Kristín E. Hólmgeirsdóttir er sérfræðingur í hjartasjúkraþjálfun.
Kristín E. Hólmgeirsdóttir er sérfræðingur í hjartasjúkraþjálfun. — Morgunblaðið/Eyþór Árnason
Einstaklingarnir sem koma í þjálfun á HL stöðina hafa ólíkar þarfir enda eru það eftirlit og eftirfylgni sem einkenna starfið.

Arna Sigrún Haraldsdóttir

K ristín E. Hólmgeirsdóttir er sérfræðingur í hjartasjúkraþjálfun og hefur unnið á HL stöðinni í tæp 30 ár. „Mitt starf felst aðallega í að vera með þá hópa sem eru í grunnendurhæfingu, þ.e. eru að byrja í þjálfun eftir veikindi eða inngrip tengt hjarta eða lungum en auk þess tek ég stundum þolpróf með læknum stöðvarinnar eða er með framhaldshópa í þjálfun. Áhugi minn á hjartaendurhæfingu hefur fylgt mér frá útskrift og ég starfaði um 20 ár á hjartasviði Landspítalans. Vorið 2019 lauk ég meistaraprófi frá Háskóla Íslands og gerði þá rannsókn á áhrifum hjartaendurhæfingar á líkamlega afkastagetu einstaklinga með hjartabilun sem höfðu verið í þjálfun á HL stöðinni á árunum 2010-2018. Rannsóknin kom vel út og sýndi ótvíræðan árangur. Áhugi minn á að sinna þessum hópi einstaklinga varð enn meiri eftir meistaranámið. Um síðastliðin áramót hætti ég á Landspítalanum eftir rúm 28 ár og hóf störf á Reykjalundi á hjartasviði sem er skemmtileg tilbreyting en sjúklingahópurinn er engu að síður sá sami. Á HL stöðinni ríkir sérstakur andi sem gerir starfið skemmtilegt og gefandi. Bæði skjólstæðingar og starfsfólk eru létt í lund og gleði ríkir þar sem gerir það eflaust að verkum að fólk er þar árum saman og bæði samstarfsfólk mitt og iðkendur hafa sum hver verið þar lengur en ég, þrátt fyrir mín 30 ár þar.“

Spurð um bataferli sjúklinga eftir hjarta- eða lungnaaðgerðir segir Kristín að mikilvægt sé að byggja upp þol og þrek. „Æskilegt er að gera það markvisst og mikilvægt er að byrja skynsamlega og byggja þrek upp jafnt og þétt. Það getur reynst fólki erfitt að finna hvað er hæfilegt álag, sumir halda að ekkert sé nóg meðan aðrir hafa áhyggjur af að gera of mikið og eru því alltaf að hlífa sér. Rannsóknir bæði hérlendis og erlendis hafa sýnt góðan árangur hjarta- og lungnaendurhæfingar og þar kemur HL stöðin sterkt inn. Mikilvægt er einnig að fólk haldi þjálfun áfram eftir að grunnendurhæfingu lýkur og það að hafa möguleika á að þjálfa áfram á stöðinni er bæði skemmtilegt og árangursríkt og hentar mörgum.“

Markvisst eftirlit

Þjónustan á HL stöðinni er margþætt og einstaklingar sem koma þangað í þjálfun hafa ólíkar þarfir. Það sem einkennir starfið er eftirlit og eftirfylgni. „Einstaklingar sem hafa nýlega farið í inngrip tengd hjarta eins og hjartaaðgerðir eða kransæðavíkkanir sem dæmi koma í grunnhjartaendurhæfingu sem stendur yfir í átta vikur að meðaltali, þar sem þjálfað er þrisvar í viku í klukkutíma í senn. Einnig fara einstaklingar í grunnþjálfun í kjölfar nýgreindra hjartasjúkdóma þó ekki hafi verið gerðar aðgerðir á hjarta þeirra. Þjálfunin byggist á þol- og styrktarþjálfun auk þess sem vöðvateygjur eru gerðar í hverjum tíma. Jafnvægisæfingar og liðkandi æfingar eru einnig gerðar markvisst á tímabilinu, sérstaklega þegar einstaklingar hafa þörf fyrir það. Fylgst er markvisst með blóðþrýstingi, hjartsláttarhraða, hjartalínuriti, súrefnismettun og líðan einstaklings í hverjum þjálfunartíma. Þjálfunaráætlunin er einstaklingsmiðuð og tekur mið af undirliggjandi sjúkdómum einstaklings og hámarksþolprófi sem tekið er við upphaf þjálfunartímabils af lækni og sjúkraþjálfara HL stöðvarinnar. Við lok þjálfunartímabils er hámarksþolpróf endurtekið og það gefur upplýsingar um hvernig þjálfunin hefur nýst einstaklingnum og hvernig ráðlagt sé að hann þjálfi áfram. Margir velja að þjálfa áfram á HL stöðinni í framhaldshópum sem eru valdir út frá niðurstöðum þolprófsins þannig að hópurinn sé hæfilega erfiður fyrir viðkomandi skjólstæðing. Aðrir kjósa að þjálfa á eigin vegum og fá ráðleggingar varðandi það.“

Sjúkraþjálfarar stjórna álaginu

„Komi upp vandamál er fundin lausn á því, ýmist í samráði við starfandi lækna HL stöðvarinnar eða sérfræðing viðkomandi skjólstæðings þegar þess er þörf. Skjólstæðingarnir eru á mismunandi aldri og með mismunandi þarfir sem komið er til móts við með fjölbreyttu æfingarvali og mismunandi þjálfunarformum sem byggjast á getu hvers og eins.“

Höf.: Arna Sigrún Haraldsdóttir