Ævisaga Guðrúnar Jónsdóttur, Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg sem Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ritar, er komin út. Af því tilefni standa Kvennaframboðskonur, Stígamót og Kvennaráðgjöfin, Félagsráðgjafafélag Íslands og félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands að málþingi í Veröld – húsi Vigdísar Finnbogadóttur, í dag klukkan 17.
Í tilkynningu segir: „Guðrún fæddist árið 1931, lauk stúdentsprófi og skildi barnunga dóttur sína eftir á Íslandi þegar hún hélt utan í háskólanám. Hún var fyrsti félagsráðgjafinn hér á landi og starfaði sem barnaverndarfulltrúi í braggahverfum áður en hún lét til sín taka í dagvistunar- og menntamálum. Hún stofnaði Félagsráðgjafafélag Íslands og félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, leiddi lista Kvennaframboðs í Reykjavík og tók þátt í stofnun Kvennalistans, Kvennaráðgjafar, Kvennathvarfs, Samtaka kvenna á vinnumarkaði og Hlaðvarpans.“
Formlegri dagskrá lýkur um 18.30. Í kjölfarið verður boðið upp á léttar veitingar og spjall.