Úr kvennatíma. „Það skiptir máli að vera í stöðugri þjálfun,“ segja þær (frá vinstri) Svava Guðmundsdóttir, Sara Hafsteinsdóttir og Þórey Torfadóttir.
Úr kvennatíma. „Það skiptir máli að vera í stöðugri þjálfun,“ segja þær (frá vinstri) Svava Guðmundsdóttir, Sara Hafsteinsdóttir og Þórey Torfadóttir. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er gott fyrir okkur að hafa stuðning hver af annarri.

Arna Sigrún Haraldsdóttir

Þegar blaðamaður mætti í HL-stöðina biðu þar þrjár glæsilegar konur á besta aldri, allar á leiðinni á æfingu. Þórey Torfadóttir, sem hefur æft þar síðan 2007, grínast með það að í HL-stöðinni byrji allir í „tossabekknum“. Með því á hún við stöðumat sem allir sem koma þangað til að æfa þurfa að fara í. Allir fari í ýmiss konar heilsupróf og sé síðan raðað í hópa út frá því.

„Hér er öryggi sem mér finnst svo gott, hér er fylgst með okkur, þrýstingurinn tekinn öðru hverju, við erum vigtaðar og þess háttar, auk þess sem læknir er alltaf í húsinu,“ segir Sara Hafsteinsdóttir.

Blaðamaður, sem er kona korter í miðaldra, spyr hvort þær hafi einhverjar lífslexíur til að deila. „Það er náttúrlega svo mikilvægt upp á beinþéttnina. Það skiptir rosalegu máli að vera í stöðugri þjálfun. Það má ekkert slaka á þótt maður eldist.“

Talið berst að ólíkum einkennum hjartasjúkdóma karla og kvenna.

„Við upplifum einkenni hjarta- og æðasjúkdóma ekki eins og karlar. Í minni fjölskyldu eru þrír sem hafa fengið hjartasjúkdóm og ekkert okkar fékk sömu einkennin. Við konurnar fáum fleiri og óljósari einkenni. Stundum eins og óstaðsett óþægindi, sem er ekki hægt að benda á eða staðsetja.“

„Það er svo gott fyrir okkur að hafa stuðning hver af annarri, við fylgjumst með ef einhver mætir ekki og það duga engar afsakanir aðrar en að vera í útlöndum eða lasin,“ segir Svava Guðmundsdóttir og hinar taka undir. „Það hættir enginn að æfa í HL-stöðinni, fólk deyr út úr hópnum hér,“ segir Þórey kímin að lokum.

Höf.: Arna Sigrún Haraldsdóttir