Ljóðskáld Aðalheiður Halldórsdóttir segist geta týnt sér í skrifunum og dottið í flæði eins og þegar hún dansar.
Ljóðskáld Aðalheiður Halldórsdóttir segist geta týnt sér í skrifunum og dottið í flæði eins og þegar hún dansar. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
„Ég nýt þess mjög að skrifa og hef gert lengi og er auk þess búin að sitja í bókmenntafræði og ritlist á BA-stigi. Svo fór ég að sjá tengingar á milli textanna minna og prófaði að vinna þá saman svo úr varð bók sem ég svo lagði feimnislega á…

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Ég nýt þess mjög að skrifa og hef gert lengi og er auk þess búin að sitja í bókmenntafræði og ritlist á BA-stigi. Svo fór ég að sjá tengingar á milli textanna minna og prófaði að vinna þá saman svo úr varð bók sem ég svo lagði feimnislega á borðið hjá Bjarti og svo hljóp ég eiginlega í burtu og faldi mig,“ segir Aðalheiður Halldórsdóttir þegar hún er spurð um tildrögin að útgáfu hennar fyrstu ljóðabókar Taugatrjágróðurs.

„Ég hætti sem dansari í Íslenska dansflokknum sem var svona mitt skjól og útrás og næring og sköpunarkrafturinn finnur sér þá bara einhvern annan farveg. Ég elska að koma fram og vinna í leikhúsinu og í dansinum en ég finn líka eitthvað í skrifunum þar sem ég get týnt mér og dottið í eitthvert algjört flæði. Þetta kemur örugglega allt frá sama staðnum, þetta er vissulega ólík tækni en það eru einhver sameiginleg lögmál undir þessu öllu saman,“ segir hún.

„Dansinn er auðvitað það sem hefur mótað mig. Mér finnst stundum það að skrifa eða búa til dans vera eins og að búa til tónlist. Þar eru einhver sameiginleg lögmál, einhver tilfinning fyrir tímasetningum, hvar þarf að byggja undir, hvar þarf að klippa aftan af því hendingin eða dansfrasinn eða setningin er of löng. Þetta er einhver dýnamík sem ég held að sé sameiginleg milli listforma. Þetta lítur alla vega um það bil svona út fyrir mér á þessum tímapunkti.“

Spurð hvernig hugmyndin að verkinu hafi orðið til svarar Aðalheiður: „Ef ég á að vera alveg heiðarleg þá vinn ég eins mikið og ég get þannig að ég ákveð ekkert fyrir fram, ég sest ekki niður og hugsa eitthvert ákveðið plott. Ég reyni eins og ég get að sneiða fram hjá því heilahveli. Ég skrifa spunatexta, eins hreint upp úr mér og ég get og geri það með alls konar brögðum. Mikið af þessum textum varð til þar sem ég sat og hugleiddi, fór síðan út á gólf og dansaði í 20 mínútur og skrifaði síðan í 20 mínútur. Úr urðu alls konar textar. Ég verð mest skotin í því sem kemur þá leiðina upp úr mér. Svo byrjar handavinnan og maður fer að vinna úr efninu og allt í einu verða til einhverjir þræðir sem maður svo reynir að draga fram og styrkja. Hún fæðist einhvern veginn þannig.“

Aðalheiður vill ekki gefa upp of mikið um innihald verksins. „Ég er alveg með mína þræði en ég vil oft sjálf, þegar ég fer í leikhús eða les bók, vita sem minnst og fá að mæta verkinu í friði fyrir einhverjum meiningum. Mig langar að leyfa þessari bók að vera þannig, gefa lesandanum rými til að mæta þessu bara eins og hann mætir því.“

Titillinn Taugatrjágróður gefur þó ákveðna vísbendingu. „Þetta er vissulega mikið á því sviðinu, einhver næmni, tilfinningar og taugakerfið í manneskjunni. Mitt er ansi næmt eða viðkvæmt og á einhverjum stað inni í mér langar mig að vera talsmaður þess að það megi. Vegna þess að því í manneskjunni eru oft gefin einhver neikvæð nöfn, tilfinningasemi eða viðkvæmni, kallað „óttalegt væl“ jafnvel. En mér finnst þetta vera ofurkraftur í manneskjunni, í okkur öllum. Kannski það eina sem getur bjargað þessu öllu saman. Svo ég er sjálfskipaður leynilegur talsmaður næmninnar,“ segir hún.

„Ég er ekki nógu mikið í Dale-Carnegie-stefnumótun. Ég er meiri flæðispési og er svolítið í því að elta forvitnina,“ segir Aðalheiður þegar hún er spurð hvort hún stefni á að gefa út fleiri bækur. „Ég nýt þess að skrifa og ef ég verð skotin í einhverju þá fer ég að vinna það áfram og þá kannski gerist eitthvað meira.“

Aðalheiður er sjálfstætt starfandi í sviðslistaheiminum og kemur að ýmsum verkefnum tengdum dansi, leikhúsi og tónleikahaldi. „Svo er ég líka bara í bókmenntafræði í Háskólanum, er skólastelpa og ég elska það. Ég hef unnið svo lengi í listum, hef ekki gert annað í 25 ár, en við að fara inn í bókmenntafræðina sá ég allt í nýju ljósi í gegnum ólík tímabil í bókmenntasögunni. Mér finnst það stórkostlega skemmtilegt.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir