[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfuknattleikskappinn Daniel Love er genginn til liðs við Hauka en hann kemur til félagsins frá Álftanesi. Þetta tilkynnti Hafnarfjarðarfélagið á samfélagsmiðlum sínum en á sama tíma mun Ville Tahvanainen ganga til liðs við Álftanes frá Haukum

Körfuknattleikskappinn Daniel Love er genginn til liðs við Hauka en hann kemur til félagsins frá Álftanesi. Þetta tilkynnti Hafnarfjarðarfélagið á samfélagsmiðlum sínum en á sama tíma mun Ville Tahvanainen ganga til liðs við Álftanes frá Haukum. Haukar eru í tíunda sæti úrvalsdeildarinnar með fjögur stig eftir fyrstu átta umferðirnar en Álftanes er í því áttunda með 10 stig.

Fábio Vieira, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, gekkst undir aðgerð á dögunum vegna nárameiðsla. Mikel Arteta stjóri Arsenal býst við því að Vieira snúi aftur á knattspyrnuvöllinn í lok janúar og því ljóst að hann spilar ekki meira með liðinu á þessu ári.

Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Rodrigo Bentancur, leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Tottenham, fór meiddur af velli í tapi liðsins gegn Aston Villa í Lundúnum á sunnudaginn síðasta. Bentancur, sem er 26 ára gamall, meiddist á ökkla í leiknum en hann sneri aftur á knattspyrnuvöllinn á dögunum eftir átta mánuði á hliðarlínunni vegna hnémeiðsla. Óvíst er hversu lengi hann verður frá keppni en þeir James Maddison, Richarlison, Micky van de Ven, Ivan Perisic, Manor Solomon, Ryan Sessegnon og Ashley Phillips eru allir á meiðslalista félagsins þessa dagana.

Enski knattspyrnumaðurinn Phil Jagielka hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna, 41 árs að aldri, eftir 23 ára feril sem atvinnumaður í heimalandinu. Jagielka lék síðast með Stoke City í ensku B-deildinni en hafði verið samningslaus frá því í sumar og hefur nú ákveðið að láta gott heita. Hann lék stærstan hluta ferilsins með Everton, á árunum 2007 til 2019, og lék 40 A-landsleiki fyrir England á árunum 2008 til 2016, þar sem Jagielka skoraði þrjú mörk. Hann var í lokahópi Englands á EM 2012 og HM 2014.

Vignir Snær Stefánsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í knattspyrnu. Vignir Snær, sem er 27 ára gamall, var aðstoðarþjálfari kvennaliðs KR á síðasta tímabili. Árið á undan var hann aðstoðarþjálfari kvennaliðs Gróttu og þjálfaði sömuleiðis yngri flokka Gróttu/KR.

Þýski knattspyrnumaðurinn Manuel Neuer, fyrirliði og markvörður Þýskalandsmeistara Bayern München, hefur skrifað undir nýjan samning sem gildir til sumarsins 2025. Fyrri samningur hans átt að renna út næsta sumar en nú er ljóst að Neuer, sem er goðsögn hjá Bæjurum, verður að minnsta kosti eitt ár til viðbótar í herbúðum félagsins. Neuer, sem er 37 ára gamall, á að baki 494 leiki fyrir félagið í öllum keppnum en hann hefur ellefu sinnum orðið Þýskalandsmeistari með liðinu og tvívegis Evrópumeistari.