Breiðablik freistar þess í dag að ná í sín fyrstu stig í riðlakeppni Sambandsdeildar karla í fótbolta en viðureign Breiðabliks og Maccabi Tel Aviv frá Ísrael hefst á Kópavogsvelli klukkan 13.
Leikurinn var færður þangað vegna vallarskilyrða á Laugardalsvelli en ljóst var að völlurinn yrði frosinn í kvöld þrátt fyrir hitapylsuna sem hefur verið notuð allan þennan mánuð til að reyna að halda honum leikfærum.
Þetta er fimmtándi Evrópuleikur Breiðabliks frá því í lok júní og jafnframt síðasti heimaleikurinn. Blikar mæta úkraínska liðinu Zorya í lokaleiknum í Lubin í Póllandi 14. desember.
Robbie Keane, þjálfari Maccabi, sagði á fréttamannafundi á Kópavogsvelli í gær að vissulega stæði Breiðablik betur að vígi á gervigrasinu en það yrði ekki notað sem afsökun fyrir slæmum leik.
Maccabi nægir eitt stig úr tveimur síðustu leikjum sínum til að fylgja Gent áfram úr riðlinum. Gent er með 10 stig, Maccabi 9, Zorya Luhansk 4 og Breiðablik ekkert.
Blikar töpuðu fyrri leiknum í Ísrael naumlega í haust, 3:2, þar sem Klæmint Olsen skoraði tvisvar fyrir Breiðablik eftir að Maccabi komst í 3:0 í fyrri hálfleik. Klæmint er ekki með í dag, hann er farinn heim til Færeyja eftir lánsdvölina í Kópavogi, en Blikar eru að öðru leyti með sitt sterkasta lið.
Lið Maccabi hefur æft og spilað í Serbíu undanfarnar vikur vegna stríðsástandsins í Ísrael og Palestínu en liðið hefur ekki spilað deildaleik frá 30. september þar sem öll keppni liggur niðri í Ísrael. Maccabi vann Zorya, 3:2, í Belgrad síðasta laugardag en leiknum hafði áður verið frestað vegna stríðsins.