Guðrún G. Kristinsdóttir fæddist á Seyðisfirði 28. september 1948 á Norðurgötu 6 (Regnbogastræti). Hún lést 20. nóvember 2023 á líknardeild Landspítalans í Kópavogi.

Foreldrar hennar voru hjónin Kristinn N. Guðmundsson frá Seyðisfirði, f. 7.11. 1909, d. 13.10. 1972, og eiginkona hans Guðrún Þórðardóttir, f. 27.3. 1921, frá Högnastöðum í Þverárhlíð, Borgarfirði, d. 17.8. 2013.

Systur Guðrúnar voru tvær: Þóra, f. 4.12. 1942, d. 23.5. 2015, hún var gift Árna Ingólfssyni, f. 5.12. 1935, d. 21.3. 2016. Börn þeirra eru: a) Ingólfur, f. 1966. Synir hans eru Ketill Árni, f. 1996, Tómas Kristinn, f. 1998 og Hinrik Ari, f. 2001. b) Kristrún, f. 1967; Erna, f. 9. nóvember 1962. Maki Elías Bragi Sólmundarson, f. 4. júlí 1961. Dætur þeirra eru: a) Sigríður Guðrún, f. 1989, í sambúð með Helga Rúnari Halldórssyni, f. 1990. Sonur þeirra er Theódór, f. 2019. b) Kolfinna, f. 1992.

Eiginmaður Guðrúnar er Jóhann Guðmundsson, f. 10.3. 1948. Foreldrar hans voru Guðmundur Ófeigsson, f. 8.11. 1915, d. 7.10. 2004 og móðir Kristín Guðmundsdóttir, f. 7.5. 1926, d. 25.7. 2019. Systkini Jóhanns eru Helga Sördal, f. 1949, Bjarnfríður Guðmundsdóttir, f. 1953 og Ófeigur Guðmundsson, f. 1958. Synir Guðrúnar og Jóhanns eru: 1) Kristinn, f. 31.1. 1975, hans eiginkona er Erla Björk Ágústsdóttir, f. 20.6. 1976. Dætur þeirra eru: Hekla Dís, f. 15.7. 2003, og Vaka Líf, f. 11.4. 2005. 2) Ólafur, f. 5.6. 1976, sambýliskona hans er Margrét Sigvaldadóttir, f. 15.4. 1980. Dóttir Ólafs úr fyrra sambandi með Selmu Svavarsdóttur er Lísa, f. 2.5. 2003. Ólafur og Margrét eiga dótturina Evu, f. 21.5. 2016. 3) Guðmundur Jóhannsson, f. 16.9. 1980, hans eiginkona er Kristín Viktorsdóttir, f. 5.11. 1979. Dætur þeirra eru: Margrét Dúna, f. 24.4. 2010, og Guðrún Eva, f. 25.11. 2013.

Guðrún fæddist á Seyðisfirði en flutti ung með foreldrum sínum til Reykjavíkur og ólst upp í Laugarneshverfinu. Eftir að hafa kynnst Jóhanni í Hjálparsveit skáta í Reykjavík hófu þau sambúð í Brekkugerði en fluttust 1976 til Reykjahlíðar í Mývatnssveit. Jóhann starfaði í Kröflu en Guðrún hóf störf á skrifstofu Skútustaðahrepps og síðar hjá Sniðli. Mývatnssveitin átti alltaf sérstakan sess í huga Guðrúnar en fólkið þar tók afskaplega vel á móti Guðrúnu og Jóhanni þannig að til urðu órjúfanleg vinabönd. 1981 flutti fjölskyldan til Reykjavíkur í Blöndubakka, þar sem þau bjuggu í 34 ár, og síðar í Hestavað í Reykjavík. Guðrún starfaði í 29 ár hjá þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar í Breiðholti áður en hún fór á eftirlaun en áður hafði hún starfað við bókhald hjá Endurskoðun og reikningsskilum og Stólpa. Guðrún sinnti félagsstörfum af miklum móð og var dugmikill sjálfboðaliði alla ævi, m.a. í Hjálparsveit skáta í Reykjavík, var í stjórn knattspyrnudeildar ÍR, foreldrafélagi Breiðholtsskóla og í Oddfellow-reglunni.

Útför Guðrúnar fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 30. nóvember 2023, klukkan 15.

Það hefur oft verið skrifað að aðrar mömmur hafi verið bestar, en mín var best. Mamma var engin venjuleg kona, réttlætisriddari, keyrð áfram af gleði og umhyggju fyrir öllum. Hún ól mig upp og studdi í einu og öllu, alltaf. En hún var ekki bara mamma mín, hún var ofurhetja. Reyndar mjög ákveðin ofurhetja en það var alltaf af góðum hug.

Mamma var t.d. um tíma eina konan í Vestmannaeyjum sem þá hafði verið rýmd vegna eldgoss, þar var hún á vegum Pósts og síma að tryggja fjarskipti. Bara eins og mömmur gera.

Mamma vann ekki fullt starf eftir að hún eignaðist okkur, hún vildi vera til staðar. Blöndubakkinn var alltaf opinn til að hýsa og fæða vini okkar eða halda partí, og partípinninn hún með. Svo opinn var Blöndubakkinn að oft þurfti ég að yfirgefa eigið rúm til að rýma fyrir vinum úr Mývatnssveitinni okkar sem voru í bæjar- og keppnisferðum. Kannski fórum við oft yfir strikið, henni var allavegana ekki skemmt þegar við hituðum yfir 100 skinkuhorn sem hún átti í frysti fyrir vini. Við vildum jú bara deila gleðinni.

Að ala upp þrjá syni og pabba var leikur einn fyrir mömmu sem til hliðar átti jafn virkt félagslíf og forsetinn. Alla daga var eitthvað í gangi og pabbi oftast dreginn með. Gera og græja fyrir Hjálparsveitina þar sem hún kynntist pabba, saumaklúbbar í fleirtölu, stjórnarseta í knattspyrnudeild ÍR þar sem hún lagði fyrsta grasvöll félagsins, alls konar sjálfboðavinna og síðar Oddfellow hélt henni á flugi. Samt hafði hún alltaf allan tíma heimsins fyrir okkur og ömmustelpurnar sem hún elskaði meira en lífið. Hún var heimsmeistari án atrennu í að dekra við barnabörnin þannig að uppeldismenntað fólk myndi súpa hveljur. Mamma var gleðigjafi og stutt í brosið. Hún t.d. uppgötvaði þegar við vorum allir fluttir að heiman að það var hún sem pissaði út fyrir eftir allt saman.

Mamma var hamhleypa til verka í eldhúsinu og gat reitt fram alla klassíska rétti. Jólin voru alltaf sérstaklega mikilvæg í huga mömmu, það var tími aukinnar samveru sem þó var mikil fyrir og því átti að fylla heimilið af góðgæti. Mamma var 15 sorta kona þó hún hafi stytt sér leið síðar og talið skinkuhorn og brauðbollur með, sem ekki eru sortir. Þó við værum löngu fluttir að heiman fengum við alltaf ananasfrómas í skál um jólin. Nú þarf ég að læra að búa það góðgæti til og þannig halda jólahefð mömmu á lofti.

Ég heyrði í mömmu nær alla daga og það sem átti að vera stutt símtal varð alltaf að hálftíma. Mamma spurði alltaf frétta um allt og alla, bar kveðjur frá hinum og þessum og þannig var hún fram á síðasta dag þegar hún spurði mig hvernig einhver fyrirlestur hefði gengið. Þannig var bara mamma, við alltaf efst í huga hennar.

Mamma tókst á við veikindi sín af ótrúlegu æðruleysi, hún vildi ekki verða græn og sköllótt heldur kveðja með reisn. Í lokin fékk hún léleg spil en kapallinn gekk upp, eins og mamma óskaði sér og átti svo innilega skilið.

Ég elska þig, mamma mín, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og ömmugullin þín. Ég verð alltaf litli dúllinn þinn.

Guðmundur
Jóhannsson.

Elsku amma Gunna.

Ég á eftir að sakna þín svo mikið. Ég mun sakna þess að gista hjá þér og afa, fara í strætó í bæinn og kíkja í Vínberið. Ég mun sakna þess að sjá þig horfa á mig keppa í körfubolta, spila á tónleikum og fara öll saman í bústað. Ég mun sakna þess að knúsa þig og heyra þig segja að þú elskir mig. Ég mun sakna þess að fá skilaboð og símtöl frá þér. Ég mun sakna þess að þú og afi flytjið til okkar ef mamma og pabbi eru í útlöndum, þú gerðir besta nestið og hjá þér var Cocoa Puffs morgunmatur. Ég mun sakna þess að spila, spjalla og að þú fáir mig lánaða í bæjarferðir og að útrétta. Ég mun sakna þess að hafa þig alltaf með mér í liði.

Ég mun aldrei gleyma þér, elsku amma, ég elska þig.

Margrét Dúna Guðmundsdóttir.

Eins og gullhörpuljóð,

eins og geislandi blær,

eins og fiðrildi og blóm,

eins og fjallalind tær,

eins og jólaljós blítt,

eins og jörðin sem grær,

lifir sál þín í mér,

ó þú systir mín kær.

(Jóhannes úr Kötlum)

Elsku Gunna systir mér svo dýrmæt.

Góðar minningar streyma um hugann og þakklæti er mér efst í huga.

Gunna gerði grín að því að hún hefði ekki verið spennt að fá litla systur þá 14 ára gömul og dauðskammaðist sín fyrir mömmu bálólétta. En hún reyndist litlu systur ómetanlega vel, alltaf til staðar hvað sem á gekk.

Þegar Gunna kynnti Jóa til sögunnar var ég alls ekki sátt og fannst fram hjá mér gengið. Var með allt aðra menn í huga fyrir Gunnu. En hann var fljótur að vinna mig á sitt band. Jóa fylgdi dásamleg fjölskylda sem var góð viðbót í þorpið okkar.

Oft var mér um og ó yfir öllu veseninu á henni. Hún var óþreytandi í alls konar veisluhöldum og hittingum. Henni fannst aldrei vesen að hafa boð og hittinga. Hún er eina manneskjan sem ég þekki sem finnst pálínuboð vesen. Öll boð sem ég hef staðið fyrir hafa byrjað á því að Gunna systir mætir með penna og blað: „Jæja, hvað eigum við að hafa?“ Ég segi alltaf að dætur mínar væru óskírðar og ófermdar ef hennar hefði ekki notið við.

Gunna var beinskeytt og lá ekki á skoðunum sínum og engu var sópað undir teppi. Þú vissir nákvæmlega hvar þú hafðir hana. Fyrst og fremst elskaði Gunna fólkið sitt og vildi taka þátt í lífi þess og gerði það svo sannarlega.

Dýrmæt stund á Apavatni þremur vikum áður en hún lést þar sem við fögnuðum 50 ára brúðkaupsafmæli þeirra hjóna var okkur öllum mjög dýrmæt. Fjölskyldan öll saman, mikill hávaði, hlátur og spilað. Þannig skemmti Gunna sér best.

Að leiðarlokum vil ég þakka elsku Gunnu systur fyrir alla sína elsku, skemmtilegheit og umhyggju sem hún ávallt sýndi mér og öllu mínu fólki. Heimurinn verður fátæklegri án hennar.

Elsku Jói minn, bræðurnir og stelpurnar, missir ykkar og okkar allra er mikill. Við höldum minningu Gunnu á loft með því að vera áfram þétta, sterka og glaða fjölskyldan sem hún átti svo risastóran þátt í skapa.

Blessuð sé minning Gunnu systur.

Erna.