabilinu.

Þetta kemur fram í útreikningum sem Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, gerði fyrir Morgunblaðið.

Þróun raunlauna og framleiðni frá ársbyrjun 2015 er hér sýnd á grafi. Eins og sjá má er rauða línan sem sýnir raunlaun brattari en línan sem sýnir framleiðni en hún er flatari á tímabilinu. Framleiðnitölur fyrir ágúst, september og október eru spá Analytica.

Til upprifjunar voru lífskjarasamningarnir gerðir í apríl 2019. Fram undan eru nýir kjarasamningar og hækka laun á almennum markaði að óbreyttu 1. febrúar næstkomandi.

Ýtir undir misvægi

Raunlaun eru hér metin sem hlutfall launavísitölu Hagstofunnar og vísitölu neysluverðs. Þau eru því mælikvarði á launaþróun m.t.t. verðlags. Ef raunlaun hækka umfram framleiðni er það til þess fallið að ýta undir efnahagslegt misvægi.

„Framleiðniþróun er hér metin sem þróun vergrar landsframleiðslu á hverja unna vinnustund. Gögn um vinnustundir eru þau sem liggja til grundvallar í þjóðhagslíkani Seðlabankans en ég hef jafnað ársfjórðungstölum um framleiðni niður á mánuði. Framleiðnitölur eru árstíðaleiðréttar,“ segir Yngvi.

Yngvi segir að með því að raunlaun séu að hækka umfram framleiðni séu laun að hækka umfram innstæðu á Íslandi. Því megi almennt álykta að hækkun raunlauna umfram framleiðni skerði samkeppnisstöðu landsins, auki líkur á viðskiptahalla og myndi verðbólguþrýsting þegar fram í sæki.

Birtast ekki í framleiðni

Skýringarnar á svo mikilli hækkun raunlauna séu fjölþættar. Nefna megi aðstæður á vinnumarkaði, meðal annars sterka stöðu verkalýðshreyfingarinnar og miklar launahækkanir samhliða skorti á vinnuafli í mörgum greinum vegna breytinga í atvinnuháttum. „Þær breytingar virðast ekki endurspeglast í framleiðniaukningu, a.m.k. enn sem komið er,“ segir Yngvi.

„Þetta eru vísitölur þannig að grafið sýnir ekki launastigið eða framleiðnistigið heldur aðeins þróunina,“ segir Yngvi til skýringar.

Ákveðin ráðgáta

„Raunar eru raunlaun að hækka meira en framleiðni yfir lengra tímabil. Það er ákveðin ráðgáta í mínum huga hvernig það megi vera að raunlaunin séu stöðugt að hækka meira en framleiðniaukningin. Það er jafnan rætt um samhengi nafnlauna og framleiðni en mér finnst einnig skýrt að setja þetta svona fram og að verðbólguþrýstingur skapist af tímabundinni hækkun raunlauna umfram framleiðnibreytingu. Svo má náttúrlega ekki gleyma því að hvorugur mælikvarðinn er fullkominn,“ segir Yngvi.

Áðurnefnd þróun ætti til lengdar að birtast í gengi krónunnar. Ef samkeppnisstaða landsins versnar þá dregur það úr eftirspurn eftir útfluttri vöru og þjónustu og eykur innflutning. Það þrýstir með tímanum á veikingu krónunnar.

Höf.: Baldur Árnason