Í Stafangri
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mátti þola tap, 30:24, í fyrsta leik liðsins í D-riðli á heimsmeistaramóti kvenna í handbolta í Stafangri í Noregi í gær.
Var leikurinn sá fyrsti hjá Íslandi á lokamóti HM í tólf ár og sá fyrsti á stórmóti í ellefu ár.
Slæm byrjun gerði það að verkum að Slóvenía komst snemma sjö mörkum yfir, 11:4. Arnar Pétursson tók þá leikhlé og náði að stilla strengi. Elín Jóna Þorsteinsdóttir kom inn í markið, varði mjög vel og Elín Rósa Magnúsdóttir kom með mikinn kraft í sóknina sömuleiðis.
Með glæsilegum seinni hluta fyrri hálfleiks náði íslenska liðið að minnka muninn í þrjú mörk og voru hálfleikstölur 16:13.
Með góðum kafla náði Ísland að minnka muninn í eitt mark, 20:19, en náði ekki að jafna. Slóvenar komust í staðinn í 24:20.
Ísland minnkaði muninn í 24:22, þegar skammt var til leiksloka. Þá svaraði Slóvenía aftur með þremur mörkum og var íslenska liðið ekki líklegt til að jafna eftir það.