Fjölskylda Sixta með sonum sínum tveimur við jólaköttinn á Lækjartorgi, en hún er mjög hrifin af þeim ketti.
Fjölskylda Sixta með sonum sínum tveimur við jólaköttinn á Lækjartorgi, en hún er mjög hrifin af þeim ketti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég og synir mínir ætlum að borða hefðbundinn jólamat eins og við erum vön að borða heima í Venesúela, en þar er aðaljólamáltíðin að kvöldi 24. desember, rétt eins og hér hjá ykkur Íslendingum. Á jólunum í Venesúela koma fjölskyldur okkar og vinir…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég og synir mínir ætlum að borða hefðbundinn jólamat eins og við erum vön að borða heima í Venesúela, en þar er aðaljólamáltíðin að kvöldi 24. desember, rétt eins og hér hjá ykkur Íslendingum. Á jólunum í Venesúela koma fjölskyldur okkar og vinir alltaf saman og borða góðan mat og skiptast á gjöfum, en fólkið innan þess hóps er með ólíkan uppruna, frá Venesúela, Sýrlandi og Líbanon,“ segir Sixta Al Halabi, ung kona frá Venesúela, þegar hún er spurð um jólasiði og jólamat í heimalandi hennar, en hún mun halda jól á Íslandi í fyrsta sinn núna í desember. Hún kom til landsins fyrir tæpu ári og segir foreldra sína vera frá Sýrlandi og að fjölskylda hennar tilheyri drúsum.

„Drúsar tilheyra trúarhreyfingu sem er hluti af íslam en þar er margt líkt og í kristni, þótt við höfum engar kirkjur. Við höfum ekki heldur moskur, en við höfum mazhar, þangað förum við til að biðja um allt hið góða öllu til handa, velgengni og góða heilsu. Ég les Kóraninn og þau okkar drúsa sem eru mjög trúuð fasta líka. Hjá drúsum er áherslan á samhjálp og að gera gott fyrir samfélagið. Foreldrar mínir fóru alltaf á jólunum með okkur börnin sín til fátækari samfélaga þar sem við gáfum föt, mat, skólavörur og fleira. Við lærðum af foreldrum okkar að gefa af því sem við gátum,“ segir Sixta sem talar bæði spænsku og arabísku.

„Foreldrar mínir kenndu okkur börnunum að tala arabísku en í skólanum var einvörðungu töluð spænska,“ segir Sixta sem er 41 árs, en synir hennar eru 18 og 19 ára.

Allir í nýjum fötum um jól

„Við hlökkum til að borða saman hefðbundinn jólamat að hætti Venesúelabúa. Fyrst ber að nefna La Hallaca, rétt sem er alltaf á jólaborðinu, en þá er búið til deig úr maísmjöli sem er fyllt með nautakjöti og svínakjöti, ásamt olíum, rúsínum og paprikubitum, en utan um allt er vafið bananalaufum. Annar dæmigerður jólaréttur er bakað skinkubrauð, gert úr hveitideigi og fyllt með skinku, beikoni, ólífum og rúsínum. Einn kjötrétturinn enn er El Pernil, en þá er bakað svínslæri með ólífum, hvítlauk, gulrótarbitum og afar ljúffengum osti. Þetta er bakað lengi í ofni, í nokkra klukkutíma, og er rosalega góður réttur, kjötið verður svo mjúkt og bragðið himneskt. Eftirrétturinn um jólin er einnig hefðbundinn, mjög góð sæt ananaskaka.“

Sixta segir að hefðirnar í tengslum við jólagjafir séu þær að fjölskyldur búi saman til gjafir heima handa vinum. Síðan sé farið í jólagjafaleik þar sem allir koma með heimatilbúnar gjafir og þær eru númeraðar. Fólk dregur síðan númer úr potti.

„Tilvijun ræður þá hver fær hvað í jólapakka, og stundum deilum við þessum gjöfum líka með öðrum fjölskyldum. En handa fjölskyldumeðlimum kaupum við sérstakar jólagjafir, handa foreldrum, systkinum og börnum,“ segir Sixta og bætir við að heima í Venesúela skreyti þau líka jólatré fyrir jólin. „Við pössum líka vel upp á að allir séu í nýjum fötum á jólunum, rétt eins og í gömlu þjóðtrúnni hér á landi, þar sem þeir fara í jólaköttinn sem ekki fá nýja flík,“ segir Sixta og bætir við að hún sé mjög hrifin af risastóra jólakettinum á Lækjartorgi.

„Við setjum ekki skóinn í gluggann eins og þið á aðventunni, en þeim börnum sem ekki haga sér vel á jólunum er hótað að þau fái enga jólagjöf, en það er aldrei staðið við þá hótun, allir fá jólagjöf,“ segir hún og hlær.

„Hér áður fyrr kveikti fólk á kertum í ólíkum litum hinn 21. desember, þar sem hver litur stendur fyrir einhverja velsæld eða gæfu sem fólk var þá að kalla á.“

Gul nærföt á gamlársdegi

Á síðasta degi ársins, 31. desember, kemur fólk saman í Venesúela og heldur veislu, borðar saman, syngur, dansar og gleðst.

„Þegar við fögnum nýju ári þá er líka gömul hefð að klæðast gulum nærfötum á nýársdag, til að kalla á gæfusamt nýtt ár. Einnig er gamall siður sem enn er í heiðri hafður, að þegar aðeins tólf mínútur eru eftir af gamla árinu þá borði fólk vínber og óski sér á hverjum klukkuslætti þar til tólf vínber hafa verið borðuð og nýtt ár gengið í garð. Þannig stendur hver ósk fyrir hvern mánuð á komandi nýju ári. Einnig er til siðs á gamlársdag að við förum út með ferðatöskurnar okkar og göngum með þær í kringum hús okkar eða heimili, svo nýtt ár verði ár ferðalaga.“

Sixta er ein af mörgum konum í Saumó – tau með tilgang, sem er virkniverkefni fyrir flótta- og innflytjendakonur sem Hjálparstarf kirkjunnar og Hjálpræðisherinn standa fyrir. Þær prjóna og hekla alls konar vörur til að selja, m.a. núna fyrir jólin.

„Ég hef verið að hekla jólaskraut, en hekl er algengt í Venesúela, aftur á móti er prjón það ekki,“ segir Sixta og bætir við að viðburður verði nk. sunnudag, 3. des., kl. 13-16 á Vitatorgi, Lindargötu 59 í Reykjavík, þar sem fólk frá Venesúela ætli að elda sinn hefðbundna jólamat og bjóða fólki að koma og smakka og kynna sér jólamenningu þeirra.

„Rauði krossinn stendur fyrir viðburðinum og bauð okkur konunum í Saumó að koma og selja vörurnar okkar þar. Við verðum á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi frá 10-16 laugardaginn 2. des. að selja handverkið okkar og við verðum í Kringlunni 8. og 9. des.,“ segir Sixta sem er afar hamingjusöm á Íslandi og ánægð með að geta kynnt Íslendingum sína menningu. Hún og drengirnir hennar eru líka spennt að læra um íslenska menningu og kynnast íslensku fólki.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir