Halla Haraldsdóttir fæddist á Siglufirði 1. nóvember 1934. Hún lést á Landspítalanum Fossvogi 23. nóvember 2023.

Foreldrar hennar voru Guðrún Brynjólfsdóttir húsfreyja, f. 17.12. 1914, d. 15.12. 2010, og Haraldur Sölvason verkamaður, f. 3.1. 1904, d. 23.2. 1996, og var Halla elst þriggja systkina. Systkini Höllu eru Marteinn Brynjólfur, f. 7.9. 1939, d. 24.5. 2016, kvæntur Álfhildi Stefánsdóttur, og Sigurlaug, f. 25.6. 1945, kvænt Marteini Jóhannessyni.

Eiginmaður Höllu var Hjálmar Stefánsson frá Siglufirði, fv. útibússtjóri Landsbankans, f. 21.11. 1934, d. 24.5. 2015, hann var sonur Sigurbjargar Hjálmarsdóttur húsfreyju og Stefáns Friðleifssonar verkamanns. Halla og Hjálmar eignuðust þrjá syni, Harald Gunnar hljómlistarmann, f. 7.7. 1955, Þórarin, fv. flugstjóra, f. 15.3. 1959, kvæntur Báru Alexandersdóttur snyrtifræðingi, þau eiga börnin Höllu, Bjarka og Trausta og fimm barnabörn, og Stefán lækni, f. 24.2.1963, d. 31.8. 2021, hann var kvæntur Unni Rannveigu Stefánsdóttur sagnfræðingi, þau eiga börnin Hjálmar og Margréti, fyrir átti Stefán Tinnu Mjöll sem á einn son.

Halla átti að baki langan feril sem farsæl gler- og myndlistarkona. Frá blautu barnsbeini var Halla með pensla í hendi, en 18 ára gömul hún hóf nám við Handíða- og myndlistaskóla Íslands.

Að námi loknu hóf hún búskap á Siglufirði og árið 1969 fluttist Halla ásamt fjölskyldu sinni til Danmerkur, þar sem hún nam snyrtifræði ásamt því að sækja ýmis námskeið og kennslu í myndlistinni.

Eftir Danmerkurdvölina settist fjölskyldan að í Keflavík og bjó þar í fjölmörg ár. Þar var Halla formaður Soroptimistaklúbbsins um árabil og starfaði einnig með Lionessum en hún sinnti alla tíð líknarmálum og eru ófá verk, jólakort og annað sem hún gaf til styrktar þeim.

Halla braut blað í íslenskri listasögu kvenna þegar hún hélt einkasýningu á Kjarvalsstöðum árið 1975. Einnig var Halla fyrsta konan sem hélt myndlistarsýningu á Suðurnesjum og var kosin bæjarlistamaður Keflavíkur fyrst kvenna.

Árið 1978 urðu stór tímamót á listferli Höllu þegar hún þáði boð um samstarf með hinu þekkta gler- og mósaíkverkstæði Dr. H. Oidtmann í Þýskalandi. Samstarf þeirra varði í áratugi og það er í glerlistinni sem Halla markaði spor sín erlendis. Halla var valin úr hópi 25 þekktra listamanna til að gera steinda glugga í Marien-kapelluna í Þýskalandi. Listsköpun Höllu var mjög fjölbreytileg, hún var afkastamikill listamaður og má sjá verk eftir hana í fjölmörgum kirkjum landsins. Halla var jafnvíg á gler- og myndlist og má finna verk hennar bæði á opinberum stöðum sem og einkaheimilum.

Halla bjó síðustu árin í Garðabæ og á þeim tíma hélt hún fjölmargar sýningar um land allt. Árið 2022 hélt Halla sína síðustu sýningu, þá 88 ára gömul.

Halla verður jarðsungin frá Digraneskirkju í dag, 30. nóvember 2023, kl. 13.

Elsku mamma mín, ég kveð þig með sorg í hjarta og þakklátur fyrir alla þína ást og móðurumhyggju í minn garð í gegnum alla okkar tíð.

Ég sendi þér þetta fallega ljóð.

Þú áttir þrek og hafðir verk að vinna

og varst þér sjálfri hlífðarlaus og hörð.

Þú vaktir yfir velferð barna þinna,

þú vildir rækta þeirra ættarjörð.

Frá æsku varstu gædd þeim góða anda,

sem gefur þjóðum ást til sinna landa,

og eykur þeirra afl og trú,

en það er eðli mjúkra móðurhanda

að miðla gjöfum eins og þú.

Ég flyt þér, móðir, þakkir þúsundfaldar,

og þjóðin öll má heyra kvæðið mitt.

Er Íslands bestu mæður verða taldar,

þá mun þar hljóma fagurt nafnið þitt.

Blessuð sé öll þín barátta og vinna,

blessað sé hús þitt, garður feðra minna,

sem geymir lengi gömul spor.

Haf hjartans þakkir, blessun barna þinna,

– og bráðum kemur eilíft vor.

(Davíð Stefánsson)

Takk fyrir allt og allt, elsku mamma mín.

Þú verður alltaf í hjarta mínu.

Þinn sonur,

Haraldur Gunnar Hjálmarsson.

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima.

(Hugrún)

Nú er komið að leiðarlokum og við kveðjum þig með miklum söknuði. Þú varst alveg einstök, ljúf og góð við okkur öll á allan hátt. Þú varst yndisleg móðir og börnum okkar og barnabörnum ómetanleg amma og langamma. Ekkert var þér mikilvægara en fjölskyldan sem alltaf var í fyrsta sæti. Krakkarnir okkar elskuðu að koma til ykkar í Kefló og oftar en ekki með frændsystkini sín með sér og þig munaði ekkert um að vera aukaamman þeirra.

Upp í hugann koma öll ferðalögin okkar innan og utan lands í gegnum árin. Eggjaleit á húsbílnum ykkar með kakó og nesti, gargandi fugla yfir okkur og feðgarnir hlæjandi að hræðslunni í sumum. Þú elskaðir útilegurnar og brasið sem því fylgdi sem var ómetanlegt þegar krakkarnir voru litlir. Húsbíllinn var ykkar annað heimili á sumrin og oft staðsettur á Sigló þar sem þú varst með sumarsýningar. Við nutum þess líka að ferðast saman í sólina og oftast var það Flórída sem var fastur staður í ykkar lífi í áratugi. Minningarnar eru margar þaðan og ekki síður frá húsinu ykkar á Spáni. Þar nutum við öll að vera saman með börnin lítil í sól og sumaryl.

Að fá að fara með þér til Þýskalands var ótrúlegt fyrir okkur og sjá allt það sem þú varst að gera þar. Virðing þeirra allra og aðdáun á verkum þínum leyndi sér ekki á verkstæðinu hjá Oidtmann-bræðrum, það gleymist seint. Ljósanótt og sýningarnar þínar eru okkur mjög eftirminnilegar. Opið hús hjá ykkur, fullt af fólki og við á þönum með kaffi og kökur. Það var alltaf líf og fjör þar sem þú varst og ófáar sýningar sem við hjálpuðum ykkur að setja upp hér og þar um landið. Þið voruð glæsileg hjón svo eftir var tekið enda samtaka og búin að fylgjast að frá barnsaldri á Sigló. Missir þinn var mikill þegar hann féll frá en þú hélst ótrauð áfram með okkur öll þér við hlið.

Þú hélst margar sýningar á verkum þínum sem við erum öll óendanlega stolt af og munu verkin þín fylgja okkur um ókomna tíð. Við ásamt Halli Gunna fórum með þér í yndislega ferð heim á Siglufjörðinn fagra fyrir mánuði, þar sem verið var að taka upp heimildarmynd um þig og þína ótrúlegu ævi og listferil. Við hlökkum öll til að sjá myndina, sem verður skrítið þegar þú ert ekki lengur hér. Við vitum að þú fylgist með okkur frá himni ef við þekkjum þig rétt.

Elsku hjartans mamma mín og tengdó, takk fyrir allar okkar yndisstundir sem við munum geyma í hjarta okkar. Þú varst ótrúlega falleg fyrirmynd og glæsileg kona sem alltaf hugsaðir fyrst um fjölskylduna og svo listina. Við vitum að þínir taka fagnandi á móti þér og þú sjálfsagt glöð að komast í þeirra faðm. Takk fyrir okkur, yndislega vináttu, traust og kærleik.

Elskum þig og söknum.

Þín tengdadóttir og sonur,

Bára Alexandersdóttir og Þórarinn Hjálmarsson.

Elsku amma mín.

Ég hef svo margt að segja, en samt er ég alveg tóm. Við áttum eftir að gera svo margt saman, en samt búnar að gera svo mikið – ég hélt þú værir eilíf – sem þú verður í hjarta mínu.

Ég grínaðist stundum með það að ég hefði verið hálf uppalin hjá þér, þar sem ég sótti endalaust í að gista hjá ykkur afa. Það var svo dásamlegt að vera hjá ykkur, mér leið hvergi betur.

Minningarnar hellast yfir mig, ég get ekki tekið allt Morgunblaðið í að rifja þær upp, en hér koma nokkrar:

Þú talaðir svo oft um þau skipti sem þú sóttir mig í leikskólann þar sem ég var stútfull af kvefi og öll úti í hori, brunaðir með mig heim þar sem þú dældir í mig flóaðri mjólk og einhverju öðru nornaseyði, og viti menn, mér batnaði á augabragði.

Ég man þegar við systkinin gistum hjá ykkur afa í Heiðarbrúninni, hvernig afi vildi vekja okkur snemma alla morgna og byrja daginn, en þú varðir okkur með kjafti og klóm og sást til þess að við fengjum að sofa eins lengi og við vildum. Þú passaðir að við værum eingöngu dekruð hjá ykkur.

Þegar ég varð eldri elskuðum við að horfa saman á hryllingsmyndir, X-files og annað sem krakkar eiga alls ekki að horfa á. Við héldumst í hendur, þú snerir þér að mér og spurðir hvort ég væri á lífi, því ég var ekkert hrædd – en hvað þurfti ég að óttast þegar þú varst við hliðina á mér!

Allar utanlandsferðirnar sem við fórum saman í, útilegurnar, Samkaupsferðirnar á rauðu Corollunni, ferðalögin í húsbílnum, prakkarastrikin – já ég er að tala um þegar við tvær og Stebbi frændi stálum fiskunum úr neti bóndans (ég má samt alls ekki segja frá því …), öll kvöldin sem þú spáðir í spil fyrir mér og komst að hlutum sem ömmur eiga ekki að vita – en þú varst bara svo miklu meira en amma mín, ein besta og traustasta vinkona sem ég hef átt.

Ég gæti setið hér og skrifað um elsku ömmu í allan dag, sterku, ákveðnu, ljúfu og dásamlegu ömmu mína sem ég leitaði endalaust til og hún tók mér alltaf með galopnum örmum, og nokkrum lummum og súkkulaðiköku. Við ungarnir þínir, eins og þú kallaðir okkur, vorum þér allt, og ef það var hægt, þá held ég að þú hafir verið enn sjúkari í litlu barnabarnabörnin.

Takk elsku amma mín fyrir allt sem þú varst og gerðir, ég er endalaust stolt og þakklát að bera nafnið þitt.

Lújú!

Halla litla.

Elsku besta tengdamamma, amma og langamma.
Það er með miklum söknuði sem við kveðjum þig. Þú varst alla tíð stór og mikill hluti af lífi okkar og við eigum svo margar yndislegar og ljúfar minningar tengdar samverustundum okkar hvar í heiminum sem við fjölskyldan vorum búsett. Það er mér mjög minnisstætt þegar ég kynntist ykkur Hjálmari fyrst, 21 árs gömul og nýr meðlimur í fjölskyldunni. Þú varst með myndlistarsýningu í Keflavík og Stebbi minn bauð mér að koma til að hitta mömmu sína og pabba og sjá sýninguna. Ég var pínu stressuð en Stebbi sagði: Uss, þetta er ekkert mál, þetta eru bara mamma og pabbi. Og þannig var það alltaf, þú þessi hæfileikaríka listakona settir alltaf fjölskylduna í fyrsta sæti, svo kom listin.

Við Stebbi bjuggum í mörg ár erlendis og á þessum tíma komstu oft til okkar og varst alltaf í góðan tíma. Árin okkar í Bandaríkjunum voru fimm og þá notaðir þú tækifærið og fórst á námskeið í glerskurði og bjóst hjá okkur. Þar áttum við yndislegar samverustundir yfir góðu spjalli og margar skemmtilegar stundir í eldhúsinu saman við alls konar matarbrall. Ferðin okkar til Eagle River þegar þið Hjálmar áttuð 65 ára afmæli er mér sérstaklega minnisstæð, lummurnar sem voru bakaðar við miklar tilfæringar af því að það vantaði eiginlega öll hráefni og engin vildi, ekki einu sinni íkornarnir. Og veiðiferðin þar sem farið var með fleiri fiska frá landi en komu að landi.

Ég verð þér ævinlega þakklát fyrir okkar einstaka vinskap, elsku besta Halla mín. Börnunum okkar Stebba varstu besta amma og þau eiga ljúfar minningar úr öllum útilegunum með ömmu og afa. Tímann þeirra með ykkur á Heiðarbrúninni þar sem laumast var í nammiskápinn, fjögurra ára afmæli fagnað tíu daga í röð með súkkulaðiköku og afmælissöng og deilt um hver ætti að fá kjötbeinin til að naga, amma eða ungarnir. Ferðirnar og dvölin á Krumshólum þar sem við öll, nema Stebbi, veiddum okkar fyrsta lax. Það skipti ekki máli á hvaða lífsins skeiði þau komu í heimsókn. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til ömmu Höllu. Stundum lastu í spil, stundum í drauma og stundum í raunveruleikann sjálfan. Það er ekki oft sem maður kynnist manneskju sem hægt er að ræða við um allt milli himins og jarðar, en það var svo sannarlega hægt með þér. Við nutum þess öll að eiga þessar samræðustundir með þér, hvort sem það vorum við öll saman eða ein með þér og á seinni árum bættust tengdaömmubörnin við í spjallið. Þessar samræður voru þó sjaldnast án kruðerís og svo sannarlega aldrei án kaffis. Það fylgdi alltaf fegurð samveru þinni en listin þín umlukti okkur fjölskyldu þína alla tíð.
Það eru svo sannarlega forréttindi að hafa verið tengdadóttir þín, ömmubörn, langömmubarn og tengdaömmubörn. Og við getum ekki sagt þér nógu oft hversu mikið við elskum þig og söknum.

Luvjú,

Unnur Rannveig, Margrét og Snorri, Hjálmar og Rakel Ýr, Tinna Mjöll og Magnus Julius.

Mig langar til þess að minnast Höllu systur með ljóði sem við báðar héldum mikið upp á. Ljóðið er eftir Kitty dóttur mína sem fór frá okkur árið 2009.

Er ég kveð þig, Halla, í hinsta sinn,

svo þakklát er fyrir tímann þinn.

Tár ég felli niður kinn.

Tómarúm í hjartanu finn.

Tárast mín augu.

Tárast mín sál,

af saknaðartárum er tilveran hál.

Far þú í friði,

far þú í sátt,

far þú þar sem þrautir ei átt.

(Kristbjörg Marteinsdóttir)

Við Maddi og fjölskylda þökkum Höllu og Hjálmari fyrir margar góðar stundir sem við áttum saman í gegnum árin. Guð geymi þig, Halla mín.

Þín systir,

Sigurlaug (Silla).