Ævintýraheimur Kort yfir Renóru, landið sem barist er um í bók Kristínar Bjargar Sigurvinsdóttur, Orrustan um Renóru. Það er lokaverkið í þríleik.
Ævintýraheimur Kort yfir Renóru, landið sem barist er um í bók Kristínar Bjargar Sigurvinsdóttur, Orrustan um Renóru. Það er lokaverkið í þríleik. — Teikning/Sigmundur Breiðfjörð
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hæfilega spennandi Lending ★★★½· eftir Hjalta Halldórsson. Bókabeitan, 2023. Innb., 168 bls. Hjalti Halldórsson er afkastamikill bókasmiður sem skrifað hefur fyrir börn og unglinga og iðulega notað minni úr íslenskum fornsögum í bókum sínum með góðum árangri

Hæfilega spennandi

Lending ★★★½·

eftir Hjalta Halldórsson.

Bókabeitan, 2023. Innb., 168 bls.

Hjalti Halldórsson er afkastamikill bókasmiður sem skrifað hefur fyrir börn og unglinga og iðulega notað minni úr íslenskum fornsögum í bókum sínum með góðum árangri. Í bókum fyrir ungmenni fjallar hann iðulega um ýmis vandamál sem þau þurfa að glíma við og nægir að benda á framúrskarandi bók hans Eldinn, sem kom út á þarsíðasta ári.

Í Lendingu segir frá Kareem, sem kemur til Ísafjarðar með fjölskyldu sinni, en þau hafa flúið stríðsátök fyrir botni Miðjarðarhafs og fengið hæli á Íslandi. Á Ísafirði kynnist Kareem jafnöldrum sínum, sem taka misjafnlega vel á móti honum. Eitt barnanna, Toggi, býr við ömurlegar heimilisaðstæður sem birtist í því hvernig hann reynir að gera Kareem slíka skráveifu að hann hrökklist aftur til síns heima, en allt fer vel að lokum.

Það eru ekki mikil átök í Lendingu, persónur eru full eintóna og atburðarásin fyrirsjáanleg. Að því sögðu þá er þetta um margt vel heppnuð og hæfilega spennandi bók.

Ekki fyrir viðkvæma

VeikindaDagur ★★★★·

eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur. Myndhöfundur Sigmundur B. Þorgeirsson.

Bókabeitan, 2023. Innb., 116 bls.

Þetta er ekki bók fyrir viðkvæma eins og lesa má á kápu hennar þar sem sagt er frá Degi sem vaknar með botnlausa matarlyst, dynjandi höfuðverk og minnisgloppur: „Hvað varð eiginlega um Breka?“ og „af hverju er auga í klósettinu?“ Svar við þessum spurningum er að finna í bókinni og fleiri spurningum til. Í sem skemmstu máli þá er hér komin hressileg hrollvekja, sannkölluð „splatter“-saga þar sem ógeðið er skrúfað í botn, og svo aðeins lengra.

Dagur er skotinn í Ylfu, svo skotinn að það kemst ekkert annað að, nema þegar hann tekur ekki lyfin sín og verður sjúkur í mannakjöt, sem gerir skóladaginn óneitanlega snúinn. Að ekki sé nefnt hvað það verður flókið að fara í bíó þegar þrýstið vöðvatröll æsir upp í manni hungrið.

Þetta er hryllileg bók og bráðfyndin í senn, hryllileg ástarsaga, og myndir Sigmundar, sem nýttar eru til að fylla í eyðurnar í minni Dags, eru framúrskarandi skemmtilega skelfilegar.

Dulstafir

Orrustan um Renóru ★★★★·

eftir Kristínu Björgu Sigurvinsdóttur

Bókabeitan, 2023. Innb., 346 bls.

Orrustan um Renóru er þriðja og síðasta bókin sem segir frá baráttunni við gyðjuna illu Draxönu, sem hyggst leggja undir sig landið Renóru og hneppa alla íbúa þess í ánauð. Elísa, sem birtist sem sextán ára unglingsstúlka í fyrstu bókinni í röðinni, Dóttur hafsins, og félagar hennar, gæslumenn grunnefnanna, búa sig undir lokaglímuna við Draxönu, en þau fóru halloka fyrir henni í síðustu bók, Bronshörpunni.

Þetta er býsna mikil bók að vöxtum, enda þarf að hnýta saman marga þræði. Elísa og félagar þurfa að fara víða um Renóru til að safna saman töframunum sem veita munu þeim orku til að sigrast á Draxönu og hyski hennar, en líka til að sameina þær ólíku þjóðir sem byggja Renóru. Þar sem verndararnir eru ungir skortir ekki dramatík og átök í ástarflækjum, sem greiðist úr í lokin. Lokaorrustan er hádramatísk og æsileg og þá þarf að færa frekari fórnir.

Ævintýraheimurinn Renóra sem bækurnar gerast í er margslunginn og víðáttumikill og í honum felast eflaust fjölmargar fleiri sögur.

Bráðsnjöll hugmynd

Leyndardómar Draumaríkisins
★★★··

eftir Kamillu Kjerúlf.

Veröld, 2023. Innb., 227 bls.

Davíð er ellefu ára gamall dauflegur drengur sem fær svo slæmt höfuðhögg í körfuboltaleik að hann rotast um stund. Næstu nótt vaknar hann í Draumaríkinu og kynnist Sunnu, sem hefur að atvinnu að setja saman drauma fyrir fólkið í mannheimum. Fljótlega kemur í ljós að mikil hætta steðjar að Draumaríkinu, því að þeim sækja martraðarskrímsli sem spilla draumförum og ræna Draumlendingum.

Þessi bók Kamillu Kjerúlf, sem fékk barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur, byggist á fínni hugmynd og er ævintýraleg og nokkuð spennandi. Sá er hængurinn að Kamilla gerir fullmikið af því að lýsa umhverfi og aðstæðum í stað þess að treysta lesandanum og því höktir atburðarásin á köflum. Þannig eru lýsingar á Draumlendingum eintóna.

Það er þó nóg að gera í lokin og svo endar bókin með allt upp í loft – niðurlag í næstu bók!

Höf.: Árni Matthíasson