Fórn Bráðaliðar á vegum úkraínska hersins hlúa að hermanni sem særðist á víglínunni nærri Bakmút. Lengi hefur verið barist hart á þeim slóðum.
Fórn Bráðaliðar á vegum úkraínska hersins hlúa að hermanni sem særðist á víglínunni nærri Bakmút. Lengi hefur verið barist hart á þeim slóðum. — AFP/Aris Messinis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í brennidepli Kristján H. Johannessen khj@mbl.is

Í brennidepli

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Á sama tíma og óljósar fregnir berast af vilja Bandaríkjanna og Þýskalands til að koma á einhvers konar vopnahléi í Úkraínu standa Kremlverjar fyrir umfangsmestu drónaárásum á Kænugarð frá upphafi stríðsins. Að auki ríkir alger óvissa um hvort Rússlandsforseti hafi yfirhöfuð nokkurn áhuga á að taka þátt í friðarviðræðum sem runnar eru undan rifjum Bandaríkjaforseta og Þýskalandskanslara. John Herbst, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, segir þó eitt ljóst – allt tal um friðarviðræður nú sé augljóst veikleikamerki. Ekki megi afhenda Rússlandi sigur og það á silfurfati.

„Ég ætla ekki að halda því fram að þessar fréttir [um áherslu á friðarviðræður] séu falskar. Ég er bara alls ekki viss um að þær séu sannar. Eflaust eru einstaklingar, ekki í bara þessum tveimur ríkisstjórnum heldur einnig öðrum, sem vilja þetta stríð út af borðinu. Þeir halda að þá muni Pútín [Rússlandsforseti] hætta og sætta sig við hluta af Úkraínu. En hann mun ekki gera það,“ segir Herbst í samtali við bresku útvarpsstöðina Times Radio.

Sá möguleiki er fyrir hendi, segir Herbst, að hinn nafnlausi heimildarmaður fjölmiðla sem nýverið lak þeim upplýsingum að Bandaríkin og Þýskaland vilji Úkraínustjórn að samningaborði við Rússland sé í raun utan áhrifastöðu í ríkisstjórnum landanna tveggja. Opinber stefna sé áframhaldandi hernaðarstuðningur við Úkraínu.

Væri merki um veikleika

„En ef þetta er í raun að gerast, þá er um mikinn veikleika að ræða. Þá trúa menn að vopnahlé muni leysa það vandamál sem fylgir árásarstríði Pútíns í Úkraínu og hans markmiðum til framtíðar. Vopnahlé mun hins vegar styrkja Pútín. Allt frá upphafi hefur hann sagt leiðtoga Vesturlanda veika og að hann geti beðið þá af sér því þeir muni verða óþreyjufullir. Þegar það gerist mun Pútín reyna að ná fram sínum ömurlegu markmiðum sem með tímanum ganga gegn okkar hagsmunum – hagsmunum Vesturlanda,“ segir Herbst og bætir við að viðræður um frið, sem alltaf myndu þýða að Úkraínumenn yrðu að láta af hendi eigin landsvæði í hendur Rússa, jafngildi sigri Kremlverja.

„Þetta yrði skýr yfirlýsing um sigur Pútíns og ósigur ekki bara Úkraínu heldur Bandaríkjanna og Atlantshafsbandalagsins (NATO). Markmið Pútíns eru ekki bundin við það landsvæði sem hann hefur hrifsað til sín í Úkraínu. Þau eru ekki einu sinni takmörkuð við Úkraínu. Áður en til innrásar kom sendi Pútín NATO erindi þar sem meðal annars kom fram áhugi hans á landsvæðum sem eitt sinn tilheyrðu Sovétríkjunum. Þar má nú finna fjölmörg ríki sem eru bandamenn NATO. Það er því rétt það sem Biden [Bandaríkjaforseti] sagði í ræðu sem flutt var frá skrifstofu hans í Hvíta húsinu; ef við stöðvum ekki Pútín í Úkraínu þá gætum við þurft að mæta honum í Eystrasaltsríkjunum. Þar verður mun erfiðara að verjast og slíkt myndi kalla á þátttöku hermanna Atlantshafsbandalagsins.“

Þurfa fleiri vopnakerfi

Þrátt fyrir tíðar yfirlýsingar Vesturlanda, þ. á m. Bandaríkjanna og Þýskalands, um áframhaldandi hernaðarstuðning segir Herbst ekki nóg að gert. Gefa verði Úkraínu öll þau vopnakerfi sem nauðsynleg eru til landvinninga. Slíkt hafi ekki verið gert. „Ég held að það sé vegna þess að hótanir Pútíns um beitingu kjarnorku hafa komið þeim úr jafnvægi.“

Þýskaland

Hinn veiki hlekkur NATO-keðju

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur ítrekað bent á þær hættur sem kunna að skapast verði Rússlandi leyft að leggja Úkraínu í vopnuðum átökum. John Herbst segir Þýskalandskanslara ekki hafa verið samstiga í yfirlýsingum.

„Jafnaðarmannaflokkur Þýskalands [SPD] hefur lengi verið hikandi við að taka á Rússlandi. Hvort það sé vandamál Scholz [kanslara] nú veit ég ekki. Það er þó skýrt að í hópi hinna sterku ríkja NATO er Þýskaland veikast. Og það þegar verið er að mæta hinum mjög ágenga Pútín.“

Höf.: Kristján H. Johannessen