Heimsmeistaramót Andrea Jacobsen, Sunna Jónsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir eru klárar í slaginn fyrir fyrsta leik á HM í Stafangri í dag.
Heimsmeistaramót Andrea Jacobsen, Sunna Jónsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir eru klárar í slaginn fyrir fyrsta leik á HM í Stafangri í dag. — Ljósmynd/Jon Forberg
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta stígur á stærsta sviðið klukkan 17 í dag er liðið mætir Slóveníu í fyrsta leik sínum á stórmóti í ellefu ár, eða frá því á EM í Serbíu árið 2012. Fer riðill Íslands fram í Stafangri í Noregi

Í Stafangri

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta stígur á stærsta sviðið klukkan 17 í dag er liðið mætir Slóveníu í fyrsta leik sínum á stórmóti í ellefu ár, eða frá því á EM í Serbíu árið 2012. Fer riðill Íslands fram í Stafangri í Noregi.

Engin ný meiðsli hafa litið dagsins ljós hjá íslenska liðinu og því allir átján leikmennirnir klárir í bátana.

Auk Íslands og Slóveníu eru ólympíumeistarar Frakka og Afríkumeistarar Angóla einnig í riðlinum. Þrjú efstu liðin fara í milliriðil í Þrándheimi, en neðsta liðið leikur um forsetabikarinn í Fredrikshavn í Danmörku.

Leikurinn við Slóveníu í dag verður væntanlega mjög snúinn, gegn liði sem er mun reyndara á stórmótum. Slóvenska liðið er á mjög góðum stað í dag og áttunda sæti á Evrópumótinu í fyrra segir ýmislegt um styrk liðsins. Á því móti vann Slóvenía gríðarlega sterkar þjóðir á borð við Dani, Serba og Króata.

Áratugur er frá síðasta stórmóti hjá Íslandi en Slóvenía hefur leikið á fjórum heimsmeistaramótum í röð. Slóveníu hefur þó ekki tekist að komast í allra fremstu röð, því besti árangur liðsins á HM er áttunda sæti árið 2003.

Kunnuglegur þjálfari

Íslenskir handboltaunnendur ættu að þekkja Dragan Adzic, þjálfara slóvenska liðsins, vel. Ísland hefur aldrei leikið á stórmóti án þess að mæta liði sem hann þjálfar. Svartfellingurinn þjálfaði kvennalið þjóðar sinnar frá 2010 til 2017, en á þeim tíma mættust Ísland og Svartfjallaland í tvígang á EM og einu sinni á HM. Einn besti sigur íslenska landsliðsins frá upphafi var einmitt gegn Svartfjallalandi á HM 2011, Adzic til mikillar mæðu.

Tvö jafntefli á heimavelli

Slóvenía og Ísland mættust í umspili um sæti á HM á Spáni fyrir tveimur árum. Slóvenía vann auðveldan heimasigur, 24:14, í fyrri leiknum en liðin skildu jöfn í seinni leiknum á Íslandi, 21:21, þegar úrslitin í einvíginu voru svo gott sem ráðin.

Liðin mættust einnig í undankeppni EM 2018. Þá vann Slóvenía einnig stórsigur á heimavelli, 28:18, en liðin skildu jöfn, 30:30, á Íslandi. Ísland hefur því náð góðum úrslitum í tveimur leikjum af fjórum gegn Slóveníu á undanförnum árum. Að sama skapi hefur Ísland fengið tvo skelli á erfiðum útivelli í Slóveníu. Hvað gerist þá á hlutlausum velli?

Íslenska teymið hefur lagt mikið kapp á að leikmenn íslenska liðsins hugsi um eigin leik, frekar en að einbeita sér of mikið að andstæðingnum.

Þarf að stöðva Gros

Þegar ofanritaður ræddi við leikmenn um slóvenska liðið í gær voru svörin svipuð; að íslenska liðið væri að einbeita sér að eigin leik. Þó nefndu allir viðmælendur einn leikmann í slóvenska liðinu sem þyrfti að hafa gætur á. Leikmaðurinn sem um ræðir er Ana Gros, ein besta hægri skytta Evrópu.

Gros leikur með ungverska stórliðinu Györ og þangað komast leikmenn ekki nema þeir séu í allra fremstu röð. Gros hefur tvisvar leikið úrslitaleik Meistaradeildarinnar, tvisvar orðið markahæst í gríðarlega sterkri efstu deild Frakklands og einu sinni verið valin í úrvalslið Meistaradeildar Evrópu. Þá hefur hún fjórum sinnum orðið Frakklandsmeistari og mætti lengi halda áfram.

Þá er Tjasa Stanko gríðarlega sterkur miðjumaður, sem var m.a. valin besti ungi leikmaður Meistaradeildar Evrópu árið 2018. Tamara Mavsar er svo stórhættulegur hægri hornamaður, sem lék úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2017.

Afrek leikmanna Slóveníu á Evrópusviðinu eru því töluverð, á meðan stór hluti íslenska liðsins leikur enn heima og tvær af þeim í 1. deildinni. Það þarf því allt að ganga upp til að ungt og óreynt íslenskt lið nái í góð úrslit gegn mjög sterkum andstæðingi.

Ætla bara að vinna þær

Það er hins vegar hugur í íslenska liðinu og eins og línukonan og reynsluboltinn Hildigunnur Einarsdóttir komst svo skemmtilega að orði í samtali við Morgunblaðið í gær: „Mér er alveg sama þótt ég viti ekki mikið um þær, ég ætla bara að vinna þær.“

Með það hugarfar að vopni er ýmislegt hægt og íslenska liðið ætlar að selja sig dýrt. Það getur reynst Íslandi vel að pressan er öll á Slóveníu. Það átti heldur enginn von á að Ísland myndi vinna Svartfjallaland í fyrsta leik á HM 2011.

Þá hefur íslenska liðið tekið framförum og átti góða kafla gegn sterkum þjóðum á alþjóðlega Posten Cup-mótinu í aðdraganda heimsmeistaramótsins. Nái íslenska liðið að laga það sem betur mátti fara á því móti og byggja á því jákvæða er hægt að vinna slóvenska liðið. Sandra Erlingsdóttir þarf að eiga stórleik, markverðirnir að verja vel, hornamennirnir að nýta færin sín, vörnin að vera upp á sitt allra besta og þá þarf að fækka mistökum í sókninni. Allt eru þetta hlutir sem geta gengið upp á góðum degi.

Skrítnari hlutir hafa svo sannarlega gerst.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson