Helga Torfadóttir fæddist í Reykjavík 30. apríl 1950. Hún lést 21. nóvember 2023.

Foreldrar hennar voru Torfi Guðbjörnsson, f. 5. desember 1907, d. 18. mars 1983, og Rósa Jónatansdóttir, f. 19. maí 1916, d. 24. janúar 2002.

Þann 4. apríl 1970 giftist Helga Antoni Bjarnasyni, f. 17. júlí 1949. Dætur þeirra eru: 1) Rósa, f. 5. ágúst 1972, sambýlismaður hennar er Bjarni Jónsson, f. 29. júní 1958. Sonur þeirra er Anton, f. 2010. Fyrir átti Bjarni Ólöfu, f. 1982, Steinunni Þuríði, f. 1986, Margréti, f. 1990, og Hjalta Björn, f. 2005. 2) Birna María, f. 8. mars 1977, gift Jóni Þórarinssyni, f. 26. júlí 1960. Börn þeirra eru Anton Örn, f. 2010, Helga Lind, f. 2015, og Benedikt Thor, f. 2015. Fyrir átti Jón Evu Lind, f. 1981, d. 2013, Þórarin Ágúst f. 1986, og Jóhönnu Völu, f. 1986. 3) Helga Björg, f. 14. júní 1989, sambýlismaður hennar er Kristján Helgason, f. 15. maí 1987. Sonur þeirra er Bragi, f. 2021.

Helga ólst upp í Reykjavík og bjó fyrstu ár ævi sinnar á Laugavegi. Næst flutti hún með foreldrum sínum í Barmahlíð 40, þaðan sem hún flutti að heiman ung að árum. Helga og Anton byggðu sér glæsilegt heimili við Asparlund 9 í Garðabæ, en bjuggu síðar lengst af í Byggðarenda 1. Helga lauk gagnfræðaprófi frá Hlíðaskóla 1965. Árið 1982 lauk Helga námi við Sjúkraliðaskóla Íslands og árið 1995 lauk hún stúdents-
prófi frá öldungadeild Fjölbrautaskólans í Breiðholti. Eftir gagnfræðapróf starfaði Helga sem ritari hjá Sakadómi og síðar sem sjúkraliði á Grensásdeild.

Útför Helgu fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 30. nóvember 2023, klukkan 13.

Við Helga vorum alin upp að miklu leyti saman, en mæður okkar voru systur og mjög samheldnar. Helga var eina barn foreldra sinna, við vorum á svipuðum aldri og náðum alla tíð mjög vel saman. Sem krakkar dvöldum við sumarlangt, ásamt Lofti bróður mínum og mæðrum okkar í sumarbústað fjölskyldunnar á Laugarvatni en pabbarnir komu oftast til okkar um helgar.

Á fullorðinsárum kynnti Helga mig oft sem bróður sinn án nokkurra frekari málalenginga, slíkur var kærleikurinn og sambandið okkar á milli.

Vinátta okkar hefur haldist traust og yndisleg alla tíð. Í mjög mörg ár skiptumst við á að halda upp á áramótin með fjölskyldum okkar, en seinni árin meðan Helga og Anton bjuggu í Byggðarendanum voru þau eiginlega búin að yfirtaka framkvæmdina og öllum var boðið í glæsilegar áramótaveislur til þeirra. Við áttum auk þess fullt af skemmtilegum ferðalögum saman og öðrum ógleymanlegum samverustundum.

Helga og Anton heimsóttu okkur nokkrum sinnum til Florida, þar sem við höfum búið á veturna í seinni tíð og ávallt yndislegt að fá þau til okkar. Þá hafa börnin okkar náð afskaplega vel saman.

Fyrir einhverjum misserum læddist aftan að Helgu vágestur sem kallaður er Alzheimer. Hann hafði ekki mikil áhrif á Helgu framan af en fyrir tiltölulega stuttu fór þessi sjúkdómur að herja af meiri krafti og hafði yfirhöndina að lokum.

Helga var alla tíð glæsileg kona og einstaklega falleg, jafnt í útliti sem innræti.

Hún var lukkunnar pamfíll, kynntist ung manni sínum, Antoni Bjarnasyni, fyrrverandi forstjóra, og áttu þau saman þrjár yndislegar dætur, Rósu, Birnu Maríu og Helgu Björgu.

Söknuðurinn er mikill en mestur er hann auðvitað Antons, dætranna og barnabarnanna, sem við vottum okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Helgu.

Þó í okkar feðrafold

falli allt sem lifir

enginn getur mokað mold

minningarnar yfir.

(Bjarni Jónsson frá Gröf)

Jónatan Ólafsson,
Sigrún Sigurðardóttir.

Glæsileg og virðuleg frú, þannig minnist ég Helgu.

Þegar ég ræddi um hana þá kallaði ég hana iðulega frú Helgu. Það gerði ég til þess að greina hana frá bestu vinkonu minni og dóttur hennar, Helgu Björgu, en einnig vegna þess að það var fullkomlega viðeigandi. Helga var fín frú í orðsins fyllstu merkingu. Ég gleymi því aldrei hvernig Helga leit út þegar ég kynntist henni fyrst átta ára gömul. Sólgleraugu, rauður varalitur, pels og leðurhanskar, það var staðalbúnaður þegar hún skutlaði og sótti Helgu Björgu í skólann. Að ógleymdum hundaskara sem var ávallt með í för. Helga var ekki aðeins glæsileg kona heldur var hún líka stórskemmtileg og kunni svo sannarlega að njóta lífsins. Frú Helga blandaði minn fyrsta Cosmopolitan-kokteil þegar við vinkonurnar vorum að fara út að skemmta okkur eitt skiptið. Ég man að ég upplifði mig sjálfa sem svaka fína frú með henni þegar við skáluðum saman fyrir lífinu og tilverunni. Heimili fjölskyldunnar við Byggðarenda var að vanda yfirfullt af lífi og fjöri. Ég get léttilega kallað fram minningar um hlátur hennar og heyrt hana kalla á Helgu Björgu um húsið og hvað þá að biðja hundana um að hætta að gelta. Þar var alltaf nóg um að vera. Með hlýju í hjarta minnist ég frú Helgu fyrir gleði hennar, örlæti og glæsileika sem birtist og lifir í dætrum hennar sem ég er svo lánsöm fyrir að fá að kalla skásystur mínar. Við skálum fyrir þér elsku Helga og þökkum fyrir að hafa fengið að ganga í gegnum lífið með þér okkur við hlið. Ég sendi innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu Helgu.

Þú áttir söngva og sól í hjarta

er signdi og fágaði viljans stál.

Þeir þurftu ekki um kulda að kvarta,

er kynni höfðu af þinni sál.

(Grétar Fells)

María Klara Jónsdóttir.