Úlfar Bjarki Hjaltason fæddist í Reykjavík 12. júlí 1969. Hann lést á heimili sínu 21. nóvember 2023.

Foreldrar Úlfars Bjarka voru hjónin Hjalti Sigurjón Guðmundsson frá Vesturhópshólum, f. 24.5. 1924, d. 21.1. 1992, og Margrét Böbs Guðmundsson frá Lübeck í Þýskalandi, f. 9.8. 1929, d. 12.2. 2004. Þau voru bændur á bænum Vesturhópshólum.

Systkini Úlfars Bjarka eru: 1) Lára Brynja, gift Kevin Cooke, búsett í Bandaríkjunum. Börn þeirra eru Alana Bryndís, Connor Christian og Brianna Bára. 2) Guðmundur Hinrik, giftur Elísabetu Kristbergsdóttur. Börn þeirra eru Hjalti Geir, Kristbjörg María og Ragna Margrét. 3) Margrét Bára, gift Sigurgeiri Tómassyni. Dætur þeirra eru Berglind, Erna Björk og Harpa Rut. 4) Ásta Emilía, gift Halldóri Teitssyni. Dætur þeirra eru Guðný og Helga Lára.

Úlfar Bjarki ólst upp á bænum Vesturhópshólum í Vestur-Húnavatnssýslu. Hann fluttist með móður sinni til Reykjavíkur eftir fráfall föður síns árið 1992. Þau mæðgin bjuggu sér heimili saman á Álagranda í Vesturbænum. Eftir að móðir hans féll frá árið 2004 flutti Úlfar Bjarki í Víðihlíð 9 í Reykjavík, þar sem hann undi sér vel fram til lokadags.

Úlfar Bjarki stundaði nám við Öskjuhlíðarskóla, Þorfinnsstaðaskóla og Varmahlíðarskóla, þar sem hann bjó á heimavist á Egilsá. Hann starfaði í þrjá áratugi á vinnustöðum Áss styrktarfélags, fyrst í Bjarkarási og síðar í Ási vinnustofu. Í gegnum árin sótti hann ýmis námskeið hjá Fjölmennt og lagði lengi vel stund á tónlistarnám hjá Tónstofu Valgerðar og leiklist með Perlufestinni. Úlfar Bjarki sótti vikulega guðsþjónustu í Dómkirkjunni, þar sem hann átti sitt fasta sæti við hlið Dómkórsins.

Útför Úlfars Bjarka verður gerð frá Dómkirkjunni í dag, 1. desember 2023, klukkan 13. Einnig verður boðið upp á að horfa á athöfnina í streymi í Oddfellowsalnum, Vonarstræti 10, þar sem gott aðgengi er fyrir hjólastóla.

Streymi:

http://mbl.is/go/yi4uv

Þá hefur Úlfar bróðir minn sungið sitt síðasta lag.

Ég var átta ára þegar Úlfar fæddist. Tilhlökkunin og eftirvæntingin fyrir litla systkininu hafði verið mikil. Við fæðingu hans tók líf okkar fjölskyldunnar töluverðum breytingum þar sem Úlfar var oft og tíðum mikið veikur og þurfti mikla umönnun. Bára systir okkar varð frá upphafi mamma númer tvö. Það flækti hlutina að búa í sveit, þar sem hvorki var iðju- eða sjúkraþjálfun að fá né aðra þjónustu fyrir fötluð börn. En þrátt fyrir ýmsar áskoranir var það ótrúleg blessun að fá Úlfar inn í líf okkar og átti þessi litli drengur heldur betur eftir að verða að merkum manni.

Úlfar var skírður á öðrum degi jóla árið 1969. Á jóladagskvöld var fjölskyldan enn að tala sig niður á nafn. Pabbi lagði til nafnið Úlfar, eftir manni sem hafði einu sinni komið á bæinn og var einstaklega elskulegur og skemmtilegur með sterka og góða nærveru. Nafnið Bjarki var í höfuðið á söngvara Hljómsveitar Ingimars Eydal, sem var mjög vinsæl á þeim tíma. Þegar litið er til baka átti hann svo sannarlega eftir að standa undir nafngjöfinni með sinni góðu nærveru og ást á tónlist.

Þegar pabbi varð bráðkvaddur aðeins 68 ára var mamma orðin mikill sjúklingur og fluttu þau Úlfar þá saman á Álagrandann í Vesturbænum. Þar voru þau búsett í tólf ár og á fjölskyldan ófáar góðar minningar frá heimsóknum sínum þangað. Þegar mamma lést svo árið 2004 var komið að breytingum hjá Úlfari. Hann flutti á sambýlið í Víðihlíð þar sem hann átti eftir að búa til æviloka. Þar var hann alla tíð mjög ánægður og þótti afskaplega vænt um sambýlisfólk sitt og yndislega starfsfólkið. Hann sagði hverjum sem vildi heyra að hann ætti „mjög flotta íbúð“.

Nýverið fékk Úlfar mjög mikinn áhuga á golfi og sótti hann golfnámskeið hjá Lovísu vinkonu sinni síðasta sumar. Það þótti honum einstaklega gaman og þrátt fyrir að hafa ekki fylgt leiðbeiningum í einu og öllu var hann að sjálfsögðu orðinn Íslandsmeistari í golfi eftir fyrsta tímann og var farinn að tala um að sig bráðvantaði golfsett, sem hann að sjálfsögðu fékk.

Samband Úlfars við börn okkar systkina, maka þeirra og börn var einstakt. Úlfar hafði að sjálfsögðu úrslitavald um það hvort nýr maki væri samþykktur í fjölskylduna. Það reyndist nú aldrei mikill farartálmi og var hann fljótur að vefja tengdasonum og –dætrum um fingur sér. Ýmislegt var brallað: gistihelgar, óvissuferðir, matarboð, tónleikar, keila og allt annað mögulegt. Fyrst og fremst var alltaf gaman.

Elsku bróðir minn. Þú varst vorboðinn ljúfi á ári hverju þegar þú byrjaðir að geta komið á hjólinu til okkar í kvöldmat. Ég mun sakna þess að fá símtöl frá þér um hvenær þú eigir að leggja af stað til okkar og geta sagt þér að hjóla af stað þegar fréttirnar á Stöð 2 eða RÚV byrja, allt eftir því hvort þú áttir að leggja í hann klukkan hálfsjö eða sjö. Ég mun sakna þess að fá símtöl þar sem þú vildir bara fá að heyra í Dóra. Ég mun sakna þess að hafa þig við kvöldverðarborðið. Ég mun sakna þess að hafa þig í lífi mínu. Vertu sæll, elsku bróðir.

Þín systir,

Ásta.

Elsku Úlfar minn.

Eins þungbært og mér þykir að kveðja þig, þá er margs að minnast og margs að sakna frá okkar einstöku vináttu sem ríkti í meira en þrjá áratugi. Vináttu sem einkenndist af væntumþykju, virðingu og umtalsverðri stríðni, þjarki og þrasi.

Ég hafði stundum gaman af því í þinni návist að þykjast eiga einhver leyndarmál sem mætti „alls ekki segja Úlfari“, vitandi að þér þætti nánast óbærilegt að verið væri að halda einhverju leyndu fyrir þér. „Dóri, komdu upp með'etta!“ sagðir þú ákveðinn og á endanum þurfti ég að viðurkenna að þetta væri „bara grín“. Þú varst samt líklega enn meiri stríðnispúki en ég. Þegar þú fékkst nýja og flotta hluti var það fyrsta verk á dagskrá að hringja í mig og núa mér því um nasir að ég ætti sko ekki svona. Að sama skapi mátti ég helst ekki eignast neitt nýtt án þess að þú ætlaðist til að ég gæfi þér það! Undirliggjandi var samt alltaf væntumþykja okkar beggja hvors í garð annars, enda töluðum við iðulega saman mörgum sinnum á dag.

Þú varst alltaf með beina línu í Ánalandið og ég mun sakna þess að heyra heimasímann hringja, vitandi að þú værir nánast sá eini sem hringdir ennþá í það númer. Sérstaklega mun ég sakna símtalanna í kjölfar kvöldfrétta, en þú varst alltaf með puttann á púlsinum og vildir fá mínar skoðanir á málefnum líðandi stundar.

Við Ásta vorum svo lánsöm að þú skyldir búa svona nálægt okkur og geta hjólað til okkar í kvöldmat með stuttum fyrirvara þegar veður leyfði. Stundum var það skipulagt en stundum reiðst þú líka bara á vaðið og mættir óboðaður – en alltaf varstu velkominn.

Mikið á ég eftir að sakna þess að ræða við þig um málefni líðandi stundar, frasanna, söngsins, hlátursins og þinnar sterku nærveru.

Takk fyrir allar góðu stundirnar, kæri vinur. Þú varst engum líkur og þó mér finnist þetta „ömulett“ núna, þá er ég svo þakklátur fyrir að hafa fengið að vera vinur þinn og mágur.

Halldór.

Mínar skýrustu minningar úr barnæsku eru heima hjá ömmu og Úlfari á Álagrandanum, þar sem Úlfar sýndi okkur stórmyndir á borð við Emil í Kattholti, Ronju Ræningjadóttur og Dalalíf. Ég á líka mjög góðar minningar af Úlfari í sveitinni að undirbúa brennur, golfmót eða kvöldvökur fyrir okkur fjölskylduna. Hann elskaði að halda uppi stuðinu, hvort sem var í fjölskylduveislum eða bara yfir ýsu á mánudagskvöldi.

Úlfar heillaði alla sem hann kynntist upp úr skónum með glaðlegri framkomu, einstökum karakter og sínu fallega og ómótstæðilega brosi. Það var erfitt að láta hann fram hjá sér fara, enda talaði hann töluvert hærra en flestir. Svo hafði hann líka svo ótrúlega góða nærveru, mikla samkennd og einlægan áhuga á fólki. Það var einfaldlega hvergi betra að vera en með honum.

Úlfar var eins og stóri bróðir okkar allra systkinabarnanna í fjölskyldunni, hann var alltaf að stríða okkur og við að stríða honum á móti. Það er svo sárt að horfast í augu við þá staðreynd að við fáum aldrei aftur símtal frá Útvarpi Íslandi, sem var það sem við kölluðum það þegar Úlfar byrjaði að hringja í alla fjölskylduna til þess að fá fréttir eða flytja fréttir af fjölskyldumeðlimum eða málefnum líðandi stundar. Oftast sannar, en stundum uppskáldaðar í ótrúlega skemmtilegum hugarheimi Úlfars. Að ógleymdum óvæntu kaffiboðunum til mömmu eða Báru sem Úlfar skipulagði og var búinn að bjóða fólki í áður en þær vissu af því.

Úlfar var, eins og við höfum öll alltaf sagt, límið í fjölskyldunni. Hann var alltaf með nýtt plan á prjónunum til að vera spenntur fyrir og átti oft svolítið erfitt með að njóta stundarinnar, þegar loksins kom að henni, því hann var svo spenntur fyrir næsta dagskrárlið í lífinu. Það var bara allt svo spennandi og æðislegt hjá Úlfari.

Elsku Úlfar. Þegar ég horfi til baka kemur ekkert annað en þakklæti upp í hugann fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu ótrúlega skemmtilega lífi sem þú lifðir. Það verður erfitt að hlusta á öll lögin sem við gauluðum saman í bílnum á leiðinni upp í sveit. Ég lofa samt að halda áfram í alla gleðina og sönginn sem þú gafst okkur.

Takk fyrir allt, okkar allra besti maður. Þú varst einstakur og það mun enginn koma í þinn stað.

Helga Lára.

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa til þín, elsku fallegi Úlfar minn. Þakklæti fyrir að hafa alist upp með þig í lífi mínu sem var ávallt stútfullt af kærleik, gleði, glens, söng, sviðsljósi og tilhlökkun með þér. Það er ótrúlegt að hugsa til þess hvað þú gafst mikið af þér og heillaðir alla upp úr skónum með þínum einstöku persónutöfrum.

Þú elskaðir fátt meira en veislur og samkomur þar sem þú nýttir hvert tækifæri til að fara upp á svið með það að markmiði að gleðja fólk, syngja eða halda góðar ræður þar sem umfjöllunarefnið var iðulega tengt næstu samkomu sem þú varst farinn að skipuleggja. Tilhlökkun og eftirvænting spilaði nefnilega stóran þátt í lífi þínu en sérstaklega fannst þér gaman að láta þig hlakka til næsta stórafmælis. Það er mér ótrúlega kært að hugsa til þess hvað við áttum góðar stundir saman við undirbúning á þínu síðasta stórafmæli sem haldið var með pomp og prakt sumarið 2019 þegar þú varst fimmtugur. Ég gleymi ekki gleðinni sem ljómaði í augunum þínum þegar við keyrðum út boðskortin með íslenska fánann á lofti. Í stórafmælinu var að sjálfsögðu öllu tjaldað til þar sem þú mættir eins og höfðingi í veisluna á hestvagni þar sem Dómkórinn og veislugestir tóku vel á móti þér á rauða dreglinum syngjandi Ísland ögrum skorið að þinni ósk.

Elsku Úlfar, takk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur. Takk fyrir allar yndislegu gleðistundirnar, sveitaferðirnar, tónleikana, ræðurnar og símtölin. Takk fyrir að vera alltaf í góðu skapi og létta okkur lund. Söknuðurinn er sár og það er ótrúlegt að hugsa til þess að þú sért ekki lengur hjá okkur. Minning þín mun lifa í hjörtum okkar að eilífu.

Góða nótt, elsku Úlfar.

Ísland ögrum skorið

eg vil nefna þig,

sem á brjóstum borið

og blessað hefur mig

fyrir skikkun skaparans;

vertu blessað, blessi þig

blessað nafnið hans.

(Eggert Ólafsson)

Þín bróðurdóttir,

Ragna Margrét Guðmundsdóttir.

Þær voru sorglegar fréttirnar sem ég fékk að morgni 21. nóvember, „Úlfar er dáinn“. Þegar svona gerist leitar hugur manns aftur í tímann, Úlfar var átta árum eldri en ég og var alltaf hluti af okkur með sína gleði og hressleika, þannig áttum við saman margar góðar stundir í Vesturhópshólum. Úlfar var alltaf til staðar þegar ég kom í sveitina til ömmu og afa og þá var hann alltaf til í að bralla ýmislegt með mér, við fórum í marga hjólatúra á Þorfinnsstaði í sjoppuna hjá Jóni bróður afa, rákum beljurnar í partinn og kindurnar í hólfin, gáfum hey og sópuðum garðana og settum moðið í poka, sóttum mjólk í mjólkurtankinn.

Úlfar var mikill dýravinur og beljurnar í sveitinni þekktu hann og vissu að það þýddi ekkert að gera annað en það sem hann vildi, hann fékk þær alltaf til að hlýða sér með sínu rólega yfirbragði.

Ég man eftir kvöldunum í sveitinni þegar þú varst með íslensku plöturnar á plötuspilaranum, þú kunnir öll lögin og söngst með. Hjá þér var alltaf þáttur í gangi eða einhver ímyndaður í viðtali hjá honum, eða næsta lag var kynnt inn. Á tali hjá Hemma Gunn var til á vídeóspólu og þú gast horft á sama þáttinn aftur og aftur.

Þær voru nokkrar ferðirnar sem voru farnar í kaupfélagið og pakkhúsið á Hvammstanga, á þessum tíma þótti fínt eða spes að fara í kaupstað svo við fórum yfirleitt öll á bænum í sparifötin, svo var farið af stað og þú þekktir að sjálfsögðu alla á tanganum. Mér þótti það sjálfsagt þá en svo á seinni árum hefur manni alltaf þótt það skemmtilegt að það var alveg sama hvert maður fór með Úlfari, alltaf þekkti hann einhvern á förnum vegi.

Þegar afi féll frá flytjið þið amma á Álagranda, þá byrjar þú að koma til okkar á Skeljagranda á hjólinu með sveitahundinn Kaffon, hann elti þig eins og skugginn svona yfirleitt en stundum kom hann einn og þá fékk maður smá sting og hélt að eitthvað hefði komið fyrir en svo komstu bara aðeins seinna, hafðir örugglega hitt einhvern eða bara stoppað aðeins til að njóta augnabliksins. Það var aldrei erfitt að fá þig til að fara með manni á rúntinn en það var ekki sama hvernig bíl maður var á, þú hafðir sérstaklega gaman af því að vera á fínum bílum, það skemmdi ekki fyrir ef það var Land Cruiser.

Eitt skiptið sem þú komst og gistir hjá okkur fór ég með þig á öll söfnin hér á Suðurnesjum, það var bara eitt safn sem átti hug þinn allan, það var Rokksafnið. Við fórum nokkrum sinnum þangað aftur en eina sem þú sagðir á hinum söfnunum var „jæja, hvað er svo næst?“.

Þú hafðir sérstakan áhuga á því að börnin mín væru að læra á hljóðfæri. Sérstaklega þótti þér gaman að Hinrik Bjarki væri að spila á saxófón, sýndir þessu mikla athygli og baðst hann alltaf að spila fyrir þig þegar þú komst til okkar.

Við eigum eftir að sakna allra örsímtalanna frá þér, sem voru mörg en oft stutt. Þú hafðir ekkert endilega mikið að segja en það var bara þetta eina sem þú þurftir að koma að og þá var það hvað væri næsta plan að gera, eða „hvað næst?“, það eru orð sem ég hef heyrt svo oft frá þér en hefði viljað heyra svo mikið oftar.

Hjalti Geir Guðmundsson.

Elsku Úlfar.

Það er óyfirstíganleg áskorun að reyna að koma því í orð hversu mikið ég elskaði þig og hversu mikið ég sakna þín. Þú varst besti vinur minn og vinátta okkar var svo einlæg og skilyrðislaus.

Við sköpuðum ótalmargar minningar saman, en vænst þykir mér um það hvernig þú gerðir hversdagsleikann svo miklu betri. Myndsímtölin á kvöldin þegar þú varst búinn í baði og kominn í náttfötin, með blauta lubbann þinn standandi út í allar áttir. Að sækja þig niður á Ægisíðu þegar þú komst á hjólinu, rölta með þér síðustu metrana upp á Melhaga og skella íslenskri mynd í sjónvarpið fyrir þig á meðan ég eldaði fyrir okkur. Kvöldverðirnir okkar í Ánalandinu þar sem þú fórst yfir það helsta sem var á döfinni og fékkst mig til að skrifa allt niður á miða sem þú kvittaðir svo undir með þinni einstöku undirskrift. Þú hafðir líka svo gott lag á því að hringja í mig á hinum óheppilegustu tímum, þegar ég hafði engin tök á að svara í símann eða var í öðru símtali. En núna langar mig ekkert meira en að finna titringinn í símanum og sjá nafnið þitt koma upp á skjáinn.

Ég er svo þakklát fyrir það hversu dugleg ég var að minna þig á að ég elskaði þig. Ég held þú vitir upp á hár hversu ótrúlega mikil áhrif þú hafðir á mig og hversu mikið þú gerðir fyrir mig. Ég vildi alltaf verja með þér eins miklum tíma og ég gat og ég varð alveg ómöguleg ef ég hafði ekki heyrt í þér í nokkra klukkutíma. Hinn fullkomni kvöldverður var kvöldverður með þér og skipti þá engu hvað var í matinn. Hin fullkomna helgi var hver sú helgi sem þú gistir hjá mér og vaktir mig eldsnemma í morgunmat. Hin fullkomna bústaðarferð var hver sú bústaðarferð sem þú komst með í. Hin fullkomna mínúta var mínúta með þér og ég vildi óska þess að þær hefðu orðið svo miklu fleiri.

Á þessari erfiðu kveðjustund þykir mér vænt um að sjá hversu djúpstæð áhrif þú hafðir á svo miklu fleiri líf en bara mitt. Þú hafðir einstakt lag á því að bora þig dýpst inn í hjörtu allra þeirra sem kynntust þér með þinni óbilandi jákvæðni og einstöku sýn á lífið. Sérstaklega misbauð þér þegar ekki var komið nógu vel fram við fólk sem minna mátti sín. Þeirra vandamál voru þín vandamál því enginn hafði sterkari réttlætiskennd en þú.

Í sorginni þykir mér þungbærast að hugsa til þess að börnin okkar Alexanders muni ekki fá að hitta þig. Þau munu svo sannarlega fá að kynnast Úlfari frænda sínum í gegnum sögur, myndir og myndbönd, en ekkert kemur þó í staðinn fyrir nærveru þína. Þegar ég sé hversu góðhjörtuð börnin í fjölskyldunni eru og hversu sterka samkennd þau hafa, þá veit ég að kynni þeirra af þér leika þar stórt hlutverk.

Elsku Úlfar. Líf mitt verður aldrei eins án þín og tómarúmið sem þú skilur eftir þig verður aldrei fyllt. Þér tókst algjörlega að afsanna þá ranghugmynd að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Því ég vissi nákvæmlega hvað ég átti í þér og okkar vináttu. Ég vissi alveg að ég var heppnust í heimi að hafa þig í mínu lífi. Og ég vissi svo sannarlega að þú værir besti maður í heimi.

Þín

Guðný.

Elsku besti Úlfar.

Ég og Guðný vorum rétt byrjuð að hittast þegar hún sagði mér frá því hversu yndislegur þú værir og hversu mikið hún elskaði þig. Ég vissi strax að ég yrði alltaf maðurinn í öðru sæti í hennar lífi og þegar ég hitti þig fyrst skildi ég af hverju og bar silfrið með stolti. Ég sat niðri í eldhúsi í Ánalandi þegar þú mættir með Bónuspoka í hendi og byrjaðir að spyrja mig spjörunum úr. Loks kom spurningin: „Átt þú konu?“ og þegar ég svaraði að svo væri og að hún héti Guðný Halldórsdóttir varðst þú aldeilis hissa – en þú varst líka ansi fljótur að bjóða mig velkominn í fjölskylduna og það myndaðist strax þessi ótrúlega sterka vinátta. Það var mikill heiður að fá að skipuleggja með þér tónleika og vera einn af þremur veislustjórum í frábæra fimmtugsafmælinu þínu. Mér þótti líka einstaklega vænt um þá hefð okkar að horfa saman á Jólagesti Björgvins í streymi í flottu íbúðinni þinni.

Ég gæti skrifað heila bók um allar okkar frábæru stundir saman, það koma svo margar upp í hugann. En ég læt mér nægja að geyma þessar minningar í hjarta mínu. Fyrst og fremst vil ég að þú vitir að þú kenndir mér meira á lífið en þú gætir nokkurn tímann ímyndað þér og ég ætla að halda minningu þinni á lofti með því að vera besta útgáfan af sjálfum mér og láta gott af mér leiða. Í minningu þinni ætla ég að halda áfram að hlusta á gömlu, góðu íslensku lögin og syngja með. Í minningu þinni ætla ég að halda áfram að horfa á klassísku íslensku kvikmyndirnar með „öl“ í hendi og nammi í skál. Í minningu þinni ætla ég að vera duglegur að gera mér dagamun, njóta hvers augnabliks og finna mér nýja hluti til að hlakka til.

Elsku bestu Úlfar. Eins sárt og það er að kveðja þig, þá veit ég samt hversu mikil forréttindi það voru að fá að kynnast þér og vera hluti af lífi þínu. Góðu og viðburðaríku lífi sem þú lifðir svo sannarlega til fullnustu með jákvæðni og lífsgleði að leiðarljósi. Þú mátt vera stoltur af þínu lífshlaupi og þeim miklu áhrifum sem þú hafðir á svo margt fólk. Sú mikla sorg sem við öll upplifum er einfaldlega vitnisburður um hversu dásamlegur þú varst og hversu heppin við vorum að þekkja þig.

Þrátt fyrir að ég sé ekki jafn trúrækinn og þú, þá ætla ég samt að hlýja mér við þá tilhugsun að þú hafir loksins fengið að hitta hann Jesú, að þú og Raggi Bjarna hafið átt frábæra endurfundi og að hann Matti vinur þinn sjái um að elda eitthvað gott fyrir þig.

Ég man enn er þú sagðir mér,

enginn veit þá næstur er.

Sit ég nú í sárum hér,

að það skuli komið að þér.

Þinn kæri vinur,

Alexander Freyr („Ale“).

Elsku hjartans vinur minn og partístjóri lífs míns er farinn yfir í Draumalandið. Þó að sorgin sé mikil þá ná allar óborganlegu minningarnar að ylja og lokka fram lítið bros – alveg eins og Úlfari sjálfum tókst alltaf að gera. Hann var nefnilega svo innilega hlýr og með hjarta úr gulli, stórskemmtilegur og mér leið alltaf svo vel í kringum hann. Hann var svona karakter sem gat dimmu í dagsljós breytt með breiða brosinu sínu, góðu klappi á öxlina eða knúsi og hvellum hlátri.

Ég var svo heppin að fá Úlfar í kaupbæti með Ernu minni þegar ég var sjö ára. Við áttum einstakt og dýrmætt vinasamband sem einkenndist af miklum fíflalátum og fjöri, söng, stuði og sýningum. Mér er minnisstætt að hafa sett upp ófá leikritin og skemmtiatriðin í sveitinni á Vesturhópshólum þar sem Úlfar kynnti okkur stelpurnar á svið með tilþrifum eins og honum einum var lagið.

Það er óhætt að segja að Úlfar okkar hafi verið hrifinn af hvers kyns dægurmenningu og um það leyti sem við erum að kynnast voru vinsælir matreiðsluþættir, Að hætti Sigga Hall, sýndir í sjónvarpinu sem skörtuðu föður mínum í aðalhlutverki. Það þótti Úlfari ekki amalegt og ávarpaði hann mig ávallt með fullu nafni í höfuðið á pabba: Krista Hall eða Kikka Hall eins og hann sönglaði það svo fallega. Með Úlfari og foreldrum mínum tókst líka mikill vinskapur enda fáir sem áttu jafn auðvelt með að eignast vini og Úlfar, sjarmörinn sem hann var. Eina sögu af þeirra kynnum man ég einkar vel. Eftir hreinsun á fataskáp foreldra minna færði pabbi Úlfari helling af huggulegum bindum enda lagði Úlfar alltaf mikið upp úr því að vera flottur í tauinu og skartaði ósjaldan smekklegu slifsi við skyrtu. Okkar maður var mjög upp með sér og þakklátur fyrir gjöfina. Nokkru seinna var hann spurður af hverju hann notaði aldrei flottu bindin frá Sigga og kom þá á daginn að það þætti Úlfari fráleitt. Þessi bindi hefðu verið notuð í sjónvarpinu, þau væru nú orðin þjóðþekkt og fólk gæti hreinlega haldið að hann hefði stolið þeim af Sigga Hall. Við hlógum mikið að þessu saman enda var Úlfar hinn mesti húmoristi. Hann var líka algjör prakkari og hafði gaman af því að stríða manni léttilega. Hann skaut reglulega á mig yfir ástamálum mínum og fussaði bara og sveiaði eins og gamall frændi þegar hann var kynntur fyrir kærustunum mínum. Og þegar allt kemur til alls get ég með sanni sagt að enginn hefur komist með tærnar þar sem Úlfar minn var með hælana þegar kom að herramennsku. Sá kunni að gleðja okkur gellurnar í lífinu hans. Hann bauð mér oft út að borða, hrósaði mér ótt og títt og hélt bestu partíin. Einu kröfurnar sem hann gerði til mín voru þær að ég myndi syngja Nínu og hann væri Geiri.

Vonandi er hann syngjandi sæll í Draumalandinu núna, í dúett með Ragga Bjarna og öllum hinum stjörnunum en þar er ég er viss um að Úlfar skíni skærast af þeim öllum.

Fjölskyldan var Úlfari allt og betri fjölskyldu hefði hann ekki getað átt. Ég votta ykkur öllum mína innilegustu samúð.

Hvíl í friði, elsku skemmtilegi og góði vinur minn.

Þín

Krista Hall.

Gleðigjafinn og mannvinurinn Úlfar Bjarki er látinn. Það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast honum og njóta hinnar einstöku kátínu og hjartahlýju sem geislaði frá honum.

Að hitta Úlfar Bjarka í fjölskylduboðum og meðtaka glaðværðina, barnslega einlægni og húmorinn hans, sem í senn var góðlegur og stríðinn, verður okkur alltaf minnisstætt.

Hvar sem hann kom þá var hann hrókur alls fagnaðar. Hann hélt ræður og spilaði og söng með sínu nefi. Í samkvæmum mátti oft sjá hann með míkrófón og söngbók með lögum Ragga Bjarna ef tækifæri gæfist til að taka einn rokkslagara.

Úlfar Bjarki átti einstaka fjölskyldu, ættmenni og vini sem hugsuðu vel um hann. Að fara á tónleika eða í keilu með sínu fólki voru hans bestu stundir. Hann var alla tíð mikill stuðbolti og elskaði samkomur og mannamót. Ógleymanlegt er fimmtugsafmælið hans þar sem okkar maður mætti í hestvagni að hætti húnvetnskra stórbænda og Dómkórinn hyllti höfðingjann með söng sínum. Ekki minni hetja en Geirmundur spilaði svo skagfirska sveiflu undir dansi er leið á kvöldið og að sjálfsögðu tók Úlfar Bjarki nokkra velvalda rokkstandarda með sveiflukónginum.

Þrátt fyrir meðfædda fötlun átti Úlfar Bjarki gott líf. Umhyggja fjölskyldunnar var einstök, lífsgleðin og góðmennskan voru hans einkenni og einlæg barnatrú hans á kærleikann og allt hið góða var hans leiðarljós.

Við leiðarlok viljum við þakka fyrir að hafa kynnst Úlfari Bjarka. Heimurinn væri betri ef við tileinkuðum okkur þá lífsgleði og manngæsku sem hann bjó yfir.

Við sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Minningin um okkar yndislega Úlfar Bjarka mun lifa meðal okkar.

Ragnar og Þóra.

Ég hef ekki þekkt Úlfar sérlega lengi, rétt um eitt og hálft ár, en allt frá okkar fyrsta fundi tókst með okkur góð vinátta. Áður en ég hitti Úlfar fyrst var mér sagt að Úlfar mölbryti strax allan vandræðaleika sem getur fylgt fyrstu kynnum. Og það reyndist laukrétt. Úlfar þurfti ekki langan tíma til þess að taka sér bólfestu í hjarta fólks. Raunar ekki nema örfáar sekúndur. Hann hafði einstakt lag á því að heilla fólk úr öllum áttum með gríni og glensi, og útgeislunin og lífsgleðin hreif alla sem hann hitti með sér. Og alls staðar þar sem hann kom stal hann senunni á augabragði. Hélt sínar frægu ræður, eða fékk aðra til að halda ræður, helst lofræður um hann og hans ágæti. Hann elskaði ekkert heitar en að koma fram með alls konar atriði. Söngelskur með eindæmum og nánast í hvert sinn sem við hittumst vildi hann fá að vita hvar næsta gigg væri, með hverjum ég væri að koma fram og endaði svo á að segja að hann væri nú búinn að vera söngvari í mörg ár og hefði mikla reynslu í bransanum. Og ógleymanlegt er hvernig hann stal senunni í veislunni okkar Hörpu í sumar og í réttunum í haust. Þar blómstraði minn maður með eindæmum. Það er ekki hægt að lýsa Úlfari með orðum. Og það verður erfitt fyrir okkur sem eftir sitjum að útskýra fyrir þeim sem ekki fengu að kynnast Úlfari hvers konar eðalmenni hann var. Hann gæddi lífið alls konar litum, var með einstaklega góð lífsgildi og viðhorf til lífsins. Að lífið væri dásamlegt, og maður ætti að njóta tilverunnar á meðan maður gæti. Takk fyrir allt elsku Úlfar minn. Þú varst svo sannarlega besti maður í heimi.

Bjarni Rúnarsson.

Úlfar Bjarki var stjarna. Hann var mættur til að hafa gaman, búa til stuð og stemningu. Það er óhætt að segja að honum hafi tekist einstaklega vel upp í þeim efnum. Hann hreif alla upp úr skónum með smitandi lífsgleði og hlýrri nærveru. Skarðið sem hann skilur eftir sig í Víðihlíð er stórt. Það er skrýtið að heyra ekki gömlu góðu slagarana óma frá íbúðinni hans, við söknum stuðboltans okkar. Það er mikil lukka að hafa fengið að vera samferða Úlfari Bjarka í lífinu, hvort sem það var stuttur spölur eða lengri leið. Við þökkum fyrir vináttuna, hlýjuna, fjörið. Við þökkum fyrir heimsins besta partí.

Fyrir hönd íbúa og starfsfólks í Víðihlíð 5-11,

Guðrún Nanny Vilbergsdóttir.

Elsku besti Úlfar okkar.

Það er svo erfitt að trúa því að þú sért farinn. Okkar besti maður, eins og við kölluðum þig. Og þú sem ætlaðir aldrei að deyja. En öll deyjum við víst einhvern tímann og eins og þú sagðir svo oft: „Enginn veit.“

Þú varst svo einstaklega næmur, mikill gleðigjafi og partíkall. Kunnir svo vel að njóta lífsins og passaðir að hafa alltaf eitthvað til þess að hlakka til. Þú varst elskaður og dáður og snertir hjörtu hvar sem þú komst með þinni dásamlegu framkomu og gleði. Við vorum meðvituð um það alla tíð hversu heppin við værum með þig og elskuðum þig nákvæmlega eins og þú varst.

Elsku dásamlegi kallinn okkar, takk fyrir allar gleðistundirnar og allt sem þú kenndir okkur. Takk fyrir öll símtölin (myndin alltaf á), gistipartíin heima og í fellihýsinu, keilu- og hjólaferðirnar, takk fyrir öll ógleymanlegu böllin þín og fjölskylduboðin sem þú gerðir svo miklu skemmtilegri og síðast en ekki síst takk fyrir að gera okkur að betri manneskjum.

Það verður tómlegt án þín en við munum halda minningu þinni á lofti með því að syngja afmælissönginn extra hátt og spila Ragga Bjarna í botni.

Þín

Berglind, Gísli,
Emilíana, Sigurgeir
og Jóel.

Elsku vinur okkar og félagi hann Úlfar Bjarki, sjálfskipaður partístjóri, veislustjóri, plötusnúður, skemmtanahaldari og skærasta stjarnan á svæðinu, er fallinn frá.

Okkur vinkonuhópnum áskotnaðist vináttan við Úlfar í gegnum Ernu Björk vinkonu okkar. Úlfar var hluti af samheldinni fjölskyldu Ernu Bjarkar, og þar sem Úlfar var þar var stuðið. Það æxlaðist þannig að Úlfar hóf fyrir mörgum árum að bjóða okkur vinkonunum heim til sín í pítsu, bjór og karókísöng. Í Úlfarspartíunum hafði hann litla þolinmæði fyrir þörf okkar vinkvennanna til að spjalla eða beina sjónum okkar að einhverju öðru en honum. Hann reif í hljóðnemann, kynnti inn lög og hver ætti að syngja hvaða lag, tók svo hljóðnemann af okkur ef honum leist ekki á, kláraði lagið og bað svo um uppklapp handa sjálfum sér. Einlægur, hreinskilinn og lífsglaður. Þannig minnumst við elsku Úlfars okkar. Í gegnum tíðina hafa líka verið ófá símtölin sem hafa farið á milli okkar og hans, og í seinni tíð myndsímtöl, þá lagði hann á ráðin um næsta partí og að við, allar gellurnar eins og hann kallaði okkur, ættum nú að fara að koma í heimsókn sem allra fyrst. Elsku Úlfar, það eina sem þú baðst um var tími og samvera, við erum allar svo þakklátar fyrir að hafa getað átt dásamlegan tíma með þér og hinar ótrúlega skemmtilegu samverustundir þar sem þú varst skærasta stjarnan.

Við munum halda minningu þinni á lofti og grípa reglulega í hljóðnema og syngja íslenskar dægurperlur þér til heiðurs.

Það var enginn eins og þú.

Þínar gellur,

Anna Rut, Arna,
Björk, Helena, Hrönn, Krista og Ragna.

Vinarkveðja

Nú floginn á braut er minn vænsti vinur,

vonglaður svífur hann englunum hjá.

Glaðlyndur hvað sem á daga hans dynur,

drengurinn ljúfi nú fallinn er frá.

Dýrin þú dáðir og börnin öll bræddir,

brosandi hefur nú gengið þinn spöl.

Líf okkar allra þú gleðinni gæddir,

guðdómleg var hún, þín jarðneska dvöl.

Svo lánsamur var ég þér kæri að kynnast,

kærleikur einkenndi ávallt þitt geð.

Með hlýju og söknuði mun ég þín minnast,

minning um vin sem með trega
ég kveð.

Þinn vinur,

Birgir Hafstein.

Þetta er alveg ömlulegt sagði Úlfar við mig í sumar þegar við hittumst eftir andlát Matta míns, nú segi ég það er alveg ömlulegt að þurfa að kveðja þig, elsku vinur.

Minningarnar hrannast upp og margar eru þær tengdar Vesturhópshólum, þar sem þú ásamt þinni stórkostlegu fjölskyldu hélst ófáar hátíðirnar sem við vorum svo heppin að fá að taka þátt í.

Stanslaust stuð þar sem þú tókst hlutverk þitt sem Hólahöfðingi alvarlega og sást til þess að aldrei væri dauð stund, leikir, söngur, varðeldur og ball sem þú stjórnaðir af stakri snilld.

Heimsóknirnar í Víðihlíðina, snakkið undir servíettunni svo maður myndi ekki borða allt frá þér og nóg af bjór. Aldrei var farið heim án þess að taka nokkur lög í karókí, við vorum farin að mastera Nínu og Geira. Ein heimsókn er mér ofarlega í minni, þegar ég var að huga að heimferð bauðstu mér upp á bjór. Ég sagði nei takk, ég ætti alveg bjór heima, en það var ekki tekið mark á nei sem svari þegar þú varst annars vegar og þú settir bjór í úlpuvasann minn eftir smá þras. Kallaðir svo á eftir mér niður stigann að ég væri sko búin að vera að drekka bjór og væri með bjór í vasanum og ég væri á bíl. Ég leit ekkert eðlilega illa út og ekki þótti þér leiðinlegt að sjá vandræðaganginn á mér, enda stríðinn með eindæmum. Kveðjustundin kemur of snemma, við áttum eftir að mastera golfið saman en mikið er ég þakklát fyrir að við náðum þó einum hring í haust. Ég tók við þig viðtal eins og atvinnumann þar sem þú laugst því til að þú værir búinn að stunda sportið í mörg ár.

Elsku Úlfar, takk fyrir að hafa valið mig sem vin, takk fyrir allan kærleikann sem þú gafst frá þér.

Það getur enginn fyllt í það skarð sem þú skilur eftir. En það er ekkert annað í stöðunni en að una veruleikanum eins og hann er. Minning þín mun lifa í hjörtum svo ótal margra sem syrgja þig sárt.

Góða ferð, elsku vinur, og eins og þú sagðir til Matta í þinni fallegu minningargrein segi ég:

Sjáumst næst á himnum.

Fjölskyldu Úlfars vil ég votta mína innilegustu samúð.

Þín vinkona,

Signý gella.

Það er aðeins örfáum gefinn sá eiginleiki að snerta hug og hjarta svo ótal margra og á jafn fallegan hátt og Úlfar Bjarki gerði. Úlfar var risastór persónuleiki, sem kom alltaf til dyranna eins og hann var klæddur. Fullkomlega einlægur í öllu sem hann gerði, næmur á tilfinningar annarra og tjáði væntumþykju sína svo tært: „Þú ert vinur minn,“ og: „Þú ert mjög góður maður.“ Hann var líka glettinn húmoristi sem elskaði að stríða fólkinu í kringum sig.

Úlfar var ekki aðeins sameiningartákn fjölskyldunnar eða stórfjölskyldunnar heldur heillar ættar. Honum samdi við alla og hann var allra. Tveimur dögum fyrir andlátið spilaði hann keilu með 12 og 13 ára frændum sínum. Allir þrír ljómuðu af gleði eftir leikinn og á heimleiðinni var yndislegt að upplifa kærleikann og vináttuna milli þeirra.

Hann hafði þann eiginleika að draga alltaf það besta fram í fólki. Hann var ríkur að ástvinum og átti stóra og þétta fjölskyldu sem annaðist hann svo fallega. Þar fyrir utan var hann í sérstökum metum í vinkvennahópum frænkna sinna, sem hann kallaði alltaf gellur.

Köllun hans í lífinu var að skemmta, gleðja og sameina. Hann var fæddur skemmtikraftur sem tók yfir allar samkomur, stórar og smáar, með sinni útgeislun og persónutöfrum. Nærvera hans fyllti heilu veislusalina. Hann var söngmaður af guðs náð, með þaulæfða sviðsframkomu, en helst vildi hann ekki taka lagið fyrr en hann hafði verið kynntur rækilega á svið. Af öllu því sem hann var góður í þá var hans sérgrein að stela senunni í stórafmælis- og brúðkaupsveislum, svo þær urðu ógleymanlegar. Honum var sléttsama um þá óskrifuðu reglu að ræður í brúðkaupum fjalli á einhvern hátt um brúðhjónin. Nei, hann var algjörlega frjáls undan þeirri hefð. Í Brúðkaupi Krissu og Bigga flutti hann frumsamið ljóð um undirritaðan. Í brúðkaupi okkar Ernu fjallaði ræðan að mestu um Sigga Hall.

Úlfar var alla tíð trúrækinn og sótti vikulega messu í Dómkirkjunni í Reykjavík. Hann er nú genginn á vit foreldra sinna og ástvina. Það má vel ímynda sér móttökutónleikana þar sem Úlfar tekur lagið með sínu eftirlætis listafólki; Ellý, Ragga Bjarna og Hemma Gunn.

Eitt sinn var Úlfar að ræða við Báru systur sína um lífið og tilveruna. Í því samtali sagði Úlfar: „Ég dey aldrei.“ Hann hafði örugglega rétt fyrir sér, því maður sem færði svo ótal mörgum hamingju og gleði lifir áfram í hjörtum okkar allra sem þekktum hann.

Úlfar, þú ert vinur minn.

Valgeir Örn Ragnarsson.

Ég kveð nú kæran vin sem var mér dýrmætur, það var svo auðvelt að þykja vænt um elsku Úlfar. Ég kynntist Úlfari fyrst í Gáska þar sem hann var í æfingum hjá Eddu sinni. Það var alltaf líf og fjör í kringum hann en ekki fannst honum samt neitt rosalega gaman að gera æfingarnar. Hann vildi frekar vera að syngja eða spjalla og var í essinu sínu þegar hægt var að krydda hversdaginn með uppákomum með tónlist. Við skemmtum okkur vel í að undirbúa jólatónleika Gáskabandsins þar sem Úlfar mætti sem gestasöngvari og fór á kostum. Hann elskaði tónlist. Þegar Edda skellti sér í fæðingarorlof var ég svo heppin að fá að vera sjúkraþjálfarinn hans um tíma, „bara þangað til Edda kemur aftur“, hann vildi að ég vissi að þannig myndi það vera.

Úlfar mætti reglulega í messur í Dómkirkjunni. Þegar hann uppgötvaði að ég söng í kórnum þar urðu þær heimsóknir að föstum lið í hans lífi. Fljótlega sagði ég honum að hann yrði að koma og sitja uppi hjá kórnum því annars sat hann hálfa messuna öfugur í sætinu niðri til að fylgjast með kórnum. Hann tók því að sjálfsögðu vel og eftir það varð Úlfar hluti af hópnum uppi á svölum, hann fylgdist vel með tónlistinni og hvatti okkur áfram með því að senda okkur þumal og stundum hreifst hann svo með að hann gat ekki staðist það að klappa. Hann lét skýrt í ljós ef honum þótti tónlistin falleg. Hann hringdi reglulega í mig til að athuga hvort ég væri að syngja næstu messu og líka til að segja mér ef honum þótti einhver sálmur eða tónlist sérstaklega falleg, þá sagði hann: „Sólrún, þetta var æðislegt lag.“ Úlfar var mjög einlægur og kurteis í messusókn sinni, þar sýndi hann greinilega að hann kunni að njóta. En hann var líka mikill stuðbolti þegar þannig lá við eins og við kórinn sáum svo vel í fimmtugsafmælinu hans.

Ég á eftir að sakna Úlfars, ég á eftir að sakna símtalanna frá honum og að hitta hann í messum eða Gáska. Úlfar átti einstaklega fallegt samband við fjölskyldu sína, ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur og skila hlýrri kveðju frá Dómkórnum í Reykjavík. Hans verður saknað úr Dómkirkjunni.

Hvíl í friði, elsku Úlfar.

Sólrún Sverrisdóttir.

Í dag kveðjum við Úlfar Bjarka með miklum söknuði. Tíðindin um að Úlfar hefði orðið bráðkvaddur komu sem þruma úr heiðskíru lofti. Það hafði staðið til að heimsækja hann í Víðihlíð og jafnframt að fara með honum í heimsókn til föðursystkina hans, þeirra Gunnlaugs og Ástu, sem hann hafði miklar mætur á. Aldrei kom til þess.

Úlfar var einstaklega glaðvær, tónelskur og mikill selskapsmaður. Hann átti frumkvæði að því að haldin voru ættarmót í stórfjölskyldunni. Hann fylgdi því fast eftir að athafnir fylgdu orðum í þeim efnum. Hann sá til þess að ættarmótin væru haldin, kom að skipulagningu þeirra og setti sterkan svip á samkomurnar með fjölbreyttu og fjörugu uppistandi. Sérstaklega eftirminnilegir eru tónleikar sem Úlfar stóð fyrir í fyrra með aðstoð systkina sinna og systkinabarna á Rauða ljóninu þar sem hann bauð vinum og ættingjum upp á skemmtilega kvöldstund þar sem söngur og uppistand voru í aðalhlutverki. Á slíkum stundum lék Úlfar á als oddi. Úlfar lagði sérstaka rækt við frændgarðinn og var vinmargur. Tæknin gerði honum auðveldara um vik að hafa samband við ættingja og vini og hringdi hann óspart í gegnum fasbókina (Facebook). Þannig náði hann að viðhalda tengslum sem voru honum mikilvæg og ekki síst mikilvæg fyrir þá sem nutu þeirrar gæfu að berast símtal frá Úlfari. Gleðisímtöl við Úlfar verða ekki fleiri og tilvera margra fátæklegri nú þegar hann er farinn á vit feðra sinna. Minningin um einstakan öðlingsdreng mun lifa um ókomna daga.

Við vottum fjölskyldu hans og vinum innilega samúð á þessum erfiðu tímum.

Blessuð sé minning Úlfars Bjarka.

Áslaug Gunnlaugsdóttir, Ágúst Sæmundsson.