Höfundur „Sagan er vel skrifuð og grunnhugmyndin er góð, en angarnir eru margir,“ segir rýnir um Miðilinn, nýja glæpasögu Sólveigar Pálsdóttur.
Höfundur „Sagan er vel skrifuð og grunnhugmyndin er góð, en angarnir eru margir,“ segir rýnir um Miðilinn, nýja glæpasögu Sólveigar Pálsdóttur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Glæpsaga Miðillinn ★★★½· Eftir Sólveigu Pálsdóttur. Salka 2023. Innb. 287 bls.

Bækur

Steinþór

Guðbjartsson

Spennusagan Miðillinn eftir Sólveigu Pálsdóttur er ekki aðeins glæpasaga heldur ekki síður saga um ást og umhyggju, en um leið frásögn af erfiðri lífsbaráttu, svikum, lygum, misnotkun og yfirhylmingu.

Rauður er litur ástarinnar og í rauðu húsi í Vesturbæ Reykjavíkur hefur svo sannarlega ríkt ást en henni er ekki fyrir að fara á efri hæðinni eftir að lík Arnhildar, einstæðrar móður á áttræðisaldri í atvinnuleit og helsta eiganda hússins, finnst í Hólavallakirkjugarði skammt frá og í ljós kemur að hún hefur verið drepin. Hatur er andhverfa ástarinnar og þegar fólk er myrt með köldu blóði fær rauði liturinn á sig aðra mynd. En tilbrigði ástarinnar eru margbreytileg sem og litbrigðin og rétt eins og allra veðra er von er ekki allt sem sýnist í byrjun sögunnar.

Dulúð vofir yfir frásögninni og ganga með framliðnum ákveðna leið virðist óumflýjanleg. Miðilsfundur er einn útgangspunktur og Valþór miðill hefur greinilega lært ýmislegt af móður sinni, Stellu Jónsdóttur spákonu, sem jafnvel er talin göldrótt. Samfara rannsókn málsins er skyggnst inn í líf helstu persóna, bæði til að gera frekari grein fyrir þeim og ekki síður til að afvegaleiða lesendur, og í sumum tilfellum gerð grein fyrir mataræði þeirra, þótt það virðist ekki koma málinu við.

Persónur sögunnar lifa misjöfnu lífi og sumar eru litaðar af áföllum. Arnhildur, sem átti í fjárhagsvandræðum, kemur ekki mikið við sögu en allir bera henni vel söguna. Hún lifði í mikilli sorg. Jacob, eiginmaður hennar og barnsfaðir, samkvæmisljón og kvennaljómi, hvarf úr lífi mæðgnanna þegar Unnur dóttir þeirra, sem býr á sambýli, var átta ára. Hún lenti í slysi á unglingsárunum og skaddaðist á framheila með þeim afleiðingum að hana skortir tilfinningalega stjórnun og félagslegt læsi. Guðrún lögreglukona er einstæð móðir að norðan með tvíbura og virðist eiga erfitt í höfuðborginni, þótt norðlenska stoltið leyni sér ekki. Særós, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar, missti ung móður sína, átti drykkfelldan föður og systkini hennar fóru út af brautinni. Hún er almennt samviskusöm og missir aldrei dag úr vinnu, en eitthvað angrar hana og það skýrist þegar á líður söguna. Skarphéðinn og Regína, systir Arnhildar, misstu allt veraldlegt og orðsporið líka eftir að Unnur slasaðist og hokra í leiguhúsnæði í Hveragerði. Vandamál unga fólksins snúa fyrst og fremst að fjármálum. Skúli, Freyja og Hafdís, ungu leigjendurnir á neðri hæð rauða hússins, þurfa að hugsa um hvern eyri og eru ekki sátt við að leigan hækki.

Svo er það ástin og umhyggjan. Arnhildur sá ekki sólina fyrir Unni og lifði fyrir hana, samkvæmt ummælum annarra. Særós virðist ekki vera með sjálfri sér en Guðgeiri er sérstaklega annt um heilsu yfirmanns síns og vill henni allt hið besta. Valþór er einn fárra sem heimsækja Unni og fer vel á með þeim.

Miðillinn er krimmi í rólegri kantinum. Stress á einstaka persónum en það hreyfir varla við öðrum. Nær öll sagan snýst um líf helstu persóna og vandamál þeirra að vetri til og það er ekki fyrr en næsta vor, fjórum mánuðum eftir morðið á Arnhildi, sem birtir yfir rannsókn málsins. Fjólublár litur verður allsráðandi og síðasta púslið, sem kom eiginlega upp fyrir tilviljun, smellpassar.

Miðillinn er saga þessa heims og annars. Ætla má að hún eigi fyrst og fremst að snúast um morð en það verður eiginlega aukaatriði. Sagan er vel skrifuð og grunnhugmyndin er góð, en angarnir eru margir og eiginlega er of miklu púðri eytt í ýmislegt sem skiptir í raun engu máli í tengslum við framganginn. Eftir stendur að enginn er fullkominn, allir gera mistök og hafa eitthvað á samviskunni. Byrðin er bara misjafnlega þung.