Ilmefni Húð barna þolir illa ilmefni að sögn Rögnu.
Ilmefni Húð barna þolir illa ilmefni að sögn Rögnu. — Ljósmynd/Helgi Ómarsson
Húðrútína ungra stúlkna hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur á samfélagsmiðlum eins og TikTok og Instagram. Stúlkur frá átta ára aldri eru farnar að nota vörur sem ekki eru ætlaðar börnum. Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á…

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Húðrútína ungra stúlkna hefur verið mikið í umræðunni síðustu vikur á samfélagsmiðlum eins og TikTok og Instagram. Stúlkur frá átta ára aldri eru farnar að nota vörur sem ekki eru ætlaðar börnum. Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni ræddi málið við Kristínu Sif og Þór Bæring í morgunþættinum Ísland vaknar.

Finnið þið mikið fyrir þessu? spyr Kristín Sif Rögnu.

„Við finnum mjög mikið fyrir þessu. Í vinnunni sé ég dæmi þess að börn og ungt fólk er ekki bara að nota rangar vörur heldur einnig of mikið af vörum. En svo á ég eina ellefu ára sem er nú mikið í þessu. Manni þótti þetta krúttlegt fyrst og ég hafði smá á tilfinningunni að ég væri að gera réttan hlut en svo er þetta komið út í öfgar,“ segir Ragna.

Ragna segir fá börn koma á Húðlæknastöðina vegna þessa en mun fleiri unglingar. Hún segir kosti og galla fylgja meiri umræðu um húðina. „Við fögnum því að það er meiri og betri umræða og fólk meðvitaðra um hvaða vörur henta og henta ekki. Unglingar eru til dæmis farnir að hugsa meira um húðina heldur en áður.“

Ilmefni sem börn þola illa

„Fólk er að koma með pokana fulla af vörum sem þau nota á húðina. Þau sýna mér 10-15 vörur og telja upp hvað þau nota á morgnana og svo á kvöldin. Segjast hreinsa þrisvar og eitthvert algjört rugl,“ segir Ragna og bætir því við að þetta geti hreinlega skaðað húðina og orðið til þess að bólgur og ofnæmisviðbrögð komi fram.

Hún segir áhrifin þó ekki langvarandi en það sé þó hægt að lenda í húðþurrki. „Það eru oft mikil ilmefni í þessum vörum sem fáir þola og þá sérstaklega ekki börn. Yfirleitt mælum við með einföldum vörum fyrir börn, hreinum vörum án ilmefna en í rauninni þurfa börn rosalega lítið af vörum.“

Ragna segir vandamálið og umræðuna mun stærri hjá stúlkum heldur en drengjum en segir þó unga stráka hugsa betur um húðina en karlmenn. Hún segist ekki endilega vita hvernig hægt sé að styðja við þessa nýju tísku en leggur áherslu á að börn þurfi ósköp lítið af húðvörum. „Í rauninni þurfa börn raka og að þvo sér með þvottapoka kvölds og morgna. Svo sólarvörn þegar það á við. Við eigum að reyna að halda öllum virkum húðvörum frá börnum, ekkert retínól eða sýrur, því þau efni skaða húðina, þurrka hana og taka í burtu varnarlagið sem verndar húðina.“

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir