Arnar Þór Jónsson
Í Morgunblaðsgrein Björns Bjarnasonar 25. nóvember sl. er orðum vikið að nýjum farsóttarsáttmála WHO og útbreiddri tortryggni í garð þeirrar stofnunar, sem Björn tengir, sennilega réttilega, við „gagnrýnið viðhorf í garð stjórnvalda vegna Covid-19 aðgerða þeirra“. Í tilvísaðri grein vísar Björn til yfirlýsinga WHO um það að farsóttarsáttmálinn skerði ekki fullveldi ríkja og sambærileg orð hafa íslenskir stjórnmálamenn notað til að svara þeim sem lýst hafa áhyggjum af þróun mála á vettvangi WHO.
Undirritaður er sammála Birni Bjarnasyni um það að tímabært sé að unnin sé vönduð greining til að stemma stigu við ranghugmyndum manna um þau álitaefni sem hér eru uppi. Ég er einnig sammála Birni um nauðsyn þess að Alþingi láti vinna skýrslu um aðgerðir stjórnvalda í „kófinu“, sbr. tillögu til þingsályktunar um það efni sem ég var flutningsmaður að á síðasta þingi og hefur nú verið lögð fram aftur, í nokkuð mildaðri útgáfu, af nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.
Grein Björns er haldin einum meginágalla, sem er sá að hann vísar hvergi til þeirra breytinga á öðru regluverki WHO, þ.e. alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni (IHR), sem unnið er að samhliða farsóttarsáttmálanum. Í framhaldi af grein Björns hef ég rýnt í framangreint regluverk og komist að þeirri niðurstöðu að við megum alls ekki láta farsóttarsáttmálann villa okkur sýn, heldur beina sjónum okkar að þeim alvarlegu breytingum sem verið er að gera á reglum IHR. Þær breytingar munu ekki fara í gegnum hreinsunareld formlegs fullgildingarferlis heldur taka sjálfkrafa gildi hljóti þær samþykki einfalds meirihluta aðildarþjóða á þingi World Health Assembly sem haldið verður í maí nk. Á þessum vettvangi þurfa menn að standa vaktina og verja fullveldið, ellegar vera reiðubúnir að hafna breyttum reglum með beinni yfirlýsingu þar að lútandi. Vakandi hagsmunagæsla fellur undir starfshlutverk kjörinna fulltrúa. Fullveldisréttur þjóða er fjöregg þeirra og forsenda virks lýðræðis. Umræðu um þau mál á ekki að drepa á dreif eða reyna að jaðarsetja með órökstuddum fullyrðingum og óígrunduðum staðhæfingum. Ég skora á alþingismenn að kynna sér minnisblað sem ég hef unnið um þessi mál og sent verður þeim öllum síðar í dag. Þeirri hvatningu er sérstaklega beint til heilbrigðisráðherra og mun ég afhenda honum minnisblaðið í eigin persónu á fundi okkar í dag.
Höfundur er sjálfstætt starfandi lögmaður og lýðræðissinni.