Physical 100 Keppendur þurfa að leysa ýmsar aflraunir af hendi.
Physical 100 Keppendur þurfa að leysa ýmsar aflraunir af hendi. — Skjáskot/Netflix
Undirritaður hefur fest sig síðustu daga í alls kyns þáttaröðum á Netflix, sem eiga það sameiginlegt að koma frá Suður-Kóreu. Tvær þeirra standa upp úr, en þær eiga það sameiginlegt að vera nokkurs konar keppnisþættir, þar sem þátttakendur þurfa að…

Stefán Gunnar Sveinsson

Undirritaður hefur fest sig síðustu daga í alls kyns þáttaröðum á Netflix, sem eiga það sameiginlegt að koma frá Suður-Kóreu. Tvær þeirra standa upp úr, en þær eiga það sameiginlegt að vera nokkurs konar keppnisþættir, þar sem þátttakendur þurfa að leysa ýmsar þrautir til að vinna sér inn himinháar fjárhæðir.

Annars vegar er um að ræða þáttinn Physical 100, en í henni komu saman hundrað af helstu kraftajötnum og íþróttamönnum Suður-Kóreu og öttu kappi í alls kyns líkamlegum þrautum. Verandi miðaldra karlmaður hélt ég sjálfkrafa með hinum japansk-kóreska Choo Sung-hoon, en hann er 48 ára gamall bardagakappi sem er þekktur undir viðurnefninu „Sexyama“.

Keppnin er mjög líkamlega krefjandi, en þeir sem detta úr leik þurfa að brjóta gifs-afsteypur sem búið er að taka af vöðvastæltum búk þeirra. Er það mjög myndræn leið til að sýna þá sem tapa, þegar þeir taka sleggju og slá sig „sjálfa“.

Hinn þátturinn heitir Devil's Plan eða „Áætlun djöfulsins“ á íslensku. Þar er keppt í ýmsum hugarraunum og eru keppendur þar öllu líkari undirrituðum í holda- og hugarfari en þeir í Physical 100. Einhverra hluta vegna þurfa þeir sem þar detta úr leik ekki að brjóta gifs-afsteypur af heila sínum, enda líklega erfitt að búa þannig styttur til.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson