Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Ég fer í ljós þrisvar í viku og mæti reglulega í líkamsrækt, söng Bítlavinafélagið, en hjónin Ásthildur Inga Haraldsdóttir og Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson fara í Kópavogslaugina þrisvar í viku og hafa gert um árabil. „Sundið og líkamsræktin er allra meina bót,“ segir Ásthildur Inga. „Þetta hefur verið algjör lífsbjörg síðan ég hætti að dansa.“
Þegar Ásthildur Inga var 12 ára hoppaði hún niður af þaki bílskúrs og kom illa niður á hælana. „Ég rétt gat skriðið inn en ekki var farið með mig til læknis svo ég beit bara á jaxlinn og hélt áfram í ballettinum. Ég var í góðri æfingu, sterk og liðug, en um leið og ég hætti að dansa byrjaði ég að skekkjast með tilheyrandi verkjum. Þá byrjaði ég í líkamsræktinni og svo tók sundið við.“ Hún segist vera mjög skipulögð og fara alltaf í heita pottinn áður en hún syndi sína 500 metra. „Ég þarf að ná að hita mig upp áður en ég fer í laugina. Þá er eins og allir verkir hverfi.“
Í Þjóðleikhúsinu í 36 ár
Ásthildur Inga byrjaði í ballett sjö ára gömul og hætti rúmlega fertug eftir að hafa verið ballettdansari í Þjóðleikhúsinu í 36 ár. Hún segist hafa verið mjög liðug og farið í ballett að áeggjan Ásdísar systur sinnar. „Hún var hins vegar í sundi eins og pabbi.“ Haraldur Sæmundsson faðir þeirra keppti í sundknattleik og var valinn í landsliðið sem keppti á Ólympíuleikunum í Berlín 1936, en átti ekki heimangengt, stóð í húsbyggingu á sama tíma auk þess sem Ásdís var aðeins tveggja ára. „Hann vildi frekar kaupa barnavagn en borga fyrir ferð til Berlínar,“ segir Ásthildur Inga.
Hlutverk Ásthildar Ingu í Þjóðleikhúsinu voru mörg. Hún segir þátttökuna með dönsurunum og leikurunum vekja góðar minningar. „Sérstaklega er minnisstætt þegar ég dansaði magadans í söngleiknum Zorba og var með bakka á höfðinu, þar sem á voru tvö glös og fjögur logandi kerti. Það var virkilega erfitt og krefjandi, en Róbert Arnfinnsson lék Zorba og Björg Jónsdóttir dansaði með mér.“ Söngleikurinn Kabarett sé einnig eftirminnilegur. „Við Ingunn Jensdóttir dönsuðum og sungum með Bessa Bjarnasyni sem hékk á öxlum okkar. Þetta var ekki mjög auðvelt, því hann spriklaði mikið.“
Hún var í byrjunarkór Garðars Cortes og segir það hafa verið skemmtilegt en að hún hafi verið hlédræg og feimin. „Ég get ekki hælt mér af sönghæfileikunum, en ég neyddist til að syngja í sumum danshlutverkum. Þegar Carl Billich sagði að við Ingunn ættum að syngja í Kabarett sagðist ég ekki kunna að syngja. „Þú getur það víst,“ sagði hann og þar við sat.“
Í fyrra var hætt að framleiða ávaxtadrykkinn Svala eftir að hann hafði verið á markaði í 40 ár, en í byrjun var Ásthildur fengin til að leika með HLH-flokknum í sjónvarpsauglýsingu til kynningar á drykknum. „Ég var til í allt enda með reynslu í því að dansa og halda á bakka um leið!“ Á afmælistónleikum Ladda hafi hann látið auglýsinguna rúlla og það hafi rifjað upp skemmtilega tíma. Hún var líka með í auglýsingu fyrir Lottó 1986.
Ásthildi Ingu er margt til lista lagt. Hún hefur stundað nokkurra vetra nám í olíumálun í Myndlistarskóla Kópavogs og átt málverk á sýningum. Einnig hefur hún lært blýglerlist og gert fjölda listaverka á því sviði, en segist ekki semja ljóð eða lög eins og eiginmaðurinn. „En ég hef gaman af að lesa þau og heyra.“