Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Leikmenn og þjálfarar íslenska kvennalandsliðsins í handbolta mættu til Stafangurs í Noregi um miðjan þriðjudag. Í dag leikur liðið svo sinn fyrsta leik á stórmóti í ellefu ár, eða frá því á EM í Serbíu árið 2012.
Það er óhætt að segja að fáir leikmenn íslenska liðsins hafi fyrir einu ári séð fyrir að þeir væru að fara að leika á stórmóti á þessum tímapunkti. Margir leikmenn í hópnum eru að stíga sín fyrstu skref með landsliðinu og enn fleiri voru á barnsaldri þegar Ísland lék síðast á stærsta sviðinu.
Vegna fjarveru margra lykilleikmanna hafa yngri leikmenn, sem eru margir hverjir mjög óreyndir með landsliðinu, komið inn í hópinn á síðustu mánuðum. Sjö leikmenn af átján sem eru í liðinu í Noregi hafa leikið minna en fimmtán landsleiki.
Það er óhætt að segja að ungum leikmönnum sé hent í djúpu laugina og það kútalausum. Þeir leikmenn sem bakvörður dagsins hefur rætt við síðustu daga viðurkenndu að þeir hefðu ekki átt von á að vera í þessum sporum á þessum tímapunkti.
Inni á milli eru svo reynsluboltar á borð við Þóreyju Rósu Stefánsdóttur, Sunnu Jónsdóttur og Hildigunni Einarsdóttur sem eru þeim yngri til halds og trausts. Þá eru lykilleikmenn á borð við Söndru Erlingsdóttur, Theu Imani Sturludóttur og Andreu Jacobsen alls ekki gamlir.
Reynsluboltarnir og þær sem eru reynsluminni eiga það sameiginlegt að vera þakklátar fyrir tækifærið, sem þær vilja nýta vel og gera land og þjóð stolt.