Svæðið Tölvuteiknuð mynd af höfninni á Dysnesi eins og hún gæti litið út með tíð og tíma.
Svæðið Tölvuteiknuð mynd af höfninni á Dysnesi eins og hún gæti litið út með tíð og tíma.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við væntum þess að uppbygging sé að fara að hefjast á svæðinu,“ segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri hjá Hafnasamlagi Norðurlands, í samtali við Morgunblaðið. Hafnasamlagið hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna…

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

„Við væntum þess að uppbygging sé að fara að hefjast á svæðinu,“ segir Pétur Ólafsson, hafnarstjóri hjá Hafnasamlagi Norðurlands, í samtali við Morgunblaðið. Hafnasamlagið hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats fyrir hafnargerð og landfyllingu á Dysnesi í Eyjafirði en svæðið tilheyrir sveitarfélaginu Hörgársveit.

„Þarna er skipulagt iðnaðar- og hafnarsvæði sem er 16 kílómetra utan við Akureyri og er rétt við Hjalteyri. Hafnarsamlagið á þetta svæði og verið er að þróa það áfram. Nú er verið að gera umhverfismat á hafnarframkvæmdinni sjálfri en fram hefur komið að sótt hefur verið um vegna líforkuvers á svæðinu. Segja má að uppbyggingin sé að hefjast en tíminn verður að leiða í ljós hvort hún verður hröð eða hæg. Aðal- og deiluskipulagi er lokið sem og fornleifarannsóknum. Fátt ætti að vera því til fyrirstöðu að byrja á þessu,“ útskýrir Pétur.

„Þetta er langhlaup“

Pétur segir að líforkuverið gæti mögulega orðið að veruleika innan þriggja ára en áður hefur verið sagt frá þeim áformum hér á síðum blaðsins. Í líforkuveri á að vinna verðmæti úr lífrænum úrgangi og búfjáráburði. Helstu afurðirnar eru metan, lífdísill og molta sem nýtast sem eldsneyti og jarðvegsbætir eða áburður.

„Við viljum helst fá sem mest af hafnsækinni þjónustu en efst í landinu er möguleiki á annarri uppbyggingu. Þetta er langhlaup en mikilvægt varðandi okkar framtíðarsýn. Ef allt gengur að óskum gæti líforkuverið verið komið upp innan þriggja ára. Þá þarf innviði og vegagerð á svæðinu. Vinna þarf í vegagerð við Ólafsfjarðarveg niður að höfninni sjálfri.“

Ef háleitustu hugmyndirnar um hafnarsvæðið ná fram að ganga þá er um að ræða 700 metra langa höfn.

„Í kjölfarið munum við hefjast handa við að reisa fyrsta áfanga af höfninni en að óbreyttu munum við ekki byggja hana alla í einu. Til að byrja með sjáum við fyrir okkur um 200 metra bryggju í fyrsta áfanga. Bryggjan getur verið allt að 700 metrar og við getum verið með það dýpi sem við viljum. Þetta svæði býður upp á margt,“ segir Pétur og á honum má heyra bjartsýni varðandi framhaldið.

„Við höfum fengið töluvert af fyrirspurnum varðandi lóðir á svæðinu,“ segir Pétur enn fremur.

Rúmlega 700 íbúar

Hörgársveit er næsta sveitarfélag norðan Akureyrar. Sveitarfélagamörkin við Akureyri eru við Lónið, á móti Akrahreppi við Grjótá á Öxnadalsheiði og á móti Dalvíkurbyggð eru mörkin skammt norðan við Fagraskóg. Hörgársveit varð til við sameiningu Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar 12. júní 2010. Íbúar voru 704 talsins hinn 1. janúar 2022.

Höf.: Kristján Jónsson