Ævintýralegt Hanna Ágústa Olgeirsdóttir sem Óli lokbrá, en Jóna og Kristín Sveinsdóttir sem Gréta og Hans.
Ævintýralegt Hanna Ágústa Olgeirsdóttir sem Óli lokbrá, en Jóna og Kristín Sveinsdóttir sem Gréta og Hans. — Ljósmynd/Michael Smith
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þessi hugmynd kom upp á síðasta ári, að setja upp barnaóperu því að okkur fannst skorta framboð á óperusýningum fyrir yngstu kynslóðina. Krakkarnir þekkja það kannski flestir að fara í leikhús en mun færri hafa kynnst töfrum óperunnar og þess …

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

„Þessi hugmynd kom upp á síðasta ári, að setja upp barnaóperu því að okkur fannst skorta framboð á óperusýningum fyrir yngstu kynslóðina. Krakkarnir þekkja það kannski flestir að fara í leikhús en mun færri hafa kynnst töfrum óperunnar og þess vegna varð þetta verk fyrir valinu enda einhver frægasta ævintýra-ópera tónlistarsögunnar,“ segir Jóna G. Kolbrúnardóttir sópransöngkona og einn stofnenda hópsins Kammeróperunnar sem á morgun frumsýnir í Tjarnarbíói Hans og Grétu eftir Engilbert Humperdinck við íslenskan texta Bjarna Thors Kristinssonar.

Heimildir herma að óperan Hans og Gréta hafi verið samin undir lok 19. aldar að undirlagi systur Humperdincks sem hafði smíðað söngtexta við Grimmsævintýrið börnum sínum til skemmtunar. Óperan var frumflutt 23. desember 1893 í borginni Weimar í Þýskalandi en á tónsprotanum hélt sjálfur Richard Strauss. Allar götur síðan hefur hún verið tengd jólahátíðinni enda rímar eitt og annað í sögunni við jólin. Til dæmis piparkökuhúsið sem nornin býr í.

Til gamans má geta að óperan var endurflutt tæpu ári síðar í Hamborg og þá undir stjórn Gustavs Mahler.

„Við sem stofnuðum Kammeróperuna lærðum öll í Vínarborg og þar er þessi ópera fastur liður á hverju ári í aðdraganda jóla og það er okkar draumur að þessi hefð komist á hér líka því nú er þetta tilbúin sýning með uppfærðum söngtexta og þess vegna frekar auðvelt að taka hana upp úr kassanum aftur svo fleiri fái tækifæri til að njóta hennar.“

Tónlistarflutningur í Tjarnabíói verður í höndum kammersveitar sem er sett saman af píanói, sellói, víólu, klarínetti, bassaklarínetti og horni og verður sveitin á sviðinu. „Það er auðvitað ekki gryfja í Tjarnarbíói en hljóðfæraleikararnir hafa komið sér vel fyrir aftast á sviðinu sem kemur bara mjög vel út á æfingum finnst okkur. Það er líka gaman að krakkarnir fái að sjá hljóðfæraleikarana og átti sig á því hvernig undirleikurinn er skapaður,“ segir Jóna endi leggi þau töluvert upp úr fræðslugildi sýningarinnar.

„Við fórum til að mynda í skólaheimsóknir þar sem við sungum senur úr sýningunni og fræddum krakkana um óperuformið og kórsöng. Reyndar settu veikindi stórt strik í reikninginn. Okkur tókst bara að hitta þrjá bekki í einum skóla af fjórum en við ætlum að reyna að bæta þeim þetta upp í desember.“

Umhverfisvæn sýning

Uppfærsla Kammeróperunnar hlaut veglega styrki frá Sviðslistasjóði og Launasjóði sviðslistafólks til uppsetningar á verkinu, eða alls 13,6 milljónir króna. Jóna segir að það hafi haft gríðarmikla þýðingu. „Við vorum svo þakklát og þetta gaf okkur aukakraft og fyllti okkur metnaði. Svona styrkir eru algjörlega nauðsynlegir svo hægt sé að koma svona sýningu á svið. Það sem er áhugavert við óperusýningar er að þar koma mörg listform saman og mjög margir listamenn og fagfólk stendur að hverri uppfærslu. En að sama skapi er þetta frekar dýrt í framkvæmd.“ Jóna segir að þau hafi þess vegna horft í hverja krónu og hugsað hlutina hagkvæmt en ekki síður á umhverfisvænan hátt. „Eva Björg Harðardóttir sér um búningana og leikmynd og henni er að takast að endurnýta nánast allt sem sést á sviðinu.“

Um leikstjórn sér svo Guðmundur Felixson sem flestir þekkja úr Kanarí og Improv Íslandi. „Hann er að leikstýra sinni fyrstu óperusýningu en er samt ekki ókunnur óperunni því að hann vann víst hér áður fyrr sem ljósamaður í Gamla bíói þar sem ófáar óperusýningarnar voru settar á svið. En okkur finnst líka skemmtilegt að vinna með einhverjum sem er að gera þetta í fyrsta skipti því að hann kemur með ferska sýn á hlutina og er ekki fastur í viðjum vanans. Svo er hann líka ofsalega klár og skilur vel hvað höfðar til barna,“ segir Jóna að lokum.

Sýningar á Hans og Grétu verða aðeins fjórar, þ.e. laugardagana 2. og 9. desember kl. 13 og 16 báða daga. Miðar fást á tix.is.

Höf.: Höskuldur Ólafsson