Jón Sigurðsson
Í tilefni af því að Hjartaheill sýnir merkið í fyrsta sinn opinberlega í þessari útgáfu þá var ekki úr vegi að spjalla við höfund þess hjá ENNEMM.
Fyrir lífið og framtíðina
„Hjartað er auðvitað mjög kraftmikið tákn en býður um leið hættunni heim að falla ofan í ákveðnar klisjugryfjur“, segir Hjörvar Harðarson, hönnuður á auglýsingastofunni ENNEMM, en hann er maðurinn á bak við nýtt merki Hjartaheilla. Merkið leysir af hólmi rauða hjartað og mun þannig skapa Hjartaheillum meiri sérstöðu í öllu sínu starfi, en borið hefur á ruglingi við félög og fyrirtæki í svipaðri starfsemi þar sem eldrauð hjartatákn eru í forgrunni.
„Hjartað táknar kærleika og ást en hjartað er líka mikilvægur vöðvi sem skapar sjálfan taktinn í tilverunni ef svo má segja. Allt starf Hjartaheilla miðast að því að varðveita þennan lífstakt. Það gerir félagið með því að umvefja hjartasjúklinga og aðstandendur þeirra annars vegar og hins vegar sinna öflugum forvörnum til að minnka líkur á alvarlegum hjartasjúkdómum hjá áhættuhópum. Það sem gerist þegar þú snýrð hjartanu um 90°, eins og í nýja merkinu, þá myndast ör sem vísar til hægri, inn í framtíðina sem rímar svolítið vel við þetta hlutverk Hjartaheilla: Fórnfúst og mikilvægt starf fyrir lífið og framtíðina,“ segir Hjörvar.
Merkið sjálft, litir þess, letur og önnur grafík mynda sterka og lifandi heild. Hér er notuð stílhrein og afgerandi leturgerð sem þó sýnir ávalar línur og gefur ákveðna mýkt og vinalegan blæ.
„Ég vona að nýja merkið muni þjóna þessu mikilvæga félagi vel og það var gaman að fá þetta tækifæri til að hanna aðeins með hjartanu,“ bætir Hjörvar við í lokin og kímir.