Kristinn Þór Geirsson, framkvæmdastjóri Snorrahúsa, segir félagið íhuga að taka 26 óseldar íbúðir við Snorrabraut 62 úr sölu.
„Já, við erum að skoða það af því að það eru ekki góðar aðstæður á markaði til að selja núna. Þegar maður spáir fyrir um þróun á fasteignamarkaði næstu árin virðist mjög skynsamlegt að setja þessar íbúðir á lager og geyma þar til fasteignamarkaðurinn fer í gang á ný þegar stífla Seðlabankans brestur,“ segir Kristinn Þór í samtali við ViðskiptaMoggann.
Hóflegt að spá 25% hækkun
– Hvað mun þá gerast á fasteignamarkaði á Íslandi?
„Ég myndi telja að það væri hóflegt að spá 25% hækkun.“
– Að nafnverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækki um 25% árið 2025?
„Já, eða árið 2026.“
– Á hvað löngum tíma?
„Ef við skoðum fyrri stökkbreytingar [sem hafa átt sér stað á íslenskum fasteignamarkaði] þá eiga þær sér yfirleitt stað á innan við ári. Síðasta hækkun var árið 2021. Þá hækkaði verðið um 25% á innan við tólf mánuðum. Þar áður varð mikil hækkun 2017. Ég spái því að þriðja slíka stökkbreytingin verði þegar Seðlabankanum er ekki lengur stætt á að halda aftur af markaðnum. Þá fer þetta á fullt,“ segir Kristinn Þór en ítarlega er rætt við hann um stöðuna á fasteignamarkaði í blaðinu í dag.