Huginn Nótaskipið Huginn VE festi akkerið í innsiglingunni í Vestmannaeyjahöfn, sem olli skemmdum á vatnslögn og ljósleiðari slitnaði.
Huginn Nótaskipið Huginn VE festi akkerið í innsiglingunni í Vestmannaeyjahöfn, sem olli skemmdum á vatnslögn og ljósleiðari slitnaði. — Morgunblaðið/Óskar Pétur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Unnið er að því að leita leiða til þess að tryggja eins og kostur er að neysluvatns megi afla fyrir Vestmannaeyjar á meðan ekki hefur verið gert við neysluvatnslögnina sem skemmdist á dögunum

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Unnið er að því að leita leiða til þess að tryggja eins og kostur er að neysluvatns megi afla fyrir Vestmannaeyjar á meðan ekki hefur verið gert við neysluvatnslögnina sem skemmdist á dögunum. Þar á meðal er verið að skoða flutning vatns með tankskipi eða tankbílum, en einnig er til skoðunar að útvega tækjabúnað til þess að skilja sjó til neysluvatns fyrir Eyjarnar. Það er þekkt aðferð og notuð víða erlendis. Þetta segir Karl Gauti Hjaltason lögreglustjóri í Vestmannaeyjum í samtali við Morgunblaðið.

Vatn síað úr sjó

Segir hann að vatn sé síað úr sjó með tilteknum aðferðum og salt og óhreinindi skilin frá þannig að vatnið verði hæft til neyslu. Segir Karl Gauti að ljóst sé að ekki þurfi að bíða lengi eftir slíkum búnaði, komi til þess að ákveðið verði að fara þá leið. Einnig segir hann að unnið sé að því að styrkja vatnsleiðsluna, þannig að hún hreyfist síður til í sjógangi og líkur þannig minnkaðar á að hún rofni. Að sama skapi hefur verið dregið úr þrýstingi í leiðslunni.

Segir hann að mestu skipti að tryggja vatn til húshitunar, en einnig neysluvatn til íbúa og atvinnulífs.

Þrír ljósleiðarastrengir liggja til Vestmannaeyja

Þá er unnið er að því að koma upp varasambandi um ljósleiðara til Vestmannaeyja í stað þess sem slitnaði þegar akkeri Hugins VE 55 dróst eftir botni innsiglingarinnar í Vestmannaeyjahöfn og skemmdi þar einu vatnslögnina til Eyja.

Þrír ljósleiðarastrengir liggja til Vestmannaeyja og er einn þeirra í eigu Ljósleiðarans, annar í eigu Mílu og sá þriðji er eign Landsvirkjunar og Orkufjarskipta, en sá strengur kemur annars staðar á land í Eyjum en hinir tveir. Strengurinn sem slitnaði er í eigu Ljósleiðarans.

Í samtali við Morgunblaðið segir Helgi Már Isaksen rekstrarstjóri Ljósleiðarans að á milli Ljósleiðarans og Mílu sé samkomulag um að hvort fyrirtæki sé með tvo ljósleiðarþræði í ljósleiðastreng hins og er tilgangurinn sá að reyna að tryggja öryggi eins og kostur er þegar rof verður á sambandi annars hvors strengjanna. Þannig færðust færðust öll fjarskipti sem um strenginn fóru yfir á hinn, þegar Huginn sleit strenginn.

Full fjarskiptaþjónusta komin á í Eyjum

„Það er ekki endilega sama gagnamagn sem þar fer um, enda hugsað sem varasamband. Þannig getur orðið smávægileg töf á þjónustu, en hún varð mjög lítil í þessu tilviki,“ segir Helgi Már og nefnir að strax daginn eftir óhappið hafi verið komin á full fjarskiptaþjónusta í Vestmannaeyjum.

Hann segir að unnið sé að því að koma upp nýju varasambandi í gegnum ljósleiðarastreng Landsvirkjunar og Orkufjarskipta til að tryggja eins og kostur er að ekki verði rof á sambandi komi eitthvað fyrir streng Mílu. Unnið sé að því að kanna möguleika á því að endurnýja hinn slitna streng, en skipta þurfi um hann á kafla.

„Það er töluverð vinna eftir,“ segir Helgi Már og nefnir að unnið sé að þessu verkefni í samstarfi við almannavarnir, Vestmannaeyjabæ og aðra hlutaðeigandi.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson