Norður
♠ –
♥ ÁD106
♦ Á1086
♣ ÁDG85
Vestur
♠ KG862
♥ G54
♦ D874
♣ 3
Austur
♠ 10743
♥ K
♦ KG932
♣ K104
Suður
♠ ÁD95
♥ 98732
♦ –
♣ 9752
Suður spilar 6♥.
„Það er rétt sem sagt er um Agustin Madala – hann er göldróttur.“ Haraldur háfleygi var mættur í fuglakaffi með 10 ára gamalt spil frá HM á Balí. Madala spilaði þá fyrir hönd Ítala með Norberto Bocchi sem makker. Bocchi opnaði á Standard-laufi, austur kom inn á 1♦, Madala sagði 1♥, vestur 3♦ og Bocchi lét vaða í 6♥! Útspilið var laufþristur.
„Og hvað haldið þið að Madala hafi gert?“ spurði Halli til málamynda, en beið ekki lengi eftir svari: „Hann drap á laufás og lagði niður hjartaás! Restin var handavinna.“
Madala gat teiknað upp hendur mótherjanna út frá sögnum og útspili. Tígullinn virtist skiptast 5-4 og spaðinn líka, því vestur hefði sagt frá sexlit. Og laufþristurinn var mjög líklega einn á ferð, svo það lá fyrir að austur ætti bara eitt hjarta – kónginn, nánar tiltekið, úr því að vestur var að leita eftir stungu.