Svala Sigurðardóttir
Svala Sigurðardóttir
Mikilvægt er að koma jákvæðri sálfræði inn í heilbrigðiskerfið því hún á vel við heilsueflingu og fyrirbyggjandi læknisfræði.

Svala Sigurðardóttir

Heilbrigður lífsstíll skiptir öllu máli, auðvitað erum við með ákveðin gen sem erfitt er að breyta, þó er það hægt, því lífsstíll getur haft áhrif á erfðaefni okkar – bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt.

Eftirfarandi þættir er vitað að hafi áhrif á hjartaheilsu og er vert að huga að þeim.

Svefninn undirstaða alls

Ef við sofum ekki nógu mikið, þá verðum við oft stressaðri og geðheilsu getur hrakað. Við náum ekki utan um allt sem við ætluðum okkur og höfum áhyggjur og sofum þá enn verr, borðum óhollara og lendum í vítahring. Ónógur svefn og stress getur valdið langvarandi of háu stresshormóni (kortisóli) í blóðrásarkerfinu. Kortisól er okkur nauðsynlegt, örvar m.a. losun sykurs (glúkósa) út í blóðrásina sem vöðvar okkar nýta sem orku. Insúlín er hormón sem flytur vöðvafrumunum sykur úr blóðrásinni og nýtist þeim sem orka. En ef við erum stanslaust með of hátt kortisól, þá getum við þróað með okkur insúlínviðnám og áunna sykursýki, og það er ALLS ekki gott fyrir hjarta og æðakerfið.

Hrein fæða

Reyndu að borða fæðu sem er eins nálægt náttúrunni og hægt er. Forðast ber unnar vörur, sérstaklega gjörunnar vörur eins og skyndibita, snakk, sælgæti, sykraða drykki, djúsa og þess háttar. Svona fæða er bæði fitandi, oft of sölt og sykruð og getur valdið háum blóðþrýstingi, blóðsykri og bólguumhverfi í blóðrásinni. Hún eykur þ.a.l. líkur á æðakölkun og skellumyndun, og þá jafnvel hjartaáfalli, heilablóðfalli og fleiri æðasjúkdómum sem eyðileggja okkar innri líffæri.

Passaðu að borða ekki of mikið af kolvetnum en nóg prótein og góða fitu. Haltu þig við grænmeti og ávexti sem eru ekki með of háan ávaxtasykur og ekki gleyma trefjunum – helst byrja hverja máltíð á trefjaríkum bita, þá hækkar blóðsykurinn ekki eins bratt!

Hreyfing daglega

Hreyfing er algerlega lífsnauðsynleg út lífið til að okkur líði betur andlega og líkamlega. Vöðvar eru einnig mikilvægir í blóðsykursstjórnun – eitt mikilvægasta innkirtlalíffærið mætti segja. Gott er að hreyfa sig eftir máltíð, til að lækka blóðsykurinn, en passa að hreyfa sig ekki seinna en tveimur tímum fyrir svefn. Best er að hreyfa sig daglega, helst úti í náttúrunni með félaga, þá fær maður enn meira út úr því.

Bjartsýni og núvitund

Núvitund, sjálfsmildi, bjartsýni og það að hafa tilgang hefur allt sýnt sig að hafa góð áhrif á hjartaheilsu. Amerísku hjartalæknasamtökin mæla meira að segja með því að fólk stundi núvitundarhugleiðslu, fókusi á styrkleika sína og þjálfi með sér seiglu og bjartsýni. Núvitundarhugleiðsla getur minnkað þunglyndis-, kvíða- og stresseinkenni, sem er gott fyrir hjartaheilsuna.

Reykingar

Reykingar hafa mjög skaðleg áhrif á hjarta og æðakerfið og kalka og skemmast æðar alls staðar í kroppnum miklu fyrr en ella. Reykingar valda auknu bólguumhverfi í blóðrásarkerfinu og mörgum hættulegum sjúkdómum eins og háum blóðþrýstingi, krabbameini og heilablóðfalli.

Streitustjórnun

Streita er mjög breitt hugtak en hvernig fólk upplifir streitu skiptir máli. Akút streita verður t.d. eftir áfall og það getur dregið dilk á eftir sér að hlúa ekki að sér eftir að hafa lent í áfalli. Krónísk streita er heilsuspillandi líka og getur verið margs konar. Að hafa mikið að gera þó maður upplifi ekki streitu, vera með stórt heimili, í ábyrgðarstöðu, virkt félagslíf og ná samt frístundum er stressandi, en það er eins og sumir fari léttar með þetta en aðrir.

Þetta er mjög einstaklingsbundið, en maður þarf að
passa sig og staldra við og hlusta á kroppinn því hann
lýgur ekki.

Hár blóðþrýstingur

Veldur stærstum hluta hjartasjúkdóma og allt ofangreint getur haft áhrif á blóðþrýstinginn sem og bólgur í æðakerfinu, sem aftur auka æðakölkun og skellumyndun í æðum og þannig líkur á hjartasjúkdómum og blóðtöppum.

Umhverfi og mengun hafa líka áhrif á hjartasjúkdóma og erum við að verða meira meðvituð um það.

Styrkleikar

Nálgun jákvæðrar sálfræði á einkar vel við í heilsueflingu, því hún felur í sér að skoða styrkleika manneskjunnar, ekki bara hvað „er að“ fólki eins og læknisfræðin fókuserar aðallega á. Að benda skjólstæðingum á hvað veldur heilbrigði og á styrkleika þeirra og hvernig hægt er að hafa góð áhrif á heilsuna er klárlega eitthvað sem við heilbrigðisstarfsfólk þurfum að vera betri í – sérstaklega þegar hvatt er til lífsstílsbreytinga. Lyflækningar eru einfaldlega of takmörkuð meðferðarnálgun að mínu mati, þó að lyf eigi að sjálfsögðu rétt á sér sem meðferð samhliða lífsstílsbreytingum.

Svala Sigurðardóttir er hluti af hópi lækna sem eru að stofna íslensk lífsstílslæknasamtök sambærileg þeim bresku – Icelandic lifestyle medicine association (ILMA) og stefnir á að fræða heilbrigðisstarfsfólk um gagnreyndar lífsstílslækninganálganir.

Höfundur er sérnámslæknir í heimilislækningum og doktorsnemi í lýðheilsuvísindum og rannsakar m.a. áhrif núvitundarmeðferðar á þunglyndis- og kvíðaeinkenni fyrir skjólstæðinga í heilsugæslu.

Höf.: Svala Sigurðardóttir