Sveimtónlist Magnús segir nýju plötuna vera elektrónískari en hann hafi gert áður.
Sveimtónlist Magnús segir nýju plötuna vera elektrónískari en hann hafi gert áður. — Ljósmynd/Anna Maggý Grímsdóttir
Tónlistarmaðurinn Magnús Jóhann Ragnarsson er nýlentur frá Namibíu þar sem hann hlóð batteríin fyrir komandi mánuð. Hann segist ferðaþyrstur en ekki hafa nægan tíma til að sjá allt sem hann vill. Svo hann reynir að nýta tímann sem best og heimsækja framandi slóðir

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Tónlistarmaðurinn Magnús Jóhann Ragnarsson er nýlentur frá Namibíu þar sem hann hlóð batteríin fyrir komandi mánuð. Hann segist ferðaþyrstur en ekki hafa nægan tíma til að sjá allt sem hann vill. Svo hann reynir að nýta tímann sem best og heimsækja framandi slóðir.

„Ég hef ekki farið sunnan miðbaugs áður og þetta er það syðsta sem ég hef farið. Ég hef áður farið til Afríku, til Marokkó og Egyptalands en þar er annar fílingur. Þarna var ég í öðrum pakka og fór í safari-ferð til dæmis. Ég er heimakær, Íslendingur í húð og hár en er kominn af miklum ferðalöngum. Það er mikið ferðagen í móðurfjölskyldunni sem nær langt aftur í ættir.“

Magnús hefur verið áberandi í íslenskri tónlistarsenu undanfarin ár. Desember er erilsamur tími hjá Magnúsi eins og mörgu öðru tónlistarfólki en hann er að gefa út nýja plötu, verður tónlistarstjóri á þrennum jólatónleikum, hjá Bríeti, Iceguys, Julevenner Emmsjé Gauta og svo eftir áramót í íslenska Idolinu. Hann segir margt felast í því að vera tónlistarstjóri.

„Í rauninni er maður miðstöð skipulags og samskipta. Ég skipulegg æfingatíma, er hljómsveitarstjóri og útset tónlistina. Ég ákveð hverjir verða í hljómsveitinni, raða hljómsveitinni saman og ákveð hver gerir hvað. Ég stýri æfingunum og þarf að þekkja músíkina aftur á bak og áfram. Svo er alls konar aukalegt stúss sem fylgir þessu þar sem ég er líka í samskiptum við umboðsmenn og tæknifólk. Svo er ég einnig í því að spila tónlistina og koma henni vel til skila,“ segir Magnús og finnst ekki skrýtið að fáir spái í það að það sé einn einstaklingur á bak við þetta allt.

Vildi gera meira úr tónlistinni

Í lok næstu viku, þann 8. desember, er von á nýrri sólóplötu á streymisveitur frá Magnúsi sem heitir Rofnar. Platan er nú þegar komin út á vínyl og geisladisk. Tónlistina má rekja til Grímuverðlaunaverksins Helgi Þór rofnar sem frumsýnt var árið 2020 en Magnús samdi tónlistina fyrir verkið.

„Í mínum augum er þetta tónlist sem er kannski orðin dálítið gömul en ég byrjaði að semja hana árið 2019 svo boginn er langur. Það hefur verið áhugavert verkefni að gera leikhúsmúsík þar sem ég hafði ekki verið í slíku verkefni áður. Leikritið er eftir Tyrfing Tyrfingsson og er myrkt leikrit um alls konar þjáningu og mannlega tilvist. Hlutverk tónlistarinnar var að draga fram gríska harmleikinn í sögunni og dramatísera ákveðna hluti,“ segir Magnús og bætir við að stuttu eftir að sýningum lauk vildi hann gera meira úr tónlistinni.

„Ég hélt alltaf smá hita á hellunni. Ég var með mjög mikið af efnivið sem nýttist ekki endilega í sýninguna. Sumt er mikið klippt til og breytt og annað er nýsamið og bætt við. Svo kom að því að mér fannst ég vera kominn með nóg til að kynna þetta til leiks sem heilsteypt sjálfstætt verk.“

Nafnið Rofnar er rótin í leikhúsverkinu en Magnús vildi frekar gefa þetta út sem óræðara verk með tilvísun í leikritið.

„Allir lagatitlar eru rómverskar tölur, Rótin er leikverkið en mig langaði þó ekki að binda þetta alveg við sýninguna því þetta hefur breyst og mörgu hefur verið bætt við síðan þá til að ég gæti réttlæt það að verkið hafi öðlast nýtt líf.“

Hann segir að andrúmsloft plötunnar sé rafskotin tónlist ásamt strengja- og brasshljóðfærum. „Ætli það sé ekki hægt að lýsa tónlistinni sem nýklassísk í elektrísku andrúmslofti. Á sumum stöðum er leikverkið og píanóið í forgrunni. Það er erfitt að setja þetta nákvæmlega í einhvern kassa. Ég tók upp hljóðgervla, hljóðupptökur af hljóðfærum eins og píanói og bjagaði hluti og sendi þá í gegnum alls konar tæki og tól. En þetta er elektrónískara en ég hef verið að gera áður. Það má kannski kalla þetta sveimtónlist.“

Erfitt að komast á bandarískan markað

Á svipuðum tíma fyrir ári skrifaði Magnús undir plötusamning við ameríska útgáfufyrirtækið FOUND. Hann segir þetta spennandi tækifæri fyrir sig og það verði forvitnilegt að sjá hvernig þetta gangi og hvort það auki við hlustunina á erlendri grundu. „Það getur verið mjög erfitt að komast inn á bandarískan markað svo það er spennandi fyrir mig að vinna með bandarísku útgáfufyrirtæki. Kostirnir eru að meira verður framleitt af vínil og geisladiskum en ég gæti nokkurn tímann gert. Tónlistin mín er í verslunum um allan heim og það er fólk í vinnu við að kynna músíkina mína. Hingað til hef ég gefið út allt sjálfur sem er frábært en það er mjög mikil vinna. Svo hef ég rekist á ýmsa veggi við það að gefa út sjálfur. Nú var tímabært fyrir mig að prófa eitthvað nýtt og Scott Blum eigandi FOUND hafði mikinn áhuga á mér og minni tónlist og birtist á hárréttum tíma.“

Hann segir þurfa að gera hlutina vel fyrir tímann þegar unnið er með stóru útgáfufyrirtæki. „Nú er ég að leggja lokahönd á nýja dúó-plötu með Óskari Guðjónssyni saxófónleikara sem kemur út hjá FOUND næsta haust. Við skilum henni fyrir jól,“ segir Magnús að lokum.

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir