Gunnar Guðmundsson yfirlæknir.
Gunnar Guðmundsson yfirlæknir. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
Gunnar Guðmundsson er yfirlæknir á HL stöðinni og hefur starfað þar frá útskrift úr sérfræðinámi sínu í Bandaríkjunum 1998. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því hvað regluleg líkamshreyfing getur haft mikil áhrif á sjúkdóma og það var ein af ástæðum þess að ég valdi að starfa í HL stöðinni

Arna Sigrún Haraldsdóttir

Gunnar Guðmundsson er yfirlæknir á HL stöðinni og hefur starfað þar frá útskrift úr sérfræðinámi sínu í Bandaríkjunum 1998. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því hvað regluleg líkamshreyfing getur haft mikil áhrif á sjúkdóma og það var ein af ástæðum þess að ég valdi að starfa í HL stöðinni. Mitt hlutverk er að sjá til þess að störf lækna í HL stöðinni fari fram með eðlilegum hætti. Þannig þarf að vera til öflugur tækjabúnaður sem læknar geta unnið með eins og áreynsluprófstæki og tölvubúnaður til að vinna úr niðurstöðum. Einnig að gæta að öllum öryggisatriðum og að unnið sé samkvæmt stöðlum um heilbrigðisstofnanir. Þannig erum við með búnað til þess að bregðast við ef skjólstæðingar í HL stöðinni veikjast skyndilega eða slasast við æfingar og viðbragðsáætlanir þar að lútandi. Ég geri einnig þolpróf á sjúklingum og sé um að ráða aðra lækna til að vinna í HL stöðinni og þjálfa þá og að læknar séu viðstaddir starfsemina eins oft og hægt er.

Margir æfa árum saman í HL stöðinni

Algengt er að fólk sé árum saman að æfa í HL stöðinni. Að jafnaði gerum við áreynslupróf á tveggja ára fresti og tökum skjólstæðinga í viðtöl eftir þörfum þess á milli. Þá eru langflestir í eftirliti hjá sérfræðilæknum eins og hjartalæknum eða lungnalæknum.“

Sjúklingar koma á HL stöðina fyrst og fremst eftir tilvísun frá læknum. „Oftast er um að ræða heimilislækna, hjarta- og lungnalækna og einnig vísa læknar á Reykjalundi sjúklingum til okkar í framhaldsmeðferð. Flestir byrja á áreynsluprófi við komu á stöðuna til að meta færni þeirra og eru settir í viðeigandi hópa. Ef þeir eru með lungnasjúkdóma þá fara þeir í hópa sem eru sérstaklega hugsaðir fyrir þá sem hafa lungnasjúkdóm og æfingar við þeirra hæfi. Ef þeir eru nýbúnir að fá brátt kransæðaheilkenni eða fara í inngrip vegna kransæða fara þeir í svokallaða stig 2 þjálfun þar sem þeir æfa þrisvar í viku undir nákvæmu eftirliti sjúkraþjálfara. Aðrir sem eru með hjartasjúkdóma fara einnig í áreynslupróf og æfa síðan tvisvar í viku í almennum hópum.“

Höf.: Arna Sigrún Haraldsdóttir