Páll Erland
Páll Erland
„Þetta er alveg fordæmalaust ástand að það sé hættustig á tveimur starfssvæðum í einu,“ segir Páll Erland, forstjóri HS veitna, um þá stöðu að hættustig almannavarna sé bæði í Grindavík og í Vestmannaeyjum

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Þetta er alveg fordæmalaust ástand að það sé hættustig á tveimur starfssvæðum í einu,“ segir Páll Erland, forstjóri HS veitna, um þá stöðu að hættustig almannavarna sé bæði í Grindavík og í Vestmannaeyjum. „Við höfum yfir mjög góðum mannskap að ráða á þessum sérstöku tímum sem skiptist núna í þá sem sinna daglegum rekstri og annan hóp sem sinnir þáttum tengdum þessu almannavarnaástandi og þar eru bæði sérfræðingar og framkvæmdaflokkar.

Við höfum lagt mikla áherslu á að halda hita á húsunum og rafmagninu á í Grindavík og það hefur gengið framar vonum,“ segir Páll.

Þótt hættustig í Grindavík hafi verið fært af neyðarstigi yfir á hættustig er ástandið enn viðkvæmt á svæðinu. „Almannavarnir eru að benda á að það sé ennþá hætta fyrir hendi að eldgos komi upp í nágrenni við Svartsengi sem hefði þá áhrif á starfsemi orkuversins þar bæði hvað varðar orku- og vatnsöflun. Þess vegna erum við enn í viðbragðsstöðu og í margs konar aðgerðum á Suðurnesjum til að búa okkur undir þann möguleika,“ segir Páll og bætir við að ef orkuverið í Svartsengi yrði fyrir áfalli þá yrðu áhrifin mjög víðtæk á öllum Suðurnesjum.

Bráðabirgðaviðgerð er fyrsta skrefið

Staðan í Vestmannaeyjum er talsvert öðruvísi enn sem komið er.

„Það verkefni kallar á aðkeypta köfunarþjónustu og erlenda sérfræðinga á þessu stigi málsins,“ segir Páll. Danskir framleiðendur vatnsæðarinnar hafa lagt áherslu á að verja lögnina þar sem hún er skemmd, þannig að hún haldi áfram að skila neysluvatni til Eyja, en hlífðarkápan fór af henni á talsverðum hluta svo lögnin liggur undir frekari skemmdum óvarin í sjónum.

„Það er samt bara bráðabirgðaaðgerð, svo leiðslan haldi sem lengst. Framtíðarlausnin er að leggja nýja vatnsleiðslu til Vestmannaeyja. Eftir að tryggt væri að ný lögn flytti vatn til Vestmannaeyja væri síðan hugsanlega mögulegt að hægt væri að gera við þessa lögn, en það er allsendis óvíst enn hvort það gengur og er ennþá í skoðun,“ segir Páll að lokum.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir