Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Þrátt fyrir að Færeyingar hafi stóraukið þær aflaheimildir sem veittar eru þarlendum skipum til veiða á norsk-íslenskri síld á undanförnum árum hafa íslensk stjórnvöld haldið í samninga við Færeyjar um gagnkvæman aðgang fiskiskipa að lögsögu ríkjanna. Ekki er útilokað að færeysku skipin sem hafa verið á veiðum á norsk-íslensku síldinni í íslenskri lögsögu hafi fengið íslenska sumargotssíld sem meðafla en skipin hafa ekki heimild til að veiða þá tegund.
Þetta má lesa úr svörum matvælaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.
Nokkur færeysk skip voru á miðunum austur af landinu að veiða norsk-íslenska síld fyrr í mánuðinum. Dæmi eru um að íslensk sumargotssíld hafi verið allt að 20% aflans þegar íslensk skip voru við veiðar skammt út af Austfjörðum, en ekki er vitað í hve miklum mæli færeysku skipin fengu sumargotssíld sem meðafla.
„Ekki er gert ráð fyrir meðafla í samningum Íslands og Færeyja um gagnkvæman aðgang til síldveiða. Til að minnka líkur á meðafla af íslenskri sumargotssíld er skilgreind lína sem færeysk skip mega ekki veiða vestan við. Ekki er hægt að útiloka að einhver meðafli fáist af íslenskri sumargotssíld við veiðar á norsk-íslenskri síld. Eftirlit er viðhaft með veiðunum og fylgst með magni blöndunnar við veiðar erlendra skipa í íslenskri lögsögu,“ segir í svari matvælaráðuneytisins.
Langt umfram ráðgjöf
Á síðasta ári veiddu færeysk skip um 61 þúsund tonn af norsk-íslenskri síld í íslenskri lögsögu, en ekki hafa verið í gildi samningar um veiðarnar frá árinu 2013 þegar Færeyjar sögðu sig frá samningum sem höfðu verið í gildi frá 2007.
„Í því samkomulagi var hlutdeild Færeyja 5,16% en síðustu ár hafa Færeyjar sett sér einhliða kvóta upp á 22% af ráðgefnu aflamarki. Ísland og Noregur hafa jafnframt aukið hlutdeild sína einhliða en ekki eins mikið og Færeyjar. Þannig var hlutdeild Íslands 14,51% í 2007 samkomulaginu en aflamark hefur undanfarin ár verið sett sem 18% af ráðgjöf, sambærilegar tölur fyrir Noreg eru 61% og nú 76%,“ útskýrir matvælaráðuneytið.
Ekki er að öðru leyti tekin afstaða til spurningarinnar um það hvort talið sé að færeysk yfirvöld hafi gefið út veiðiheimildir til sinna skipa í andstöðu við markmið Íslands um sjálfbærar veiðar á norsk-íslenskri síld. Ljóst þykir í ljósi þeirra hlutfalla sem upp eru gefin að heildarkvóti Íslands, Færeyja og Noregs nemur samanlagt rúmum 108% af ráðgjöf vísindamanna um hámarksafla. Á þá eftir að bæta við veiðiheimildum sem Bretland, Evrópusambandið og Rússland úthluta til sinna skipa.
Í svari ráðuneytisins er bent á að Ísland hafi undanfarið ár gegnt formennsku í viðræðum strandríkja um norsk-íslenska síld. „Nokkur gangur hefur verið í viðræðunum og leggur Ísland mikla áherslu á að ná samkomulagi um skiptingu.“
Í skiptum fyrir kolmunna
Hvaða rök eru með því að leyfa þessar veiðar færeyskra skipa án þess að samningar séu til milli strandríkjanna um norsk-íslensku síldina?
„Ísland og Færeyjar hafa haft með sér samkomulag sem kveður á um gagnkvæman aðgang til veiða á NÍ-síld og kolmunna. Þessi aðgangssamningur hefur gert útgerðum beggja ríkja kleift að skipuleggja veiðar á þessum stofnum svo þær séu sem skilvirkastar. Um báða þessa stofna er ósamið en samninganefndir strandríkjanna hittast mjög reglulega og vinna hörðum höndum að því að ná samningum.“
Vert er að geta þess að íslensk skip veiða töluvert af kolmunna í eða við færeyska lögsögu.